Litríkt á frostavetri

Það hefur verið nokkuð svalt og næðingssamt síðustu dagana þótt allt slíkt blikni í samanburði við veðrið sem var fyrir nákvæmlega hundrað árum, en það var einmitt í janúar, frá því um þrettándann, sem frostaveturinn 1918 var hvað harðastur. Þá voru vatnsvandræðin í Reykjavík önnur en nú – það var vatnsskortur í bænum vegna þess að svo margir létu stöðugt renna úr krönunum svo að ekki frysi í pípunum. Og þá var engin hitaveita og mikill eldsneytisskortur vegna stríðsins.

Við þurfum ekki að kljást við neitt slíkt og hér er einföld og létt uppskrift, ekta Miðjarðarhafssalat, litríkt og og suðrænt, sem lífgar upp á skammdegismyrkrið – ekki veitir nú af þessa dagana – og gleður augað og bragðlaukana. Best er að bera það fram með nógu af góðu brauði.

Þetta salat hentar fyrir grænkera og ætti að passa fyrir tvo sem léttur aðalréttur, en það getur líka verið meðlæti, t.d. með fiski eða kjúklingi. Og rúsínuóvinir geta vitaskuld sleppt rúsínunum eða notað eitthvað annað í staðinn …

Ég byrjaði á að hita ofninn í 200°C. Svo tók ég eitt eggaldin og skar það í munnbitastærð. Tók svo þrjár hálfar paprikur – rauða, gula og græna en það má nota hvaða samsetning sem er – og skar þær í ræmur. Blandaði saman 3 msk af ólífuolíu, pipar og salti, velti eggaldini og paprikum upp úr blöndunni, dreifði úr þessu í ofnskúffu og bakaði í 20 mínútur. Þá tók ég 200 g af kirsiberjatómötum – þessir voru blandaðir, sumir rauðir, sumir gulir, sumir kringlóttir, sumir perulaga, en það er nú ekkert nauðsynlegt – og dreifði þeim í skúffuna.

_MG_0095 (1)

Setti hana svo aftur í ofninn og bakaði grænmetið áfram í 10 mínútur, eða þar til það var allt orðið meyrt og aðeins að byrja að brúnast. Þá tók ég grænmetið út, hellti því í skál (ásamt olíunni í ofnskúffunni), blandaðu 50 g af rúsínum (mér þykja ljósar bestar) og 1 1/2 msk af balsamediki saman við og lét hálfkólna.

_MG_0154

Þá tók ég 100-150 g af blönduðum salatblöðum, blandaði þeim saman við og hellti öllu saman á fat.

_MG_0139

Eggaldin- og paprikusalat með rúsínum

1 eggaldin

1/2 rauð paprika

1/2 gul eða appelsínugul paprika

1/2 græn paprika

3 msk ólifuolía

pipar

salt

200 g kirsiberjatómatar

50 g rúsínur, gjarna ljósar

1 1/2 msk balsamedik

100-150 salatblanda

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s