Ekta carbonara

Eiginlega ætlaði ég að hafa allt annað í matinn í kvöld … En svo mundi ég allt í einu eftir að ég átti guanciale-bita í ísskápnum og þá kom eiginlega ekki annað til greina en pasta carbonara.

Guanciale er nokkurs konar beikon (óreykt) en gert úr grísakinnum. Það er ekki alltaf auðvelt að finna það utan Ítalíu en þetta var nú bara úr Þykkvabænum, frá Tariello. Guanciale er það sem oftast er notað í alvöru carbonara á Ítalíu, eða minnsta kosti í Róm – reyndar held ég að ég hafi ekki fengið það síðan við dóttursonurinn vorum í Róm um páskana 2014. En Ítalir nota líka stundum pancetta. Utan Ítalíu er beikon gjarna notað. Það er hægt líka en bragðið verður töluvert öðruvísi.

Fyrir utan guanciale-ið átti ég (meira og minna) allt sem þarf í gott carbonara þrátt fyrir einangrunina. Enda er það nú ekki margt, hráefnin eru bara fimm: guancinale, pasta (oftast en ekki endilega spaghettí, það má líka nota linguine eða fettucine eða rigatoni), egg (þótt ég hefði vissulega frekar viljað nýorpin), pecorino-ostur (parmesan sleppur alveg) og nýmalaður svartur pipar. Já, og svo salt en það er samt ekki endilega nauðsynlegt því að osturinn og kjötið er salt. (Nema ef notaður er parmesanostur, hann er ekki eins saltur og pecorino.) Og vatn til að sjóða pastað auðvitað, það telst heldur ekki með en maður notar þó ögn af soðinu í réttinn.

Það er umdeilt hvort nota skuli heil egg eða bara rauður en ég notaði heil. En í ekta carbonara á ekki að nota t.d. hvítlauk, og alls ekki rjóma. Hins vegar eru til alls konar útgáfur af carbonara sem geta verið alveg ljómandi góðar þótt púristar myndu ekki samþykkja þær …

_MG_4627

Ég byrjaði á að taka guanciale-bitann og skera hann í litla teninga.

_MG_4628

Ég hitaði svo pönnu og steikti bitana við meðalhita (eða tæplega það) í svona 6-7 mínútur, eða þar til þeir voru brúnir og stökkir og fitan farin að bráðna vel úr þeim. Á meðan sauð ég svona 125 g af spaghettíi í saltvatni. Þegar það var hæfilega soðið tók ég svolítið af pastasoðinu frá í bolla en hellti svo pastanu í sigti og lét renna af því. Hellti svo skvettu af pastasoði á pönnuna og lét sjóða niður í 1-2 mínútur.

_MG_4636

Svo hvolfdi ég pastanu á pönnuna, blandaði vel og lét krauma í svona eina mínútu. Svo hellti ég öllu saman í stóra skál og lét standa í 1-2 mínútur – suðan þarf að fara úr pastanu svo að eggin hlaupi ekki þegar þau koma saman við. Það hefði dugað að taka bara pönnuna af hitanum ef þetta hefði ekki verið steypujárnspanna því að hún heldur hitanum svo vel að suðan heldur áfram.

_MG_4629

Ég var búin að rífa niður 40 g af pecorino-osti og hrærði nú meirihlutanum af honum saman við tvö egg.

_MG_4640

Hellti svo eggjablöndunni yfir pastað og blandaði hratt og vel saman, þannig að eggjablandan myndaði mjúka sósu á pastað án þess að hlaupa í kekki.

_MG_4654

Blandaði svo nýmöluðum svörtum pipar saman við, setti á disk (eða í skál), malaði meiri pipar yfir og bar afganginn af rifna ostinum fram með.

*

Spaghetti carbonara

125 guancinale (eða pancetta)

125 g spaghettí

salt

2 egg

40 g pecorino-ostur (eða parmesan)

nýmalaður pipar

 

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s