Eins manns veisla í sóttkví

Ég tuðaði eitthvað um það í gær að fersku kryddjurtirnar mínar væru eiginlega búnar og ég hefði ekki haft vit á að eiga kryddjurtir í pottum. En viti menn, í dag hringdi síminn og mér var sagt að líta fram á stigapall og þar var rósmarín og timjan í pottum og bakki með basilíku. Já, og rauðvínsflaska, sem mig vantaði nú ekkert en verður ekki ónýt. Ég á nefnilega afmæli í dag.

Og af því að ég á afmæli ákvað ég að elda eitthvað gott handa mér. Ja, sko, ég elda nú venjulega eitthvað gott svo að ég meina eitthvað sem mér finnst verulega gott. Svo að ég ákvað að elda handa mér andabringu. Vissi að ég átti svoleiðis í frysti.

En þegar ég fór að athuga málið kom upp úr dúrnum að ég átti bara andabringur sem eru tvær saman í pakka og vonlaust að losa í sundur nema þíða þær. Hélt ég hefði átt eina staka en leitaði af mér allan grun, nei, ekkert svoleiðis. En mig langaði samt í andabringu svo að ég tók tveggja bringu pakka og lét hann þiðna. Það er að vísu allt of mikið fyrir mig eina. En það verður þá bara aftur andabringa í matinn einhvern næstu daga.

Ég byrjaði á að skera skáskurði í fituna á andarbringunni (tígulmynstur) og kryddaði með pipar og salti. Lét hana svo liggja á meðan ég undirbjó meðlætið.

Þegar ég fór að hugsa um hvað það ætti að vera mundi ég eftir nokkrum jarðskokkum (Jerusalem artichokes) sem ég átti og voru aðeins að byrja að linast svo að það lá á að nota þá. Stundum kallaðir Jerúsalemætiþistar á íslensku en það er alrangt (rétt eins og enska nafnið) því að þetta er alls óskylt ætiþistlum og kemur Jerúsalem nákvæmlega ekki við. Jarðkokkar (jarð-skokkar, kemur kokkum heldur ekkert við) er betra nafn. En þar sem jarðskokkar eru ekki á hverju strái, þá skal þess getið að það má nota ýmislegt annað rótargrænmeti. Nú, eða bara kartöflur.

_MG_4309

Þetta voru svona 125 g af jarðskokkum þegar ég var búin að flysja þá og ég bætti við 100 g af kartöflum. Reif hvorttveggja á rifjárni, reyndar í matvinnsluvélinni minni.

_MG_4310

Setti þetta í skál ásamt 1-2 msk af söxuðu timjani (þessu nýfengna), nýmöluðum pipar og salti og blandaði vel saman.

_MG_4312

Síðan hitaði ég 2 msk af olíu á pönnu. Tók tvo málmhringi sem ég á (þeir eru ekkert bráðnauðsynlegir samt, setti þá á pönnuna og þrýsti rifna grænmtinu vel niður í þá. Steikti þetta við meðalhita í svona 5 mínútur og þá fjarlægði ég hringina, sneri lummunum við og steikti í svona 5 mínútur á hinni hliðinni.

_MG_4315

Ég var búin að hita ofn í 170°C og hita eldfast mót í honum og nú færði ég lummurnar yfir í það og setti í ofninn.

_MG_4320

Í staðinn fór andarbringan á pönnuna með fituhliðina niður. Steikti hana í svona 6 mínútur, sneri henni þá við og steikti í 2 mínútur og færði hana svo yfir í eldfasta fatið með lummunum. Steikti áfram í svona 8 mínútur.

_MG_4317

Ég var búin að blanda saman 75 ml af madeira (eða púrtvíni eða sérríi) og 1 msk af góðu balsamediki (fíkjubalsamediki í þessu tilviki en það er ekkert nauðsynlegt) og hellti því nú á pönnuna og lét sjóða dálítið niður.

_MG_4322

Ég átti frosin granateplafræ og bætti nokkrum matskeiðum af þeim á pönnuna – en auðvitað má nota fræ úr fersku granatepli, ég á það bara ekki til hér í sóttkvínni. Lét þetta sjóða aðeins lengur. Smakkaði og bragðbætti ögn með pipar og salti.

_MG_4343

Ég lét andabringuna bíða í svona 5 mínútur eftir að ég tók hana úr ofninum, skar hana svo niður og setti á disk ásamt lummunum, salati og sósu og hélt svo sjálfri mér eins manns afmælisveislu.

Andarbringa með jarðskokkalummum og Madeira-balsam-granateplafræjasósu

1 andarbringa

pipar og salt

125 g jarðskokkar eða annað rótargrænmeti

100 g kartöflur

nokkrir timjankvistir

2 msk olía

75 ml madeira (eða púrtvín eða sérrí)

1 msk gott balsamedik

granateplafræ

svolitið vatn

4 comments

  1. Til hamingju með afmælið. Ég er búinn að sakna þess mikið að sjá bloggið þitt. G

    • Takk. Ég hef einhvernveginn ekki verið í neinu bloggstuði síðasta árið en nú finnst mér ég allavega hafa tilefni til að skrifa eitthvað.

  2. Hamingjuóskir! Gaman að lesa matarfærslurnar þínar. Þegar ég borðaði kjöt (sem er ekki svo langt síðan) eldaði ég þó nokkuð oft andabringu a la Nanna. Hnossgæti. Ein alveg passleg fyrir einbúa 😊

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s