Indverskt – næstum því

Á morgun eru fjórar vikur frá því að ég keypti seinast eitthvað matarkyns – eða reyndar bara eitthvað yfir höfuð, því ég er ekki að kaupa neitt annað heldur – og ég er kannski aðeins farin að finna fyrir því núna að ýmislegt er að klárast (eða var ekki til þegar ég byrjaði í einangruninni og nú er maður ekki að hlaupa út í búð). Þó ekki svo að það bjargist ekki með einhverju móti, það er næstum alltaf hægt að breyta uppskriftinni – eða hugmyndinni sem unnið er út frá því að ég fer nú sjaldnast alveg eftir uppskriftum hvort eð er.

Núna datt mér í hug að gera einhvers konar aloo gobi, sem er alþekktur indverskur grænmetisréttur. Vissi að vísu fyrirfram að gobi-hlutinn af nafninu væri ekki inni í dæminu því gobi þýðir blómkál og það er búið. En ég á enn til aloo (kartöflur), að vísu bara bökunarkartöflur, svo að sá hluti var í lagi. Og svo voru til sætar kartöflur og baunir, það má notast við það. Og ég átti frekar krumpaðan og skorpinn engiferbita.

Ég var eiginlega alveg viss um að kryddið væri í lagi, ég á ansi vel birgan kryddskáp. En kryddið í uppskriftinni sem ég var með í huga (sjá tengil hér ofar) var garam masala, túrmerik og chilikryddblanda (ekki chilipipar). Ég átti ekkert af þessu þegar til átti að taka. En annað kom þá bara í staðinn …

_MG_5053

Ég byrjaði á að skera eina bökunarkartöflu (það væri samt betra að vera með nokkrar litlar kartöflur, t.d. rauðar eða gullauga) og hálfa sæta kartöflu í litla teninga. Svo hitaði ég 1 msk af olíu á wokpönnu (eða stórri þykkbotna pönnu). Skar niður einn lauk og saxaði einn bita af engifer smátt. Klippti svo eitt ferskt lárviðarlauf smátt (því má sleppa ef maður á ekki lárviðartré í stofuglugganum) og reif börk af hálfri límónu. Setti þetta svo á wokpönnuna og steikti í 2-3 mínútur. Þá setti ég kartöflurnar og sætu kartöflurnar á pönnuna og steikti við háan hita í nokkar mínútur, þar til kartöflurnar voru byrjaðar að taka lit.

_MG_5056

Þá stráði ég kryddi yfir – það sem ég notaði var 1 tsk af korma-karríblöndu, 1 tsk kummin, 1 tsk paprikuduft, smáklípa af chiliflögum, pipar og salt – hrærði vel og steikti í 1-2 mínútur. Hellti þá 150 ml af vatni á pönnuna, setti lok yfir, lækkaði hitann og lét malla í svona 10 mínútur.

_MG_5063

Þá bætti ég hálfri dós af blönduðum baunum (má nota næstum hvaða baunir sem er, nema ég hef efasemdir um Ora grænar) á pönnuna og lét malla í um 5 mínútur í viðbót, eða þar til allt var meyrt og nær allur vökvi gufaður upp (ef það gerist of snemma má bæta við svolitlu vatni svo að grænmetið brenni ekki). Svo smakkaði ég og bragðbætti eftir þörfum. (Þetta græna á myndinni eru sellerílauf og þau eru bara til skrauts.)

_MG_5050

Ég var búin að baka pönnuflatbrauð, næstum-því-naan (vil ekki kalla það því nafni því að ég á ekki lengur skyr eða jógúrt, sem er í uppskriftinni minni, og það breytir brauðinu dálítið). Sjá uppskrift hér neðst. Best er að brauðið bíði ekki lengi og langbest auðvitað að það sé heitt af pönnunni …

_MG_5067

En hér er semsagt indversk kartöflu- og baunakássa með næstum því naan.

*

Indversk kartöflu- og baunakássa

1 bökunarkartafla eða nokkrar minni

1/2 sæt kartafla

1 msk olía

1 laukur

smábiti af engifer

(1 lárviðarlauf og börkur af 1/2 límónu, má sleppa)

1 tsk korma-karríblanda (eða bara venjulegt karríduft)

1 tsk kummin

1 tsk paprikuduft

smáklípa af chiliflögum eða cayennepipar

150 ml vatn, eða eftir þörfum

1/2 dós blandaðar baunir (eða aðrar baunir)

*

Naanbrauð á pönnu

(Þessi uppskrift er úr bókinni Pottur, panna og Nanna. Ég notaði hana, nema ég minnkaði hana um helming og bætti við vatni í staðinn fyrir skyr eða jógúrt. Rétt er að hafa í huga að það getur komið dálítil brunaskán á pönnuna sem er smáfyrirhöfn að þrífa af svo að þetta er ekki verkefni fyrir sparipönnuna og alls ekki pönnukökupönnu. Gömul járnpanna er best.)

naan (5)

350 g brauðhveiti, eða eftir þörfum

1 1/2 tsk þurrger

1 tsk salt

1/4 tsk lyftiduft

100 ml hreint skyr eða jógúrt

2 1/2 msk matarolía

175 ml ylvolgt vatn

Blandaðu saman hveiti, geri, salti og lyftidufti. Hrærðu skyri eða jógúrt og olíu saman við, gjarna í hrærivél, og síðan vatninu. Hnoðaðu deigið vel og bættu við svolitlu hveiti eða vatni eftir þörfum. Mótaðu deigið í kúlu, breiddu viskastykki eða plastfilmu yfir og láttu það lyfta sér í 2-3 klst.

Hitaðu steypujárnspönnu vel. Skiptu deiginu í 8-10 bita og flettu þá út í þunnar, kringlóttar kökur. Penslaðu hvert brauð með vatni á annarri hliðinni, settu það á pönnuna með blautu hliðina niður og steiktu við háan hita í eina mínútu. Snúðu þá brauðinu við með töng, settu lok yfir pönnuna og steiktu í um eina mínútu í viðbót. Taktu það af pönnunni og steiktu næsta brauð.

Best er að borða brauðið heitt eða volgt, gjarna penslað með bræddu smjöri eða olíu.

 

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s