Orkubitar

Það er nú ekkert meiningin að hér verði bara uppskriftir að salötum og súpum þennan mánuðinn – og ekkert endilega heldur að allar uppskriftir verði vegan. Flestar kannski samt. Þessi er það reyndar en hér er þó hvorki um súpu né salat að ræða, heldur köku. Eða orkubita eða hvað maður vill kalla það.

Jújú, engar dýraafurðir, enginn viðbættur sykur, ekkert hveiti eða glúten. Uppskriftin var unnin í samstarfi við næringarfræðinemann hana dótturdóttur mína. En hollusta? Ég veit það ekki. Þó veit ég að þetta er ekkert megrunarfæði, þarna er nokkuð mikil fita úr öllum hnetunum (þó heldur af hollara taginu) og ávaxtasykur úr döðlunum og apríkósunum.

Apríkósur, já. Þegar ég gerði uppskriftina voru ferskar apríkósur til í flestum búðum. Það er árstíðabundið og það er ekki alltaf jafnauðvelt að fá þær en svo má nota aðra ávexti (ferskjur eða nektarínur, til dæmis) eða jafnvel ósætt eplamauk úr krukku. Bragðið verður bara svolítð öðruvisi – en það mætti líka mauka þurrkaðar apríkósur saman við. Kannski 125 g þurrkaðar apríkósur á móti 125 g af ósætu eplamauki (ef mann vantar bara lítið magn getur verið tilvalið að nota einfaldlega barnamat úr krukku).

_MG_8185

En þarna var ég semsagt með ferskar apríkósur og ég byrjaði á að steinhreinsa þær og skera þær í bita. Kveikti svo á ofninum og hitaði hann í 175°C. Svo steinhreinsaði ég 10 döðlur og maukaði þær vel saman við 200 g af hnetusmjöri í matvinnsluvél. Svo setti ég apríkósurnar út í og maukaði þær saman við, dálítið gróft þannig að enn sáust bitar í deiginu.

_MG_8187

Ég blandaði saman 200 g af möndlumjöli og 1 tsk af lyftidufti og hrærði saman við og að lokum blandaði ég 60 g af rúsínum og 60 g af jarðhnetum saman við (notaði sleikju, ekki vélina). Svo klæddi ég lítið, eldfast mót (eða kökuform) að innan með bökunarpappír, setti deigið í það, sléttaði yfirborðið og bakaði kökuna á næstneðstu rim í um 20 mínútur, eða þar til hún hafði stífnað.

Apríkósu-hnetubitar (3)

Þá lét ég hana kólna í forminu og skar hana svo í bita (12 bita eða svo). Gætilega, henni hættir við að molna dálítið.

*

Apríkósu-hnetubitar

10 döðlur, steinhreinsaðar

200 g hnetusmjör

250 g ferskar apríkósur (eða ferskjur)

100 g möndlumjöl

1 tsk lyftiduft

60 g rúsínur

60 g jarðhnetur

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s