Eins og ég sagði í gær ákvað ég að athuga, þegar ég byrjaði í sjálfskipaðri sóttkví á fimmtudaginn var, hvað þær matarbirgðir sem ég átti til heima – og voru ekki hamstraðar – myndu duga mér lengi án þess að ég þyrfti nokkrum sköpuðum hlut að bæta við þær. Reyndar hefur oft áður liðið býsna langur tími á milli búðarferða hjá mér af því að ég er yfirleitt vel birg en það hefur þó ekki verið meðvitað hingað til og mig langar að sjá hvað þetta gengur lengi, hvað ég kemst lengi af án þess að kaupa nokkurn skapaðan hlut. Það verður allavega ekki mikill matarkostnaður næsta mánuðinn.
Ég er búin að ákveða að blogga um þetta á hverjum degi (á meðan ég nenni). Þetta verða kannski ekkert merkilegar eða nýstárlegar uppskriftir (sumar gætu þó orðið svolítið sérvitringslegar) en ég ætla nú samt að birta þær hér, bara að gamni. Þetta er semsagt bara kvöldmaturinn minn á hverjum degi sem ég er í einangrun.
(Einangrunin hefur þó reyndar ekki verið algjör, það var komið með skjal til mín í gær sem ég þurfti að undirrita og svo bankaði nágranni minn, sem ég þekki mjög lítið, upp á í dag og þegar ég opnaði rifu stóð hann eins langt frá dyrunum og hann gat og spurði hvort væri ekki allt í lagi hjá mér og bað mig endilega að láta sig vita ef hann gæti eitthvað gert fyrir mig. Ég þurfti ekki á neinni hjálp að halda en þótti innilega vænt um þetta og ég vona bara að það sé fólk úti um allt sem er að huga að rosknum nágrönnum sínum og bjóða þeim aðstoð.)
Það er semsagt sjötti dagurinn minn í sóttkví og í dag langaði mig í fisk. Það er reyndar ekki mikið um hann í frystihólfinu en ég átti þó tvo löngubita svo að ég tók annan í hádeginu og lét hann þiðna á meðan ég var að vinna (ég er semsagt ekki í neinu fríi). Þegar kom að því að elda leit ég í kornmetisskúffuna, í grænmetisskúffuna í ísskápnum og grænmetisskúffuna í frystinum og ákvað (nokkurn veginn) hvað ég ætlaði að gera.
Ég átti perlubygg frá Móður Jörð í Vallanesi, sem ég nota töluvert – finnst það bragðbetra en þetta venjulega og svo er það líka miklu fljótsoðnara. Ég sýð það í hrísgrjónapottinum mínum en það er alveg eins hægt að nota venjulegan pott. Setti það í pottinn, 100 ml ásamt 250 ml af vatni, og lét sjóða í svona 15 mínútur.
Þegar byggið var passlega soðið og allur vökvi gufaður upp hrærði ég svona 100 g af frosnum edamame-baunum saman við (það mætti líka nota frosnar grænar baunir, eða maískorn, eða eitthvað annað) ásamt svolitlu salti, hrærði setti lokið aftur á pottinn og lét standa í nokkrar mínútur.
Á meðan kryddaði ég löngubitann með pipar, salti og dálitlu óreganói. Bræddi svo 25 g af smjöri á pönnu og steikti lönguna við ríflega meðalhita í svona 2 mínútur á annarri hlið.
Þá sneri ég fiskinum við, dreifði einum niðurskornum vorlauk og nokkrum kirsiberjatómötum í kring og steikti í svona þrjár mínútur í viðbót (eða eftir þykktinni á fiskstykkinu).
Ég átti afgang af basilíkusósu (sem ég hafði gert til að nota með afgangi af lambasteik á mánudaginn) og hrærði henni saman við byggið. Það má líka nota svona 2 msk af pestói úr krukku, kannski ásamt ögn af ólífuolíu.
Svo setti ég bygg á disk ásamt nokkrum salatblöðum (ég á enn til ferska salatblöndu sem er í góðu lagi), lagði fiskinn ofan á og hellti öllu sem var á pönnunni yfir.
Pönnusteikt langa með perlubyggi og edamamebaunum
100 ml (1 dl) perlubygg
250 ml vatn
100 g frosnar edamamebaunir
salt
200 g langa
pipar
þurrkað óreganó (eða annað krydd eftir smekk)
25 g smjör
1 vorlaukur (má sleppa)
nokkrir kirsiberjatómatar
2-3 msk heimagerð basilíkusósa (eða pestó og dálítil ólífuolía)
[…] gerst fyrir stuttu, ég átti löngu sem ég notaði ekki þegar til stóð þannig að ég skipti bitanum í tvennt og frysti – en þeir eru auðvitað búnir. Svo keypti ég lúðusneið daginn sem […]