Ég á fullt af venjulegum mat í fórum mínum, sko. Bara mjög venjulegum og algengum sem flestir eiga eða gætu átt heima hjá sér. Og ég elda mjög oft úr slíkum hráefnum, ekkert endilega samkvæmt hefðbundnum eða algengum uppskriftum/aðferðum, en stundum samt. En svo á ég líka ýmislegt sem er kannski ekki á hvers manns diski. Það þarf þó ekki að vera eitthvað sem er flutt yfir hálfan hnöttinn – ég held reyndar að eina innflutta kjötið sem ég á í frystinum núna sé biti af nýsjálensku dádýrafilleti. Nema kanínan sé innflutt, ég get ekki með nokkru móti munað hvar ég fékk þessa kanínu og hvort hún er íslensk eða innflutt. Hún er ekki úr Elliðaárdalnum allavega, það veit ég fyrir víst.
En ég átti hins vegar alíslenska reykta kálfatungu í frystinum. Ég á þar líka reyktar folaldatungur úr Skagafirði en þær voru ekki á borðum í þetta skipti. Nei, nú var það kálfatunga sem mér var gefin, reyndar var mér sagt að þetta væri nautatunga en stærðin gaf annað til kynna.
Lyktin var allavega góð … Ég lét tunguna þiðna. Setti hana svo í pott með köldu vatni sem rétt flaut yfir, nokkrum piparkornum og tveimur lárviðarlaufum. Ef þið eigið ekki lárviðartré í stofuglugganum eins og ég má samt alveg sleppa því, það er ekkert krítískt. Hitaði vatnið að suðu og lét tunguna malla rólega í svona einn og hálfan tíma í lokuðum potti.
Ég vildi hafa kartöflusalat með svo að ég tók nokkrar rauðar kartöflur, sauð þær, hálfkældi og flysjaði svo. Svo blandaði ég saman í skál svona 80 g af majónesi, um það bil 1 msk af smátt söxuðum rauðlauk, og svo fannst mér vanta eitthvað grænt en það er lítið um það í ísskápnum. Samt voru nokkur ágætlega útlítandi blöð á sellerístönglunum sem ég á þar svo að ég saxaði þau og blandaði saman við, ásamt pipar og salti. Að lokum skar ég kartöflurnar í bita og blandaði þeim saman við með sleikju. – Það mætti líka bragðbæta kartöflusalatið með sinnepi en þar sem ég ætlaði að bera sinnep fram með sleppti ég því.
Nú var tungan orðin meyr svo að ég tók hana upp úr, lét hana kólna ögn (reyndar brá ég henni snöggt undir kalda kranann) og fló svo af henni húðina. Svo skar ég hana í þykkar sneiðar (þ.e. þann hluta hennar sem ég ætlaði að hafa í kvöldmatinn, hitt verður geymt og haft sem álegg á brauð).
Ég setti svo tungusneiðarnar á disk ásamt kartöflusalati, stráði nokkrum kaperskornum yfir (það má líka blanda þeim saman við kartöflusalatið en ég vildi láta þau sjást), skreytti með timjani úr gluggakistunni og hafði dijonsinnep með. (Ég mundi eftir því þegar ég var að skoða myndina að ég hafði ætlað að hafa grænar baunir með og var meira að segja búin að taka þær úr frysti en gleymdi þeim svo – en það kom nú ekki að sök.)
*
Reykt kálfatunga með kartöflusalati
1 kálfatunga
piparkorn
lárviðarlauf (má sleppa)
250 g kartöflur
80 g majónes
1 msk smátt saxaður rauðlaukur
e.t.v. selleríblöð eða annað grænt, t.d. vorlaukur
pipar og salt
nokkur kaperskorn