Eitt af því sem ég á einhverjar birgðir af í frysti (hvers vegna veit ég ekki alveg) er hráar risarækjur; annað er hörpuskel, en ég veit reyndar hvers vegna hún er þarna, ég ætlaði að vera með hana í matarboði sem ekkert varð svo af. Það verður örugglega hörpuskel í matinn hér á bæ einhvern næstu daga. En í dag ákvað ég að nota nokkar rækjur (seinni helminginn af pokanum sem ég eldaði upp úr fyrir nokkrum dögum). Þá notaði ég þær í pastarétt, núna ákvað ég að gera steikt karríkrydduð hrísgrjón og nota rækjurnar út í þau. En reyndar er þetta alveg ágætis réttur þótt rækjunum sé sleppt og það þarf ekkert að nota í staðinn.
En þegar maður eldar steikt hrísgrjón þarf náttúrlega að byrja á hrísgrjónunum og þau mega ekki vera alveg nýsoðin, þurfa að vera köld. Það er auðvitað tilvalið að nota hrísgrjónaafgang. En þar sem ég átti engan afgang sauð ég grjónin um kaffileytið, breiddi úr þeim á plötu og lét þau kólna og þorna. – Já, og svo þurfa rækjurnar auðvitað að þiðna. Þetta voru kannski svona 125 g. Tólf voru þær allavega. Hráar en skelflettar.
Ég byrjaði svo á að skera niður dálítinn bita (svona 8 cm) af blaðlauk og tvo hvítlauksgeira. Skar svona 2 1/2-3 cm sneið af ananasinum mínum (hann á að endast í að minnsta kosti þrjá rétti), flysjaði hana og skar í bita.
Ég hitaði 2 msk af olíu á wokpönnu (má vera venjuleg ef maður á ekki wok) og steikti rækjurnar við góðan hita þar til þær höfðu breytt um lit. Það tekur kannski 3-4 mínútur. Hrærði oft í á meðan. Svo tók ég þær af pönnunni með gataspaða og setti á disk. Nú lækkaði ég hitann aðeins, setti blaðlauk og hvítlauk á pönnuna og lét þetta krauma í svona eina mínútu. Þá stráði ég 2 tsk af karrídufti yfir og hrærði vel.
Síðan hækkaði ég hitann aftur, sturtaði köldum hrísgrjónunum á wokpönnuna og hrærði vel í. Eða eiginlega hrærði ég ekki, heldur stakk nokkrum sinnum spaða undir grjónin og velti þeim – þannig losna þau betur í sundur og verða alþakin karríblöndu. Þá setti ég ananasbitana á pönnuna, ásamt lítilli lófafylli af rúsínum og annarri af kasjúhnetum (rúsínuóvinum er alveg óhætt að sleppa rúsínunum) og hrærði.
Ég bætti svo á pönnuna svona 150 ml af tómatmauki (eða passata), 1 msk af ostrusósu og 1 tsk af austurlenskri fiskisósu. Hrærði þessu vel saman við, smakkaði og saltaði ögn. Svo hrærði ég rækjunum saman við.
Þetta græna (örfá salatblöð sem ég átti eftir) er þarna bara upp á útlitið, mér fannst vanta eitthvað grænt en vorlaukurinn er búinn …
En þetta var alveg hreint ágætt. Tók í mesta lagi 15 mínútur (ef maður á soðin hrísgrjón).
*
Steikt karríhrísgrjón með rækjum, ananas og kasjúhnetum
um 150 g soðin hrísgrjón, köld
biti af blaðlauk
2 hvítlauksgeirar
ananassneið (eða 1 lítil dós ananasbitar)
2 msk olía
125 g risarækjur, hráar
2 tsk karríduft, eða eftir smekk
lítil lófafylli (2-3 msk) rúsínur, gjarna ljósar
svipað magn af kasjúhnetum
150 ml tómatmauk eða passata
1 msk ostrusósa
1 tsk austurlensk fiskisósa
e.t.v. salt
saxaður vorlaukur eða eitthvað annað grænt (má sleppa)
[…] annað – túnfisk (sjá hér og hér) og sardínur í dósum og svo hörpuskel og rækjur í frysti (já, hér líka). Og það er meira að segja eitthvað eftir af þessu öllu, nema hörpuskelinni […]