Krydduð grænmetissúpa með baunum

Núna ákvað ég að elda eitthvað sem er meiri hversdagsmatur og kannski meira í takt við það sem margt fólk sér fyrir sér þegar það hugsar um eldamennsku í sóttkví – geymsluþolið grænmeti, niðursuðuvörur, engar mjólkurvörur eða neitt slíkt. Ekki vegna þess að ég sé orðin uppiskroppa með allt hitt, öðru nær. En mig langaði hvorki í kjöt né fisk svo að ég ákvað að elda grænmetis- og baunasúpu. Já, hún er meira að segja vegan ef út í það fer.

Reyndar er viðkvæma grænmetið langt komið – bara smávegis eftir af salatblöðum, sem eru þó að endast óvenju lengi miðað við það sem stundum gerist, fáeinir kirsiberjatómatar en fátt annað. En það eru til gulrætur, blómkál, spergilkál, hnúðkál, kartöflur, nokkrar tegundir af lauk, sellerí, kartöflur, bökunarkartöflur, sætar kartöflur og eitthvað fleira. Fyrir utan frosna og niðursoðna grænmetið og þurrkuðu og niðursoðnu baunirnar.

Ég eldaði þykka súpu sem var ekkert mjög langt frá því að vera pottréttur. Og ef því er að skipta hefði ég eins getað sett kjöt eða fisk út í, til dæmis beikon, pylsur, fiskbita eða rækjur. En það þurfti heldur alls ekki.

_MG_4360

Ég byrjaði á að skera niður 1 lauk, 2 hvítlauksgeira, 1 stóra gulrót og 2 sellerístöngla. Hitaði svo 1 msk af olíu í potti og lét laukinn krauma í nokkrar mínútur. Bætti svo við gulrót og selleríi, ásamt 1 lárviðarlaufi og 1-2 timjankvistum (ekki bráðnauðsynlegt). Lét þetta krauma áfram í nokkrar mínútur.

_MG_4363

Svo hellti ég innihaldinu úr einni tómatdós (kirsiberjatómatar reyndar, ekki nauðsynlegt) út í og bætti við 1 tsk af kummini og vænni klípu af chiliflögum, ásamt pipar og salti. Hellti svona 400 ml af vatni í pottinn og lét sjóða smástund.

_MG_4383

Svo opnaði ég eina dós af pintóbaunum (það má líka nota ýmsar aðrar tegundir, þó ekki Ora grænar eða bakaðar baunir), hellti þeim í sigti og lét renna af þeim, setti þær svo út í pottinn og sauð súpuna í svona 10 mínútur i viðbót. Þá smakkaði ég súpuna, bragðbætti hana með pipar og salti (og ögn meira chili).

_MG_4390

Með súpuni hafði ég bara brauð sem ég bakaði í dag. – Þetta var auðvitað mun meira en ég þurfti í matinn. Ég er ekki enn búin að ákveða hvað ég geri við afganginn, kannsi frysti ég hann bara en mér gæti líka dottið í hug t.d. að breyta honum í pastasósu eða pottrétt. Kemur í ljós.

Grænmetis- og baunasúpa með chili

1 laukur

2 hvítlauksgeirar

1 stór gulrót eða 2 minni

2 sellerístönglar

1 msk olía

1 lárviðarlauf (má sleppa)

1-2 timjankvistir eða svolítið þurrkað timjan

1 dós tómatar, gjarna kirsiberjatómatar

1 tsk kummin

klípa af chiliflögum eða cayennepipar á hnífsoddi

pipar og salt

400 ml vatn

1 dós pintóbaunir eða aðrar baunir

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s