Ég held ég hafi ekki verið búin að þakka almennilega fyrir viðtökurnar sem bókin mín, Pottur, panna og Nanna, fékk fyrir jólin – hún seldist upp og mér skilst að lítið sem ekkert hafi komið inn á forlagið í bókaskilum eftir jól; fáein eintök eru sjálfsagt til í einhverjum búðum en þó varla mörg. Hún var líka mest selda matreiðslubók ársins 2017. Svo að ég er hæstánægð.
Hér er aftur á móti uppskrift úr bók sem ég sendi frá mér fyrir tveimur árum, Létt og litríkt, og fékk líka mjög fínar viðtökur þótt eitthvað sé til af henni enn. Í henni er töluvert af grænmetisréttum (eins og reyndar í Pottur, panna og Nanna líka; margir tengja steypujárn fyrst og fremst við eldamennsku á kjöti en það er svo sannarlega hægt að nota það við grænmetiseldamennsku líka). Þessi uppskrift er semsagt fyrir grænkera (af því að það er nú veganúar) en líka fyrir hvern sem er.
Þetta eru alltsvo bakaðar sætar kartöflur með fyllingu. Ég var með tvær sætar kartöflur, ekkert risastórar en ekki pínulitlar heldur; ég reikna með einni á mann svo að þetta er fyrir tvo. Upplagt (en ekki nauðsynlegt) að hafa eitthvert kornmeti með, til dæmis hrísgrjón, soðið bygg eða bulgur.
Ég byrjaði á að hita ofninn í 200°C. Svo penslaði ég kartöflurnar með svona 1 tsk af olíu og pikkaði göt á hýðið á nokkrum stöðum með gaffli. Svo setti ég kartöflurnar í eldfast mót og bakaði þær í 50-60 mínútur, eða þar til þær voru orðnar vel meyrar.
Á meðan saxaði ég hálfan rauðlauk, 2-3 hvítlauksgeira, hálfa rauða papriku og 1 chilialdin (eða eftir smekk). Hitaði 2 tsk af olíu á pönnu og lét grænmetið krauma við meðalhita í 5 mínútur eða svo. Þá tók ég 125 g af kirsiberjatómötum og skar þá í fjórðunga, setti þá á pönnuna og kryddaði með 1 tsk af kummini, 1 tsk af óreganói, pipar og salti og lét krauma í 3-4 mínútur í viðbót. Þá setti ég væna lúku af spínati á pönnuna, hrærði og lét malla í 1-2 mínútur. Hellti þá öllu saman í skál og lét kólna aðeins. Flysjaði eina lárperu, skar hana í litla teninga og blandaði saman við.
Ég tók svo sætu kartöflurnar út þegar þær voru meyrar, setti hvora um sig á djúpan disk eða í skál og skar þær næstum alveg í sundur eftir endilöngu – en bara næstum – og opnaði þær dálítið.
Ég setti hluta af fyllingunni inn í kartöflurnar og dreifði hinu í hring. Saxaði kóríanderlauf og dreifði yfir.
*
Sætar kartöflur með fyllingu
2 sætar kartöflur, ekki mjög stórar
um 1 msk olía
½ rauðlaukur
2-3 hvítlauksgeirar
½ rauð paprika
1 chilialdin, eða eftir smekk
125 g kirsiberjatómatar
1 tsk kummin
1 tsk óreganó
pipar
salt
væn lúkufylli af spínati
1 lárpera, vel þroskuð
kóríanderlauf