Kvöldmatur frá Kýpur

Mér finnst yfirleitt frekar gaman að elda mat og kemur kannski engum á óvart. Bæði handa öðrum en reyndar líka fyrir sjálfa mig. Ég veit að margir segjast ekki nenna að elda bara handa sjálfum sér og ég skil það vel; það kemur svosem alveg fyrir að ég nenni því ekki heldur. En yfirleitt finnst mér það samt gaman; vandinn er þó stundum sá að af sumt hráefni er erfitt að kaupa í nægilega litlum skömmtum.

Ég elda samt oft fyrir fleiri, fæ fjölskylduna oft í mat eða býð fólki að borða. En ég held að ég hafi aldrei áður eldað í jafnlangan tíma bara fyrir mig eina. Og ég verð að segja að ég hef haft mjög gaman af því, ekki síst vegna þess að ég þarf alltaf að nýta eingöngu það sem ég á til, maður hleypur ekkert út í búð og ég er heldur ekki að láta senda mér eða koma með til mín. Þannig að á hverjum morgni eyði ég smástund í að hugleiða hvað ég geti haft í kvöldmatinn, skoða í skápana, fletti kannski í einhverjum bókum til að fá hugmyndir, tek svo úr frysti ef þarf og svo fer ég bara að vinna heima og hlakka til að fara að elda og borða kvöldmatinn.

Ég átti nokkra pakka af frosnum rækjum (hráum en skelflettum) þegar einangrunin byrjaði og er búin að nota tvo af þeim, annan svolítið austurlenskan, hinn ítalskan. Nú ákvað ég að nota þann þriðja og leita til Kýpur, þar sem ég eyddi jólunum fyrir fáeinum árum, og elda saganaki. Þótt ostabirgðir heimilisins séu langt komnar átti ósnertan bita af halloumi-osti, sem er jú ættaður frá Kýpur.

Saganaki er oftast nær ostaréttur, það er þó ekki algilt. Í rauninni var það upphaflega haft um ýmiss konar rétti sem eldaðir voru í sérstakri, lítilli pönnu með tveimur höldum og bornir fram í henni. Langoftast er ostur í réttinum; feta, halloumi, kefalotyri eða aðrir grískir/tyrkneskir ostar og stundum er þetta bara bráðinn/steiktur ostur, borinn fram með nýmöluðum pipar, sítrónubátum og brauði.

En rækju-saganaki er líka vel þekktur réttur og það var semsagt hann sem ég ákvað að gera. Svo að ég tók poka af rækjum úr frysti í morgun og lét þiðna.

_MG_4960

Ég byrjaði á að skera niður einn lauk (eða reyndar hálfan venjulegan og hálfan rauðlauk en það var af því að ég átti afganga). Hitaði svo 1 msk af ólífuolíu í saganaki-pönnunni minni (en það má nota hvaða pönnu sem er ef hún þolir að fara undir grill). Setti laukinn á pönnuna og lét hann krauma í nokkrar mínútur, þar til hann var meyr en ekki farinn að brenna. Þá hrærði ég 1 tsk af harissa-mauki saman við (það má nota hvaða chilisósu sem er, eða væna klípu af chiliflögum eða cayennepipar á hnífsoddi) ásamt einum söxuðum hvítlauksgeira, lét krauma í eina mínútu og hrærði svo einni dós af kirsiberjatómötum saman við og kryddaði með pipar og salti.

_MG_4964

Ég lét þetta malla í svona fimm mínútur og hitaði á meðan grillið í ofninum, hellti rækjunum í sigti og skar hálfan kubb af halloumi (125 g) í sneiðar.

Þegar grillið var orðið heitt hrærði ég rækjunum saman við tómatana og raðaði halloumisneiðunum ofan á. Setti pönnuna svo í ofninn, svona 10 cm frá grillinu, og grillaði í 5-6 mínútur, eða þar til osturinn var farinn að brúnast.

_MG_4971

Ég stráði svo ögn af söxuðu timjani yfir, bara til að skreyta, og setti þetta á borðið sjóðheitt í pönnunni.

_MG_4984

Svo borðaði ég þetta með heimabökuðu brauði.

*

Rækju-saganaki með halloumi

250 g rækjur, hráar en skelflettar

1 lítil laukur

1 msk ólífuolía

1 tsk harissa-mauk eða önnur chilisósa (eða eftir smekk)

1 hvítlauksgeiri

1 dós kirsiberjatómatar

125 g halloumi-ostur

e.t.v. timjan eða aðrar kryddjurtir til skrauts

2 comments

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s