Þótt dagarnir renni dálítið mikið saman núna og verði hver öðrum líkir, þá áttaði ég mig nú á því um hádegið að það væri sunnudagur í dag og það meira að segja pálmasunnudagur. Svo að ég ákvað að hafa sunnudagsmat. Fór fram í eldhús og leit í miðskúffuna í frystinum, þar sem ég geymi aðallega kjöt og fuglakjöt, og rak augun í andalæri, sem mér þykja ágætismatur, svo að ég ákvað að þetta yrði sunnudagsmaturinn.
Eitt læri dugir mér vel þegar ég er ein en nú eru frosin andalæri yfirleitt seld tvö eða þrjú saman. Þetta voru tvö læri og ekki nokkur leið að ná þeim í sundur nema láta þau þiðna eitthvað, svo að ég tók þau út og setti í skál með köldu vatni. En um leið og þau voru aðeins farin að þiðna og með herkjum hægt að losa þau sundur tók ég annað út og setti á disk á eldhúsbekknum en setti hitt aftur í umbúðir og stakk því í ísskápinn. Það verður í matinn eftir tvo eða þrjá daga en þá einhvernveginn öðruvísi matreitt.
Þegar hitt var þiðnað kryddaði ég það með pipar og salti (grófmöluðum svörtum pipar og flögusalti), setti það í lítið eldfast mót, stakk rósmaríngrein undir og lagði aðra ofan á, og steikti lærið svo við 185°C í hálftíma eða svo.
Ég skar svo tvær gulrætur í sneiðar, nokkrar litlar kartöflur í helminga og hálfan lítinn rauðlauk í bita. Tók fatið með andalærinu út, dreifði grænmetinu í kring, kryddaði með ögn af pipar og salti, velti því upp úr feitinni sem hafði bráðnað úr öndinni og setti svo formið aftur í ofninn í svona klukkutíma. Gott er að hræra einu sinni eða tvisvar í grænmetinu og ausa yfir andalærið á meðan það er í ofninum.
Á meðan bjó ég til rauðvínssósu (hitaði 1 msk af andafeiti í litlum potti, saxaði niður hinn helminginn af rauðlauknum og lét hann krauma smástund, ásamt timjangrein og einu lárviðarlaufi. Hellti svo 100 ml af rauðvíni yfir og lét sjóða niður um u.þ.b. tvo þriðju. Hellti þá svona 150 ml af sjóðandi vatni út í, bætti við 1 tsk af andakrafti, bragðbætti með pipar og salti, síaði sósuna og setti hana svo aftur í pottinn og þykkti hana svolítið með sósujafnara.
Svo hitaði ég smáskamtt af frosnum grænum baunum og bar fram með öndinni, ásamt grænmetinu og sósunni.
Alveg afbragðs sunnudagsmatur, semsagt.
*
Andarlæri með ofnbökuðu grænmeti
1 andarlæri
pipar og salt
rósmaríngreinar (má líka vera timjan, eða sleppa)
2 gulrætur
nokkrar kartöflur
1 rauðlaukur
1 msk andafeiti
timjangrein
lárviðarlauf
100 ml rauðvín
150 ml sjóðandi vatn
1 tsk andakraftur
sósujafnari eftir þörfum