Hreindýr og hafþyrniber

Páskadagur. Og þá verður maður nú að elda eitthvað svolítið gott til hátíðabrigða, er það ekki? Sem er kannski ögn flóknara en ella þegar maður hefur ekki farið í búð í mánuð. Það er svosem ýmislegt góðgæti til sem má hafa sem aðalhráefni, það vantar ekki, en það er meðlætisdeildin sem er að verða pínulítið flóknari eftir því sem gengur á birgðirnar. Auðvitað er nóg til af hrísgrjónum og öðru kornmeti, nokkrar bökunarkartöflur, alls konar niðursoðnar baunir og hitt og þetta slíkt, en mig langaði í eitthvað meira spennandi. Fyrst það eru nú páskar.

Ég átti semsagt hreindýralund í frystinum, eitthvað 300-350 g í pakka (sem reyndist vera tvær lundir þegar ég var búin að þíða þær svo að kannski var þetta af hreindýrskálfi). Innfluttar frá Svíþjóð en hafði um tíma í frystinum, þó ekki nógu lengi til að vera komnar með íslenskan ríkisborgararétt. Og hvað af þessu sem ég á til gat nú átt við sænskar hreindýralundir? Svo mundi ég að ég átti hafþyrniber í frysti, gott ef ekki sænsk – allavega skandinavísk. Skyldi ekki vera hægt að gera eitthvað með þau?

Ég lagðist í rannsóknir og fann litháenska uppskrift að hafþyrniberjasósu til að hafa með kjöti. Mér fannst það vera hugmynd sem vert væri að prófa. Ég átti meirihlutann af því sem í henni átti að vera. Svo átti ég smávegis af frosnu rósakáli (ókei, ferskt er mun betra en það var semsagt ekki til) og villihrísgrjón, sem eru að vísu hvorki villt né hrísgrjón en ég hélt að gætu nú samt passað. Úr þessu öllu saman hlaut að vera hægt að gera svolítið óvenjulegan páskamat. Það eru jú óvenjulegar aðstæður …

Allavega, ég byrjaði á (eftir að vera búin að láta það sem frosið var þiðna) að setja 100 g af villihrísgrjónum í pott með vatni og salti og sjóða þau í 45 mínútur. Svo skar ég rósakálshausana í tvennt – í gegnum stilkendann svo að hausahelmingarnir héldu lögun – setti þau í lítið eldfast mót með 2 msk af ólífuolíu og einum niðurskornum hvítlauksgeira, stráði pipar og salti yfir og setti í 180°C heitan ofn í svona 25 mínútur, eða þar til rósakálið var nærri meyrt. Þá hækkaði ég hitann í 225°C, stráði nokkrum pekanhnetum yfir og bakaði í 5 mínútur í viðbót.

_MG_5236

Þá var það sósan: Ég saxaði hálfan lauk og lét hann krauma í 1 msk af olíu á pönnu þar til hann var farinn að mýkjast. Þá hellti ég 3 msk af rauðvíni á pönnuna og lét sjóða dálítið niður. Síðan setti ég 80 g af hafþyrniberjum á pönnuna ásamt 1 tsk af dijonsinnepi og svolitlum pipar og salti og hrærði vel. Bætti svo við 1 tsk af púðursykri (ég hafði ætlað að sleppa sykrinum en berin eru það súr að það gekk ekki). Hellti að lokum 125 ml af vatni á pönuna og lét sjóða í 2-3 mínútur (aðeins lengur ef berin voru sett frosin út í). Lét sósuna kólna örlítið og maukaði hana svo – það má bæta við aðeins meira vatni ef hún er mjög þykk.

_MG_5238

Ég skar hvora lund um sig í tvennt, kryddaði með rósmaríní og nýmöluðum pipar og salti, hitaði 2 tsk af olíu á pönnu og steikti hreindýrið við góðan hita í svona tvær mínútur á hvorri hlið. Tók bitana svo af pönnunni og lét þá standa á meðan ég lauk við að útbúa meðlætið.

Villihrísgrjónin voru soðin og ég hellti þeim í sigti. Saxaði niður einn sellerístöngul og setti í skál ásamt 2 msk af ljósum rúsínum. Hellti rósakálinu og hnetunum saman við, ásamt olíunni úr forminu, og blandaði vel.

_MG_5264

Óvenjulegt en býsna gott. Afbragðs páskamatur, satt að segja. Og súkkulaði-Calvados-ostakaka (ósæt) á eftir.

Gleðilega páska.

*

Hreindýralund með villihrísgrjónum, rósakáls- og pekansalati og hafþyrniberjasósu

2 litlar hreindýralundir (um 350 g)

1-2 rósmaríngreinar

nýmalaður pipar og salt

1 msk olía

*

Volgt rósakáls- og pekansalat

150 g rósakál

1 hvítlauksgeiri

2 msk ólífuolía

nýmalaður pipar og salt

10-12 pekanhnetur

1 sellerístöngull

2 msk ljósar rúsínur

*

Hafþyrniberjasósa

1/2 laukur

1 msk olía

3 msk rauðvín

80 g hafþyrniber

1 tsk dijonsinnep

pipar og salt

1 tsk púðursykur, eða eftir smekk (berin eru súr)

125 ml vatn, eða eftir þörfum

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s