Fornbýla konan

Nú er ég búin að vera í einangrun í rúmar þrjár vikur. Hef ekki farið lengra en niður í þvottahús, hef ekki hitt nokkurn mann, hef horft í gegnum myndsímtal á rétt tæplega ársgamlan sonarsoninn taka fyrstu skrefin  … Ég hef auðvitað ekki farið neitt út í búð en heldur ekki fengið neitt matarkyns sent eða látið ættingja koma með það, hef eingöngu nýtt mér það sem ég á til. Og hef semsagt ekki eytt einni einustu krónu í mat í þrjár vikur. Það er þó alltaf eitthvað …

Þegar einangrunin byrjaði hafði ég ætlað að fá heimsendan mat eftir þörfum og hafði þess vegna ekki birgt mig neitt sérstaklega upp. En svo datt mér í hug tveimur dögum seinna að gera tilraun og sjá hvað ég kæmist lengi af á því sem ég átti til. Ég er nefnilega ævinlega vel birg af mat – ekki vegna þess að ég versli alltaf í Costco (á ekki kort) og kaupi allt í stórum pakkningum – nei, bara vegna þess að mér þykir ágætt að eiga alls konar matvæli að grípa til og þurfa ekki alltaf að vera að hlaupa út í búð. Og sumt liggur lengi í skápunum – ég er semsagt frekar fornbýl, eins og sagt var um fólk sem var vel birgt af gömlum mat eða gömlum heyjum.

Þannig að þessi tilraun hefur gengið mjög vel og ég er búin að komast að því að ég á líklega yfirleitt minnst mánaðar matarbirgðir (ef ekki tveggja mánaða) hér heima. Auðvitað klárast eitt og annað smám saman; það er mjög lítið eftir af fersku grænmeti, nema þá helst rótargrænmeti, Og síðustu mjólkurdroparnir (eða reyndar var það rjómi) fóru út í kaffið mitt áðan svo að nú fer ég líklega að drekka te, ég get drukkið það mjólkurlaust (og kaffið er hvort eð er næstum alveg búið líka). En annars breyti ég bara til eftir eigin höfði og elda það sem mér dettur í hug úr því hráefni sem til er.

Maturinn hefur verið mjög fjölbreyttur, vegna þess að það sem ég á til er mjög fjölbreytt … Rétturinn sem ég eldaði í kvöld var kannski óvenju „sóttkvíarlegur“ – það er að segja, mikið af því sem í honum er var bara eitthvað sem flestir eiga líklega til eða myndu kaupa sér ef þeir væru að birgja sig upp fyrir sóttkví.

Ég á semsagt nokkrar túnfiskdósir, notaði eina um daginn í pastasalat  og nú ákvað ég að nota aðra í túnfiskbuff. Þau geta orðið svolítið bragðdauf svo að ég ákvað að nota dálitla sriracha-sósu út í þessi (það má líka nota aðra chilisósu, eða klípu af cayennepipar eða chiliflögum).

Ég komst að því mér til furðu að ég átti reyndar dálítið af kóríanderlaufi. Eða það er að segja – ég vissi að það var hálfur bakki í ísskápnum en kóríanderlaufið í honum var gulnað og ljótt, ég hafði bara gleymt að henda honum. En þegar ég ætlaði að setja hann í ruslið í dag opnaði ég hann og komst þá að því að undir þessum ljótu voru þónokkrar kóríandergreinar sem voru bara í góðu lagi, þótt sum blöðin væru aðeins farin að gulna. Svo að ég ákvað að nota þær.

_MG_4838

Allavega, ég tók skál og setti í hana svona 1 1/2 tsk af srirachasósu (má vera meira eða minna), kúfaða matskeið af majónesi, eitt egg, fjórðung af lauk, smátt söxuðum, litla lófafylli af söxuðu kóríanderlaufi, rifinn börk af hálfri sítrónu, pipar og salt, og blandaði þessu saman.

Svo opnaði ég dós af túnfiski í olíu, lét olíuna renna af honum í sigti, setti hann svo út í og hrærði vel.

_MG_4843

Ég átti ekki rasp (nema panko-rasp og ég er að spara það) en ég átti saltkex og setti slatta af því í matvinnsluvél og malaði. Blandaði því vel saman við og þar sem blandan var enn of blaut malaði ég nokkrar kökur í viðbót og hrærði þeim saman við. Þá var blandan orðin svo þykk að hægt var að móta buff úr henni.

_MG_4845

Ég mótaði frekar lítil buff úr blöndunni, hitaði 2 msk af olíu á pönnu og steikti buffin við ríflega meðalhita í nokkrar mínútur á hvorri hlið.

_MG_4848

Ég var búin að sjóða fáeinar litlar kartöflur og ögn af spergilkáli. Skar kartöflurnar í tvennt og steikti þær á pönnunni með túnfiskbuffunum.

Ég var líka búin að gera sósu úr kúfaðri matskeið af majónesi (já, ég á nóg af því), svolitlu köldu vatni, rifnum berki af einni límónu, safa úr 1/2 límónu (eða eftir smekk), hvítum pipar, salti og svolitlu söxuðu kóríanderlaufi (en það má sleppa því).

_MG_4855

Og hér eru túnfisbuffin með steiktum kartöflum, spergilkáli og límónusósu.

*

Krydduð túnfiskbuff

1 1/2 tsk srirachasósa (eða eftir smekk)

kúfuð matskeið af majónesi

1 egg

1/4 laukur

lítil lófafylli af kóríanderlaufi, ef til er

rifinn börkur af 1/2 sítrónu

pipar og salt (ekki mikið salt ef notað er saltkex)

1 dós túnfiskur í olíu

rasp eða kexmylsna eftir þörfum

2 msk olía

*

Límónusósa

kúfuð matskeið af majónesi

fínrifinn börkur af 1 límónu

safi úr 1/2 límónu

hvítur pipar

salt

e.t.v. nokkur söxuð kóríanderlauf

3 comments

  1. Já, ég er líka búin að vera að fara í gegnum skápa og skúffur, ísskáp og frysti, og hef fundið ýmislegt sem ég var búin að steingleyma sjálf að ég ætti. Reyndar sé ég að margir erlendir kunningjar mínir í hópi matreiðslubókahöfunda og mataráhugafólks hafa sömu sögu að segja og eru að draga löngu gleymda hluti fram í dagsljósið og gera tilraunir með þá. – Ísskápurinn minn virðist reyndar geyma grænmeti og kryddjurtir mjög vel – og svo á ég nokrkar kryddjurtir í pottum, til allrar hamingju.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s