Og svo er það grænmetið

 

Ég áttaði mig á því í dag að frá því að ég fór í einangrun hafði ég ekki eldað nema einn grænmetisrétt, þ.e. súpuna sem ég borðaði á laugardaginn. Já, og svo rísottóið um daginn reyndar. Það var þó ekki vegan en súpan var það. Svo að ég ákvað að nú væri sannarlega kominn tími á grænmetisrétt. Rétturinn sem ég eldaði mér í kvöldmatinn er ekki alveg vegan en mjög auðvelt að gera hann þannig – ég notaði blöndu af smjöri og ólífuolíu en það má alveg eins nota bara olíu.

Ég átti hálfan lítinn blómkálshaus sem ég ákvað að nota og svo fann ég svolítinn afgang af perlukúskúsi (ísraelsku kúskúsi) í kornvöruskúffunni minni og fannst tilvalið að klára það bara. (Ef maður á ekki perlukúskús má nota venjulegt kúskús, bygg eða eitthvað annað.) Og það er nóg til af alls konar niðursoðnum baunum en ég ákvað að nota kjúklingabaunir og rista þær með blómkálinu.

_MG_4503

Ég hitaði ofninn í 230°C. Skar blómkálið í frekar stóra geira og setti það á ofnbakka, ásamt hálfri dós af kjúklingabaunum (lét vökvann renna vel af þeim í sigti) og 1/4 rauðlauk, skornum í geira. Velti þessu upp úr 2 msk af ólífuolíu og kryddaði með þurrkuðu timjani, pipar og salti, dreifði smjörklípum (svona 40 g) yfir og bakað þetta í 15 mínútur. Þá tók ég bakkann út og hrærði í þessu.

_MG_4508

Dreifði 2-3 msk af heilum, afhýddum möndlum yfir, setti aftur í ofninn og bakaði í svona 10 mínútur í viðbót, eða þar til blómkálið var meyrt og farið að brúnast og baunirnar og möndlurnar farnar að taka lit. Hellti þessu svo í skál.

_MG_4509

Ég var búin að sjóða perlukúskúsið (svona 12-15 mínútur, eða þar til það var meyrt) og sturtaði því nú yfir blómkálsblönduna og blandaði vel.

_MG_4544

Svo stráði ég nokkrum timjangreinum yfir (af því að ég á timjan í eldhúsglugganum). Bar fram súmak með til að strá yfir (það má líka nota zaatar, eða sleppa bara öllum miðausturlenskum kryddum …).

Þetta var nú bara ansi hreint gott.

Ofnbakað blómkál með kjúklingabaunum og perlukúskúsi

300-400 g blómkál

1/4 rauðlaukur

1/2 dós kjúklingabaunir

2 msk ólífuolía

1/2 tsk þurrkað timjan

pipar og salt

30-40 g smjör (eða meiri olía)

2-3 msk möndlur, heilar en afhýddar

100 g perlukúskús

ferskt timjan (má sleppa)

súmak til að strá yfir (má sleppa)

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s