Síðustu tómatarnir

Þetta er tólfti dagurinn minn í sjálfseinangrun og nú er svolítið farið að ganga á ferskmetið, þótt ýmislegt sé vissulega til ennþá. En það er nú ekkert komið að því að ég sé að fara að panta mér einhverjar birgðir eða láta einhvern skutlast með til mín.  Ég er jú að gera tilraun og sjá hvað ég endist lengi.

Ég átti bakka með kirsiberjatómötum á grein þegar einangrunin byrjaði og hef verið að nota þá smátt og smátt. En nú voru aðeins örfáir eftir og ég ákvað að nota þá – og smávegis af salatblöðum, sem hafa reyndar enst furðu lengi því að oft en nú salat sem maður kaupir og er í bökkum eða pokum fljótt að láta á sjá og endist stundum ekki nema örfáa daga. En þessi litu alveg þokkalega út.

Ég ákvað að nota þetta (og ferska basilíku sem var skilin eftir á stigapallinum á afmælisdaginn minn) og gera salat en allt annað í salatinu var það sem mætti kalla dæmigerð sóttkvíarhráefni, þ.e. krukku-, dósa- og pakkamatur (já, og laukur). Og þar sem ég átti ágætan túnfisk í dós varð úr þessu túnfisk-pastasalat. Reyndar þykja mér slík salöt alltaf frekar sumarleg en sólin skein nú glatt á meðan ég var að útbúa það …

Allavega, ég byrjaði á að hita saltvatn í potti og sjóða pasta – penne, af því að það var það sem ég átti til (eða fann fyrst, kannski á ég fleiri pastasortir einhvers staðar) samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum.  Dálítið ríflegan skammt miðað við einn, því að ég ætla að hafa afganginn af salatinu í hádegismatinn á morgun eða hinn. Hellti því svo í sigti, lét renna af því og lét svo buna kalt vatn á það rétt snöggvast. Ég vildi hafa það sirka við stofuhita svo að ég lét það standa smástund.

_MG_4452

Á meðan skar ég tómatana (sem voru átta eða níu) í helminga, skar minnsta rauðlauk í heimi (svona fjórðung af venjulegum) frekar smátt og skar 8-10 svartar ólífur í 2-3 sneiðar hverja. Setti þetta allt í skál ásamt 1 tsk af kapers.

_MG_4455

Ég dreifði svo pastanu á disk (má líka setja það í skál), setti litla lúkufylli af salatblöðum og nokkur basilíkublöð ofan á, og hellti svo tómatblöndunni yfir. Svo opnaði ég dós af túnfiski í olíu, hellti olíunni af, braut túnfiskinn í bita og dreifði yfir. Hristi vel saman 3 msk af góðri ólífuolíu, safa úr 1/2 sítrónu, 1/2 smátt saxaðan hvítlauksgeira, örlitla klípu af chiliflögum (eða cayennepipar), pipar og salt og dreypti blöndunni jafnt yfir salatið.

_MG_4468

Flóknara var það nú ekki.

Túnfisk-pastasalat með tómötum, ólífum og kapers

100-150 g pasta, t.d. penne

salt

nokkrir kirsiberjatómatar

1/4 rauðlaukur

8-10 ólífur

1 tsk kapers

lúkufylli af salatblöðum

nokkur basilíkublöð (má sleppa)

1 dós góður túnfiskur í olíu

3 msk ólífuolía

safi úr 1/2 sítrónu

1/2 hvítlauksgeiri

smáklípa af chiliflögum eða cayennepipar

pipar

2 comments

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s