Var ég ekki búin að tala um að ég hef að undanförnu verið að fara í gegnum matarbirgðir heimilsins til að tékka á því hvað er til og gá hvort ég finni ekki eitthvað sem ég get notað, kannski í staðinn fyrir eitthvað annað sem er búið, eða eitthvað sem gefur mér nýjar hugmyndir? Eða eitthvað sem er eiginlega alveg kominn tími til að fara að nota ef ég ætla að gera það á annað borð – er að renna út eða kannski útrunnið fyrir nokkru …
Þetta var einmitt dagur til að nýta slíkt. Í grænmetisskúffunni i ísskápnum voru nokkrar rauðar hornfirskar kartöflur í poka, líklega búnar að vera þar um tíma (ég á svo bæði fullan poka af gullauga og nokkar bökunarkartöflur) og ég ákvað að gera eitthvað með þær. Svo var þarna írsk chorizopylsa, frekar nýlega útrunnin. Og svo var það sýrði rjóminn, 36%. Ég á yfirleitt svona rjóma í ísskápnum, stundum nokkrar dósir, og ég nota yfirleitt þá elstu fyrst. En þessi hafði einhvernveginn lent á bak við, ég fann hana þegar ég gerði vörukönnun í ísskápnum fyrr í vikunni, og þegar ég leit á dagstimpilinn reyndist hún hafa runnið út 22. janúar.
En ég var nú ekki viss um að það kæmi að sök. Svo að ég opnaði dósina, rjóminn leit ágætlega út, ég smakkaði hann og hann var í fínu lagi, kannski aðeins súrari en venjulega. Þetta var einmitt á vöffludaginn svo að ég ákvað að prófa að nota hann í vöplurnar sem ég ætlaði að baka (er að spara mjólkina verulega, maður þarf að eiga út í kaffið). Notaði fjórðunginn úr dósinni í deigið og þetta urðu afbragðsvöplur og engum varð meint af (það er að segja, ekki mér, það var nú engum öðrum til að dreifa).
Þetta var í fyrradag og ég er lifandi enn svo að ég ákvað að nota bara afganginn af sýrða rjómanum og búa til kartöflugratín með chorizo. – Það má samt alveg sleppa chorizopylsunni og nota steikt mulið beikon – eða eitthvert grænmeti – eða bara krydda meira.
Þetta voru sex frekar litlar kartöflur, kannski svona 250-300 g. Ég skar þær í mjög þunnar sneiðar. Notaði matvinnsluvélina mína svo að það tók nákvæmlega þrjár sekúndur.
Svo hitaði ég ofninn í 215°C. Penslaði lítið, eldfast mót með svona 1 tsk af olíu og dreifði helmingnum af kartöflusneiðunum á botninn (maður getur raðað þeim ef maður nennir, ég nennti ekki). Tók svona 8 cm bút af chorizopylsu, skar þunnt og dreifði yfir. Svo saxaði ég nálar af einni rósmaríngrein og stráði yfir og reif að lokum dálítinn bita af parmesanosti yfir. Síðan dreifði ég afganginum af kartöflusneiðunum ofan á.
Svo tók ég sýrða rjómann (3/4 úr dós), hrærði söxuðum nálum af annarri rósmaríngrein saman við ásamt pipar og salti og hellti blöndunni jafnt yfir kartöflurnar.
Svo reif ég meiri parmesanost yfir. Setti formið svo í ofninn og bakaði þetta í svona 35 mínútur …
… eða þar til kartöflurnar voru meyrar og yfirborðið dökkgullinbrúnt.
Og svo bar ég þetta fram með allra síðasta græna salatinu mínu, örfáum blöðum reyndar, og dálitlum muldum fetaosti. Og þótt þetta væri nú allt fremur aldurhnigið var það bara alveg ljómandi gott.
*
Kartöflugratín með chorizo og rósmaríni
250-300 g kartöflur
1 tsk olía
biti af chorizopylsu
nálar af 2 rósmaríngreinum (eða aðrar kryddjurtir, ferskar eða þurrkaðar)
biti af parmesanosti
150 g sýrður rjómi, 36% (þarf ekki að vera útrunninn)
pipar og salt