Ég borða venjulega mikið af fiski og sjófangi, helst 3-4 daga í viku, en það hefur kannski verið minna um það þennan síðasta mánuð, að minnsta kosti fiskinn – ef ég hefði undirbúið mig sérstaklega fyrir einangrunina hefði ég áreiðanlega keypt eitthvað af fiski og fryst. Ég á frekar sjaldan fisk í frysti því að ég kaupi eiginlega aldrei frosinn fisk, vel fisk næstum alltaf sjálf úr fiskborði og elda hann samdægurs eða daginn eftir; frysti hann þó stöku sinnum ef áætlanir breytast. Og það hafði einmitt gerst fyrir stuttu, ég átti löngu sem ég notaði ekki þegar til stóð þannig að ég skipti bitanum í tvennt og frysti – en þeir eru auðvitað búnir. Svo keypti ég lúðusneið daginn sem einangrunin byrjaði og hún var elduð strax (engin uppskrift því það var áður en ég ákvað að halda eins konar matardagbók um þetta).
En ég átti þó ýmislegt annað – túnfisk (sjá hér og hér) og sardínur í dósum og svo hörpuskel og rækjur í frysti (já, hér líka). Og það er meira að segja eitthvað eftir af þessu öllu, nema hörpuskelinni því ég var einmitt að klára hana áðan.
Meðlætisúrvalið er farið að minnka töluvert – næstum allt grænmeti búið – og ég var dálítið upptekin í dag þegar ég fór að huga að því hvað ég ætlaði að gera við hörpuskelina sem ég tók úr frysti í morgun (250 g af smárri hörpuskel) og greip bara hugmyndina sem fyrst kom upp. Það var ekki fyrr en ég var að byrja að elda sem ég áttaði mig á að þetta yrði óþarflega líkt fyrri hörpuskeljarréttinum, sem ég matreiddi fyrir eitthvað tveimur vikum. Og ég sem var búin að tala um að ég ætlaði að reyna að hafa réttina sem ég elda í þessari einangrunartilraun minni sem ólíkastas. En ég var búin að taka grænu baunirnar úr frysti og skera guanciale í litla bita svo að það var ekkert við því að gera. Útkoman varð allavega býsna ólík þótt hráefnið væri að hluta það sama.
Ég byrjaði á að setja 125 g af frosnum grænum baunum í pott með vatni og svolitlu salti og sjóða í 4 mínútur. Þá hellti ég baununum í sigti en tók fyrst svolítið af soðinu frá – bara svona 2-3 matskeiðar. (Ef það gleymist má svo sem alveg nota sjóðandi vatn.) Síðan tók ég svona 2 msk af baunum til hliðar og geymdi en setti hitt í hakkara (eða matvinnsluvél) með safa úr svona þriðjungi af sítrónu, pipar, salti, 2 msk af baunasoðinu og 1 msk af ólífuolíu (smjör hefði verið enn betra en það er ekki til). Maukaði blönduna þar til hún var alveg slétt, þynnti hana aðeins meira með baunasoði, smakkaði og bragðbætti eftir þörfum.
Ég var búin að saxa fjórðung úr lauk og skera guancialebita, svona 60 g, í litla teninga (það má alveg nota beikon, verður bara svolítið annað bragð). Hitaði pönnu, setti guanciale-ið á hana og steiktií 2-3 mínútur, eða þar til fitan var farin að bráðna. Þá setti ég laukinn á pönnuna, steikti í 4-5 mínútur í viðbót og hrærði oft á meðan. Svo tók ég þetta af pönnunni með gataspaða, setti á disk og hækkaði svo hitann. Ef lítil sem engin fita er eftir er best að setja dálitla olíu á pönnuna.
Ég var búin að þerra hörpuskelina vel með eldhúspappír, kryddaði með pipar og salti, setti hana á vel heita pönnuna og steikti í svona 3 mínútur; hrærði oft í á meðan. – Ég hefði reyndar frekar viljað nota stóra hörpuskel og steikja hana í smjörblöndu í 2-3 mínútur á hvorri hlið, þar til hún er fallega dökkgullinbrún … en maður notar það sem maður hefur.
Svo hellti ég baunamaukinu á disk, dreifði hörpuskelfiskinum yfir, stráði guanciale og lauk þar ofan á og dreifði að lokum fráteknu baununum og örþunnt skornum sneiðum af 1-2 radísum þar yfir.
Þetta var alveg ljómandi. En mig langar samt í fisk … Ætli hann verði ekki það fyrsta sem ég fjárfesti í þegar ég fer aftur að kaupa einhvern mat? Og ef ég fer einhverntíma aftur í einangrun ætla ég að passa að kaupa mér fisk til að frysta.
*
Hörpuskel á grænbaunamauki
20-250 g hörpuskel
125 g frosnar grænar baunir
salt og pipar
1/3 sítróna
1 msk ólífuolía
60 g guanciale (eða beikon)
1/4 laukur
olía eða smjör
1-2 radísur