Nú er ég búin að vera í viku í sóttkví/einangrun og hef satt að segja haft það alveg ljómandi gott – mér gengur vel að vinna heima, hef nóg að gera og leiðist ekki nokkurn skapaðan hlut. Og svo er ég að elda mér góðan mat á hverju einasta kvöldi. Það er auðvitað ekkert óvenjulegt en ég nýt eldamennskunnar sérlega vel núna af einhverri ástæðu.
Ég var einmitt í dag að fara yfir birgðirnar í frystinum og þær voru meiri en ég hélt. Ég reyndist meðal annars eiga góðan slatta af frosnum risarækjum og ákvað að nota svolítið af þeim. Það er ansi margt hægt að gera við þær og ég var að hugsa um steiktar rækjur með karrísósu, hrísgrjónum og ananas en ákvað að geyma það til seinni tíma og elda bara rækjupasta með tómatsósu.
Venjulega myndi ég hafa eitthvað af ferskum kryddjurtum í svona rétti, basilíku, steinselju eða eitthvað slíkt. En fersku kryddjurtirnar mínar eru eiginlega alveg búnar af því að ég hafði ekki vit á að vera með eitthvað lifandi í pottum akkúrat núna – ja, nema lárviðarlauf (ég á tveggja metra hátt lárviðartré í stofuglugganum) og það á ekki við hér. Svo að vorlaukurinn sem ég átti í ísskápnum og var orðinn hálfræfilslegur varð að duga.
Ég tók rækjurnar úr frysti um hádegið og lét þiðna en annars var þetta mjög fljótlegt. Planið var að hafa spaghettí en þegar ég opnaði spaghettíboxið mitt reyndist helmingurinn af meintu spaghettíi vera mjóar linguine-lengjur sem ég hafði óvart sett með spaghettíinu svo að ég ákvað að hafa það bara líka. Svo að ég hitaði saltvatn að suðu í potti, setti pastað út í og sauð það í svona 10 mínútur.
Á meðan hitaði ég 1 msk af olíu á pönnu, skar niður 2-3 vorlauka, hálft chilialdin og 2 hvítlauksgeira og steikti í 2 mínútur eða svo.
Setti svo rækjurnar á pönnuna – hráar, skelflettar risarækjur, svona 150 g – og steikti við háan hita í svona eina mínútu á hvorri hlið.
Hellti svo um það bil 200 ml af tómat-passata á pönnuna (Mutti úr flösku, en það má líka nota maukaða, niðursoðna tómata), bætti við kúfaðri matskeið af rauðu pestói og hálfri teskeið af þurrkuðu óreganói, kryddaði með pipar og salti og lét malla í 2-3 mínútur.
Þá var pastað akkúrat hæfilega soðið svo að ég hellti því í sigti og steypti því svo á pönnuna og blandaði vel.
Og þá er þetta bara tilbúið … Ég átti svolítinn afgang af rifnum parmesanosti frá því að ég var með rísottóið og hafði það með þótt ég sé annars ekki mikið fyrir ost með sjávarréttum. En það má líka sleppa því.
Þetta tók allt í allt svona 15 mínútur.
Tómat-rækju-linguini
150 g risarækjur, hráar, skelflettar
80-100 g linguini, spaghettí eða annað pasta
salt
1 msk olía
2-3 vorlaukar eða bútur af blaðlauk
1/2 rautt chilialdin
1-2 hvítlauksgeirar
200 ml tómatpassata
1 kúfuð msk rautt pestó
1/2 tsk óreganó, þurrkað
[…] ýmislegt annað – túnfisk (sjá hér og hér) og sardínur í dósum og svo hörpuskel og rækjur í frysti (já, hér líka). Og það er meira að segja eitthvað eftir af þessu öllu, nema […]