Eins og fram hefur komið á ég ansi margt matarkyns í fórum mínum og sumt er ekki akkúrat í hvers mans skápum og kirnum. Sumt er þannig að ef afkomendurnir eru með þegar ég kaupi það eða ef þau rekast á það hjá mér eða frétta af því segja þau „Heyrðu, mamma/amma, ekkert vera að bjóða mér í mat þegar þú eldar þetta …“ og ég verð náttúrlega við því.
En akkúrat núna er einmitt tími til að elda eitthvað slíkt því að það er enginn boðinn í mat hjá mér og ég þarf ekki að taka tillit til nokkurs einasta manns nema sjálfrar mín. Og ekki er ég nú matvönd manneskja. Og ansi margt af þessu sem þeim líst ekki á er satt að segja alveg afbragðsgott. Svo núna er semsagt tækifærið.
Og eitt af því sem ég átti og lýst hafði verið vantrausti á voru kjúklingahjörtu. Ég hafði líka átt andahjörtu en þau voru búin, ég bauð upp á þau í Forláksmessuboðinu mínu fyrir jólin – en kjúklingahjörtu eru bara alveg jafngóð. Finnst mér alltsvo. Svo að ég tók þau úr frysti snemma í morgun.
Þetta var ekki stór pakki og ég skar toppinn (sem er aðallega fita) af öllum hjörtunum svo að þetta voru ekki nema rétt 200 g. Svo skar ég hvert um sig næstum í tvennt og fletti þeim í sundur. (Það má skola þau og þerra ef maður vill losna alveg við blóð.) Setti þau svo í skál.
Hellti 3 msk af teriyakisósu yfir og reif dálítinn bita af engifer og einn hvítlauksgeira fínt yfir, blandaði vel og lét þetta standa í svona klukkutíma. Þá tók ég hjörtun og þræddi þau á nokkra grillpinna; stakk þeim í gegnum hjörtun þannig að þau yrðu sem flötust og þynnst.
Það er sól á svölunum en samt ekki beint grillveður (fyrir utan að grillkúturinn er gaslaus og það hefði hvort eð er ekki tekið því að kveikja upp fyrir svona lítið sem þarf örstutta eldamennsku) svo að ég hitaði grillpönnu vel og setti dálitla olíu á hana. Svo setti ég spjótin á pönnuna og steikti við háan hita í um 3 mínútur. Penslaði svo með afganginum af leginum, sneri spjótunum við, penslaði aftur og grillaði í 2-3 mínútur í viðbót. Svo stráði ég sesamfræjum yfir pinnana áður en ég tók þá af pönnunni (það er ekkert nauðsynlegt upp á bragðið svosem).
Ég bar þetta svo fram á soðnum hrísgrjónum. Eiginlega ætti að vera saxaður vorlaukur þarna en hann er búinn svo að ég skar fáein basilíkublöð (sem voru hvort eð er aðeins farin að slappast) í strimla og dreifði yfir til að fá svolítinn grænan lit.
Þetta var alveg ljómandi og ég var mjög sátt við að sitja ein að þessum kræsingum.
*
Teriyaki-grilluð kjúklingahjörtu
200 g kjúklingahjörtu, hreinsuð og snyrt (svona 350 g frosin)
3 msk teriyakisósa
2 cm biti af engifer
1 hvítlauksgeiri
2 tsk olía
1 tsk sesamfræ (má sleppa)
nokkur basilíkublöð (eða græn blöð af 1-2 vorlaukum, ef til eru)
Kjúklingahjörtu er eitt það besta sem ég fæ. Hvar gastu keypt svoleiðis?