Maður sér stundum með áberandi letri á einhverjum vörum að þær séu hveitilausar, glútenlausar, eggjalausar, mjólkurvörulausar, sykurlausar, hnetulausar, hitaeiningalausar og ég veit ekki hvað og hvað. Einhvern tíma man ég að ég smakkaði einhverja slíka vöru og bölvaði því á eftir að hún skyldi ekki vera bragðlaus líka …
En hér er reyndar uppskrift að lummum sem eru lausar við eitt og annað. Til dæmis hveiti, glúten, mjólkurvörur, egg og sykur. Þær eru ekkert alveg hitaeiningalausar samt og heldur ekki bragðlausar, en í þessu tilviki er það samt frekar kostur (svo er líka hægt að bragðbæta deigið á ýmsan hátt, til dæmis með ferskum kryddjurtum).
Áleggið sem ég nota hér – eða fyllingin – er reyndar ekki alveg svona „laus“, það er notað smjör og ostur, en það má vel steikja sveppina upp úr olíu og sleppa ostinum. Eða kannski nota einhvern vegan-ost en ég veit ekkert um svoleiðis svo að ég ætla ekkert að ráðleggja með það. En ég merki þær sem vegan því að lummurnar sjálfar eru það og svo má auðvitað nota hvaða fyllingu/álegg sem mann lystir.
Í soppuna er semsagt notað kjúklingabaunamjöl (gram flour eða chickpea flour, ætti að fást í heilsubúðum og stórmörkuðum) og vatn.
Ég vigtaði 300 g af kjúklingabaunamjöli og setti í matvinnsluvélina (eða hrærivél, eða það má bara nota handþeytara) ásamt 200 ml af vatni, 3 msk af ólífuolíu, 1/2 tsk af kummini og 1/2 tsk af salti. Hrærði þetta allt vel saman, þar til soppan var slétt, og lét standa nokkra stund.
Svo tók ég 400 g af sveppum. Það má nota bara venjulega sveppi en ég var með blandaða sveppi (mætti líka nota blandaða og venjulega til helminga). Grófsaxaði þá og skar svo 2 hvítlauksgeira smátt. Bræddi 50 g af smjöri á pönnu (eða það má líka nota væna skvettu af olíu), setti sveppi og hvítlauk á hana ásamt nokkrum timjangreinum eða 1/2 tsk af þurrkuðu timjani og dálitlu pipar og salti og lét krauma við meðalhita þar til sveppirnir voru orðnir gullinbrúnir. Hrærði oft á meðan.
Svo kveikti ég á ofninum og stillti hann á 200°C. Hitaði dálitla olíu á pönnu og steikti fremur þykkar lummur við nokkuð góðan hita.
Annars má líka hafa soppuna þynnri, steikja pönnukökur úr henni og vefja þeim um fyllinguna og baka síðan. Það er reyndar síst verra.
En ég var með lummur semsagt. Svo að ég raðaði nokkrum lummum á pappírsklædda bökunarplötu. Helmingnum eða þriðjungnum, eftir því hvort maður vill tveggja hæða eða þriggja hæða turna.
Svo setti ég nokkra sveppi ofan á og síðan aðra lummu og svo e.t.v. annað lag af sveppum og enn eina lummu. Setti svo kúf af rifnum osti á hvern stafla (nema ef maður er í vegan-gír en það var ég ekki) og stakk plötunni í ofninn þar til osturinn var bráðinn.
Svo bar ég lummurnar fram heitar með salati.
Kjúklingabaunalummur með sveppum
300 g kjúklingabaunamjöl (gram flour)
200 ml vatn, eða eftir þörfum
3 msk ólífuolía
1/2 tsk kummin
1/2 tsk salt
olía til steikingar
*
400 g sveppir, gjarna blandaðir
2 hvítlauksgeirar
50 g smjör
nokkrar timjangreinar eða 1/2 tsk þurrkað timjan
pipar og salt
100 g rifinn ostur
[…] MAN – ég hef áður birt uppskriftir úr þessum þætti, hér, hér, hér, hér, hér, hér og hér – ég held að þetta sé sú seinasta en er ekki alveg […]