Ég er auðvitað búin að sjá smátt og smátt að ef ég hefði undirbúið einangrunina – eða kannski öllu heldur – ákveðið áður en hún hófst að ég ætlaði að fresta því eins lengi og ég gæti að kaupa eitthvað, í staðinn fyrir að fá þá hugmynd á þriðja deig – þá eru nokkrir hlutir sem ég hefði gert öðruvísi. Samt ekki margir.
Eitt af því hefði verið að kaupa meiri fisk til að setja í frystinn. Ég borða mikið af fiski, yfirleitt að minnsta kosti þrisvar í viku, en ég á hann sjaldan í frysti því ég vil helst kaupa hann ófrosinn. En það kemur fyrir að ég kaupi fisk sem ég nota svo ekki strax af því að einhver plön breytast og þá sting ég honum sjálf í frysti. Og það var einmitt það sem gerst hafði í vikunni á undan – ég hafði keypt bita af lönguflaki, tæp 400 g, en eitthvað kom upp á svo að ég skipti því í tvennt og stakk í frysti. Annan bitann hafði ég svo í matinn nokkrum dögum seinna en nú var komið að hinum.
Og þá er fiskurinn minn bara búinn. Nema ég á rækjur og hörpuskelfisk, sem er auðvitað fiskmeti líka. Og túnfisk í dós …
En þá var það meðlætið. Ég átti til nokkur stykki af hnúðkáli og ákvað að nota eitt þeirra og steikja það á pönnu. Ekki samt eintómt, svo að ég tók fáeinar rauðar kartöflur líka. Skar hvorttveggja í litla teninga, 1 cm á kant eða svo, og saxaði líka hálfan lauk smátt. Svo hitaði ég 3 msk af olíu á þykkbotna pönnu. Setti grænmetisblönduna á pönnuna, kryddaði með þurrkuðu timjani, pipar og salti, steikti við háan hita fyrst en lækkaði hann svo og steikti áfram. Hrærði oft í á meðan og hristi pönnuna.
Svo tók ég lönguna (sem var náttúrlega búin að þiðna) og kryddaði hana með pipar, salti og – ja, ég notaði marokkóska charmoula-kryddblöndu en það má nota ýmiss konar krydd, t.d. blöndu af kóríander, kummini og papriku – eða bara eintómt paprikuduft – eða eitthvað allt annað. Setti 1 msk af olíu og 1 msk af smjöri á pönnu og steikti svo lönguna í svona 3 mínútur á hvorri hlið, eða eftir þykkt.
Grænmetið var orðið meyrt eftir svona 10-12 mínútur. Það var kannski örlítið í dekkra lagi en mér finnst það fínt svona. – Svo hrærði ég sósu úr 4 msk af majónesi, 1 tsk af rauðu pestói, dálitlu söxuðu timjani og pipar og salti og þynnti hana með svolitlu köldu vatni.
Ég setti grænmetisteningana á disk og fiskinn ofan á og bar þetta svo fram með sósunni. Það hefði örugglega verið grænt salat með ef ég ætti salat … Græna blaðið sem ég skreytti með er af hnúðkálinu.
Steikt langa með hnúðkáls- og kartöfluteningum
200 g langa (eða annar hvítur fiskur)
1 hnúðkál, meðalstórt
4-5 kartöflur, fremur litlar
1/2 laukur
4 msk olía
timjan
pipar og salt
charmoula eða annað krydd
1 msk smjör
*
Sósa
4 msk majónes
1 tsk rautt pestó
saxað ferskt timjan
pipar og salt
svolítið vatn
[…] stuttu, ég átti löngu sem ég notaði ekki þegar til stóð þannig að ég skipti bitanum í tvennt og frysti – en þeir eru auðvitað búnir. Svo keypti ég lúðusneið daginn sem […]