Aldeilis ágæt kartafla

Ég á nokkrar bökunarkartöflur í grænmetisskúffunni og ef í harðbakkann slær get ég gert nýjan rétt úr hverri þeirra, það eru lítil takmörk fyrir því hvað hægt er að nota sem fyllingu í bakaðar kartöflur. En það er nú langt eftir í það … Ég ákvað hins vegar að nota eina þeirra í kvöldmatinn og sá ekki eftir því.

Það er býsna margt sem ég á enn til sem ég hefði vel getað notað í fyllingu, sumt af því fisk- eða kjötkyns, en þar sem ég hef ekki eldað mér grænmetisrétt síðan í síðustu viku ákvað ég að nota hálfan bakka af sveppum sem ég átti – þeir voru farnir að dökkna töluvert en svosem ekkert verri fyrir það. Reyndar bara betri, finnst mér. Það er ekki mikið eftir af ostabirgðum heimilisins, örlítill biti af cheddar sem ég tímdi ekki, Ljótur sem mér fannst ekki passa – en svo mundi ég eftir ósnertum bita af rósmarínkrydduðum geitaosti sem líklega væri alveg tilvalinn í þetta. Já, og smábiti af parmesanosti var líka til.

_MG_4769

Ég byrjaði á að hita ofninn (litla borðofninn minn reyndar, sem ég nota nú orðið meira en eldavélarofnana). Svo tók ég bökunarkartöflu, meðalstóra, þvoði hana og þerraði, pikkaði hýðið með gaffli á nokkrum stöðum, setti hana í lítið eldfast mót og hellti svona 2 tsk af ólfuolíu yfir. Svo stráði ég dálitlu flögusalti yfir og setti þetta svo í ofninn og bakaði í um 1 klst.

_MG_4771

Ég tók kartöfluna út þegar hún var meyr (stakk teini í hana til að kanna það) og lét hana bíða í fáeinar mínútur. Hækkaði á meðan ofnhitann í 225°C. Skar svo djúpan kross ofan í hana og þrýsti á hýðið til að opna krossinn. Ég var með 40 g bita af osti sem ég hafði skorið í litla teninga og setti þá ofan í krossinn, stakk svo forminu aftur í ofninn og bakaði í um 5 mínútur, eða þar til osturinn var byrjaður að bráðna.

_MG_4775

Jafnhliða þessu bræddi ég 1 msk af smjöri á pönnu, saxaði 125 g af sveppum og 1/2 lítinn lauk, setti það á pönnuna og lét það krauma í nokkar mínútur. Kryddaði með pipar, salti og dálitlu söxuðu rósmaríni eða timjani (má sleppa). Svo hellti ég dálítilli hvítvínslögg á pönnuna (svona 3 msk) og lét sjóða niður. Ef maður á ekki hvítvín má nota vatn.

_MG_4777

Svo tók ég mótið aftur út, jós sveppablöndunni yfir og reyndi að láta sem mest af henni fara ofan í kartöfluna. (Ostateningarnir þarna höfðu orðið eftir þegar ég setti ostinn fyrst í kartöfluna.) Svo stráði ég svona 2-3 msk af nýrifnum parmesanosti yfir og bakaði þetta í 6-8 mínútur, eða þar til osturinn var byrjaður að taka lit.

_MG_4791

Svo setti ég kartöfluna á disk. Öll salatblöð eru búin, annars hefði ég sett salat í kring, en til að fá eitthvað grænt (og bragðgott) dreifði ég nokkrum timjangreinum í kring. Það var sko ekkert að þessu …

*

Bökuð kartafla með sveppum og geitaosti

1 bökunarkartafla, meðalstór

2 tsk ólífuolía

flögusalt

40 g ostur eftir smekk (ég átti geitaost með rósmaríni)

1 msk smjör

125 g sveppir

1/2 lítill laukur

pipar og salt

1 rósmaríngrein (eða timjan; má líka sleppa)

3 msk hvítvín eða vatn

2-3 msk parmesanostur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s