Ekki að ég sé neitt á ferðinni utanhúss þessa dagana en það væri allavega ekki vandi núna fyrir mann að velja að hlýða tilmælum um að ferðast innanhúss. Kannski er veðrið í liði með kórónaveirunni (hún kann víst best við sig í kulda) en það hefur þá misreiknað sig því að þetta er samkomubanns- og reyndar líka samgöngubannsveður svo að það verður ekki mikið um smit á meðan.
Ég held náttúrlega bara áfram að sækja mér eitthvað að borða í skápana mína. Lét frystinn eiga sig í þetta skipti en fór og sótti mér eitthva í kornmetisskúffuna og baunadósaskúffuna og kláraði svo smávegis afganga sem enn voru til í ísskápnum. Og úr þessu varð bara hinn besti matur og alveg hreint afskaplega einfaldur.
Ég nota töluvert perlubyggið frá Móður Jörð í Vallanesi, finnst það bæði bragðbetra en venjulegt bygg og svo er það miklum mun fljótsoðnara, er ekki nema svona 15 mínútur að verða meyrt. Ég sýð það yfirleitt í hrísgrjónapottinum mínum, það er mjög þægilegt. Svo að nú tók ég 100 ml af perlubyggi og 250 ml af vatni, setti í pottinn og kveikti á honum og „þá þarf ég bara ekki að gera meira“, var það ekki það sem bakaradrengurinn sagði í Dýrunum í Hálsaskógi? Ja, það var allavega ekki meiri eldamennska.
En ég hellti bygginu í skál þegar það var soðið, hrærði í því og lét það kólna ögn. Svo setti ég hálfa dós af kjúklingabaunum og svona 25 g af grófmuldum pekanhnetum út í og blandaði saman.
Svo tók ég nokkrar döðlur, sem nóg er til af (ég notaði bara fjórar eða fimm Medjool-döðlur, það má auðvitað nota aðrar en þá kannski fleiri), steinhreinsaði þær og skar í bita. Þetta er út af fyrir sig nóg en ég opnaði ísskápinn og tíndi saman eitt og annað sem var alveg að klárast og kannski komið á síðasta snúning: endann sem eftir var af ananasinum (svona 2 cm þykka sneið), síðasta smábitann af fetaosti og þrjú eða fjögur basilíkublöð sem voru eftir, skar þetta eða muldi og blandaði saman við. – Ef fetaostinum er sleppt er þetta náttúrlega vegan.
Svo hristi ég saman í glasi 3 msk af góðri ólífuolíu, safa úr 1/2 sítrónu, nýmalaðan svartan pipar, hellti þessu yfir og blandaði vel saman.
Flóknara var það nú ekki, og svo borðað ég þetta með nýbökuðu brauði sem var enn volgt. – Timjanið þarna ofan á er bara punt. Ég er mikið fyrir að punta mat með kryddjurtum og svoleiðis en það er auðvitað ekki nauðsynlegt.
*
Bygg- og baunasalat með döðlum og hnetum
100 ml perlubygg
250 ml vatn
1/2 dós kjúklingabaunir
lítil lófafylli af pekanhnetum
nokkrar döðlur
ananas, fetaostur eða annað sem kann að vera til
3 msk ólífuolía
safi úr 1/2 sítrónu
pipar og salt