Ég vona að enginn hafi misskilið og haldi að uppskriftirnar sem ég er að birta um þessar mundir séu uppskriftir fyrir aðra að elda eftir þegar fólk er í sóttkví – jújú, reynder eru margar þeirra ágætlega nothæfar til þess og líka hægt að sækja sér hugmyndir í þær. En þetta eru samt ekki uppástungur um það sem hægt er að gera, heldur eins konar matardagbók. Eins og ég hef sagt áður ákvað ég þegar ég fór í einangrun að sjá til hve lengi það sem ég átti þá til myndi duga mér, án þess að ég þyrfti nokkuð að kaupa eða láta kaupa fyrir mig. Og ég hafði heldur ekki hamstrað neitt en ég er alltaf vel birg af mat.
Nú eru sautján dagar í einangrun búnir og enn nóg til af mat hér á bæ og getur dugað mér lengi enn. Grænmeti með stutt geymsluþol er auðvitað búið en það má nota annað í staðinn og flest annað er til enn. Mjólkin út í kaffið kláraðist að vísu í dag en ég á nú rjómafernu sem dugir eitthvað fram eftir vikunni allavega; eftir það drekk ég kannski bara svart. Eða te, því það get ég vel drukkið mjólkurlaust. Ég hef ekkert keypt en reyndar var poki með timjani, rósmaríni og basilíku skilinn eftir á stigapallinum á afmælisdaginn minn, alveg óumbeðið. Annars hefur ekkert matarkyns borist hingað inn.
Önnur ástæða til þess að þessar uppskriftir eru eiginlega ekki hugsaðar fyrir aðra sem eru í sóttkví/einangrun er sú að það er erfitt að gera slíkar uppskriftir af því að maður hefur ekki hugmynd um hvað aðrir eiga í sínum skápum. Sjálf átti ég, þegar einangrunin hófst, til dæmis ansi fátt af því sem er á lista Landsáætlunar um heimsfaraldur yfir það sem mælt er með að fólk í sóttkví eða einangrun eigi til – ég á ekki stroganoff í pakka eða fiskibollur í dós eða ávaxtagraut í fernu eða kartöflustöppuduft eða tilbúnar hakkbollur.
En ég á ýmislegt annað, eins og andabringur og edamamebaunir og frosin granateplafræ og hafþyrniber og perlukúskús og guanciale og fleira, sem ég er búin að vera að nota, og svo á ég ýmislegt enn ónotað eins og kálfatungur og rauð hrísgrjón og þurrkuð jarðarber og skarfalæri og allskonar, sem ég á örugglega eftir að nota á næstunni. En margt af þessu er nú líklega eitthvað sem ekki er í hvers manns skáp eða frystikistu svo að þegar ég gef uppskriftir að því eru þær ekkert endilega fyrir aðra. Allavega ekki fyrir þá sem eru fastir í sókttkví og eru að elda úr því sem til er.
En þetta er það sem ég á og ég elda úr því. Og eitt af því sem ég á slatta af er hörpuskel. Lítil (reyndar held ég að ég eigi risahörpuskel líka). Og í dag ákvað ég að elda mér eitthvað úr henni.
Ég tók hörpudiskinn úr frysti í hádeginu – svona 300 g pakka – og lét hann þiðna í sigti í vaskinum. Nokkru áður en ég ætlaði að byrja að elda dreifði ég honum á eldhúspappírsörg og lagði aðra örk ofan á – ef maður vill að hörpuskelin taki einhvern lit þarf yfirborðið að vera þurrt.
Ég hafði flett í nokkrum matreiðslubókum að leita að hugmyndum um hvað ég gæti gert við þetta. Staldraði við eina sem mér leist ágætlega á og ég átti allavega helminginn af hráefninu – en svo sá ég að það var beikon í henni. Ég á það ekki til. En svo mundi ég eftir afgangsbita af guanciale frá í gær og gat bara notað það. Það má semsagt alveg nota beikon ..
Ég skar guanciale-ið í litla teninga og saxaði líka hálfan rauðlauk og einn hvítlauksgeira. Hitaði pönnu, setti guanciale-ið á hana ásamt rauðlauk og hvítlauk og lét krauma við meðalhita þar til fitan var farin að bráðna úr guanciale-inu og það var orðið dálítið stökkt.
Svo tók ég frosnar grænar baunir og maískorn – svona 80-100 g af hvoru – og setti það á pönnuna. Frosið, en það má líka láta það þiðna fyrst. Lét þetta krauma í nokkrar mínútur, hrærði oft í og kryddaði með pipar og salti eftir smekk, og fyrst ég átti nú ferskt timjan í potti í eldhúsglugganum saxaði ég svolítið af því og hrærði saman við.
Ég hellti þessu svo af pönnunni á disk en setti pönnuna aftur á eldavélina, hækkaði hitann og setti smjörbita – kannski 25 g – á pönnuna. Setti svo hörpuskelina á pönnuna og steikti við háan hita í 1-1 1/2 mínútu á hvorri hlið. Reyndar er vesen að snúa svona mörgum litlum skelfiskum nógu hratt svo að það má bara hræra í þeim líka.
Síðan dreifði ég skelfiskinum yfir bauna-maísblönduna og setti nokkrar timjangreinar ofan á fyrst ég átti þær til.
Og þá er þetta bara tilbúið.
*
Hörpuskel með baunum og maís
300 g hörpuskelfiskur, smár
75 guanciale eða beikon
1/2 rauðlaukur
1 hvítlauksgeiri
80-100 g frosnar grænar baunir
80-100 g maískorn
pipar og salt
nokkrar timjangreinar (má sleppa)
25 g smjör
[…] ég átti þó ýmislegt annað – túnfisk (sjá hér og hér) og sardínur í dósum og svo hörpuskel og rækjur í frysti (já, hér líka). Og það er meira að segja eitthvað eftir af þessu […]