Vegan og vorlegt

Það var nú næstum því alveg pínkulítið vorveður í dag, ekki nóg til að sitja á svölunum en ég skrapp út til að líta á rabarbarann sem ég er með þar í potti, það sést alveg munur á honum frá degi til dags. Og þegar ég fór að hugsa um kvöldmatinn fannst mér eiginlega að það yrði að vera eitthvað létt og litríkt og svolítið vorlegt. Það er aðeins erfiðara núna þegar allt ferskt grænmeti er búið en ýmislegt fann ég nú til að útbúa mér dálítið vorlegan rétt. Vegan og allt.

Ég átti kínóa, bæði venjulegt og rautt, og ákvað að nota það í salat. Og svo var til sæt kartafla og frosin granateplafræ og afgangur af edamamebaunum í poka, svo að ég sá fram á að þetta gæti nú orðið dálítið fallegt salat.

Ég byrjaði á að flysja sætu kartöfluna. Þetta var tæplega hálf kartafla (ég hafði notað hinn hlutann í indverskan grænmetisrétt fyrir nokkrum dögum); það voru farin að vaxa lítil laufblöð út úr endanum svo að ég skar hann af og geymdi, er að velta fyrir mér hvort ég á að prófa að setja hann í mold … en allavega, ég skar kartöfluna í litla teninga, setti í lítið form með 1 msk af ólífuolíu og dálitlu salti og bakaði í svona 25 mínútur við 200°C, eða þar til teningarnir voru meyrir og aðeins farnir að taka lit.

_MG_5176

Á meðan setti ég allt kínóað í fínriðið sigti og lét buna á það kalt vatn úr krananum í 1-2 mínútur. Svo setti ég það í pott með svona hálfum lítra af vatni og 1 tsk af grænmetiskrafti, hitaði að suðu og sauð í 15 mínútur. Þegar svona þrjár mínútur voru eftir setti ég 100 g af edamamebaunum út í og sauð þær með.  Hellti þessu svo í sigti og hvolfdi í skál.

_MG_5187

Ég var búin að láta 50 g af granateplafræjum þiðna (auðvitað má líka nota bara granatepli og losa fræin úr því) og setti þau saman við, ásamt 1/4 af smátt söxðum rauðlauk. Þegar sætkartöfluteningarnir voru meyrir hellti ég þeim yfir ásamt olíunni úr forminu og blandaði vel.

_MG_5193

Svo hristi ég salatsósu úr 3 msk af ólífuolíu í viðbót, safa úr 1/2 sítrónu, 1 msk af balsamediki, salti og grófmöluðum pipar, hellti yfir og blandaði. Stráði að síðustu fráteknu granateplafræjunum yfir og bætti við timjani úr gluggakistunni (en það er svosem alveg óþarft).

Þetta var nú bara dálítið vorlegt og nokkuð gott. – Þetta er reyndar alveg skammtur fyrir tvo, ég hef allavega nóg að borða í hádeginu á morgun, en páskakvöldmaturinn verður nú ekki vegan.

*

Kínóasalat með sætum kartöflum, edamamebaunum og granateplafræjum

200 g sæt kartafla

4 msk ólífuolía

salt

80 g venjulegt kínóa

80 g rautt kínóa (eða meira venjulegt)

1 tsk grænmetiskraftur

100 g edamamebaunir

50 g granateplafræ

1/4 rauðlaukur

safi úr 1/2 sítrónu

1 msk balsamedik

nýmalaður pipar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s