Ef maður vill bragðgóða, ódýra og frekar einfalda grænmetisrétti er hægt að gera margt vitlausara en að halla sér að indverskum mat, enda eru grænmetisætur hvergi fleiri en á Indlandsskaga og þar kann fólk líka vel að nota krydd og bragðefni til að breyta einföldu hráefni í alls konar kræsingar.
Einn þekkasti indverski grænmetisrétturinn er aloo gobi, upprunninn í Punjab en nú vinsæll um allan Indlandsskagann og til í úteljandi útgáfum sem kannski eiga fátt annað sameiginlegt en að innihalda kartöflur (aloo) og blómkál (gobi). Sumar útgáfurnar eru syndandi í sósu eða að minnsta kosti nokkuð „blautar“ og innihalda þá oft tómata en hér er „þurrt“ aloo gobi, þar sem vökvinn er fyrst og fremst gufa frá grænmetinu sjálfu.
Blómkál og kartöflur er semsagt aðalhráefnið og ég var með 500 g af hvoru. Byrjaði á að skera kartöflurnar í 1–1 1/2 cm teninga (óþarfi að afhýða þær nema hýðið sé þykkt) og skiptu blómkálinu í kvisti, nokkru stærri en kartöflubitarnir voru.
Karrílauf (curry leaves) eru mikið notuð í indverskri og suðaustur-asískri matargerð. Þau hafa í sjálfu sér ekkert með karrí að gera þótt þau séu oft notuð í karrírétti. Þau fást oft hér í austurlenskum búðum en þegar ég fæ þau ekki (eða nenni ekki að leita að þeim) hef ég stundum notað fersk lárviðarlauf og rifinn límónubörk. Annað bragð en hægt að notast við það samt … Og það var einmitt það sem ég gerði hér. Byrjaði á að hita 3 msk af olíu í wok (eða á þykkbotna pönnu) og steikja laufin í 20–30 sekúndur.
Svo tók ég einn saxaðan lauk og bita af engiferrót, smátt saxaðan, setti í wokpönnuna ásamt rifnum berki af einni límónu og lét krauma í nokkrar mínútur við meðalhita. Á meðan blandaði ég saman 1 tsk af garam masala, 1 tsk af túrmeriki, 1 tsk af chilidufti (ekki chilipipar), dálitlum nýmöluðum svörtum pipar og klípu af salti. Stráði öllu kryddinu yfir, hrærði og lét krauma í 1–2 mínútur.
Ég setti kartöflurnar út í, hrærði og steikti í 2–3 mínútur. Skipti blómkálinu í kvisti en hafði þá nokkru stærri en kartöflurnar. Setti svo blómkálið á wokpönnuna. Ég hrærði allt vel saman, setti lok yfir, lækkaði hitann og lét krauma við vægan hita í 15–20 mínútur, eða þar til grænmetið var orðið meyrt. Hrærði nokkrum sinnum en reyndi samt að opna pönnuna sem minnst. Það má bæta við smáskvettu af vatni ef grænmetið virðist ætla að brenna.
Á meðan (nú, eða á undan) bakaði ég roti-flatbrauð (líka kallað chapati og phulka, misjafnt eftir héröðum) til að hafa með. Setti 300 g af heilhveiti, 175 ml af vatni, 1 tsk af salti og 1 msk af olíu í matvinnsluvél (eða hrærivél) og lét hana ganga þar til komin var mylsna sem minnti á kúskús. Svo má bæta við örlitlu hveiti eða vatni ef þarf; deigið á að vera þétt í sér en ekki þurrt.
Ég skipti því í 6–12 jafnstóra bita og flatti hvern þeirra út í mjög þunna, kringlótta köku. Svo bakaði ég flatbrauðin á þurri, þykkbotna pönnu á góðum hita þar til brúnir blettir fóru að myndast; þá sneri ég þeim við og bakaði á hinni hliðinni. Staflaði þeim upp jafnóðum og breiddi rakt viskastykki yfir.
Þá var grænmetið akkúrat orðið meyrt. Ég kreisti svolítinn límónusafa yfir rétt í lokin, hrærði og skreytti með kóríanderlaufi (má sleppa). Svo bar ég þetta fram með brauðinu og límónubátum – og það er líka upplagt að hafa soðin hrísgrjón með.
Aloo gobi
500 g kartöflur
500 g blómkál
nokkur karrílauf eða 3 lárviðarlauf og rifinn börkur af 1 límónu
3 msk olía
1 laukur, saxaður
2 1/2 cm biti af engiferrót, saxaður smátt
1 tsk garam masala, eða eftir smekk
1 tsk túrmerik
1 tsk chiliduft (ekki chilipipar)
nýmalaður svartur pipar
nýmalaður svartur pipar
salt
1 límóna
kóríanderlauf (má sleppa)
*
Roti
300 g heilhveiti
175 ml vatn
1 tsk salt
1 msk olía
[…] Ég man ekki hvort ég tók einhverjar myndir af undirbúningnum en ég finn þær allavega ekki. En uppskrift að brauðinu má finna hér. […]
[…] datt mér í hug að gera einhvers konar aloo gobi, sem er alþekktur indverskur grænmetisréttur. Vissi að vísu fyrirfram að gobi-hlutinn af […]