Balsambaunir

Ég hef reynt, í þessar bráðum fimm vikur, að elda nokkuð jöfnum höndum kjötrétti, fiskrétti (eða a.m.k. rétti með einhverju fiskmeti í) og svo grænmetisrétti, sem hafa verið ýmist vegan eða ekki, en það hefur þó fremur verið tilviljun hvort svo hefur verið, ég er ekkert sérstaklega vegan þótt ég eldi oft rétti sem vill svo til að myndu flokkast þannig. Súpan í gær var vegan en hér kemur annar grænmetisréttur sem er það ekki, því að það er ostur í honum – seinni helmingurinn af halloumistykkinu sem ég átti, hinn hlutinn var notaður í saganaki í fyrri viku.

Ég notaði eina dós af kjúklingabaunum (nóg til af þeim enn), hálfa dós af kirsiberjatómötum sem hafði verið í ísskápnum síðan ég eldaði sardínupasta á dögunum, og svo hefði ég gjarna viljað hafa grænkál eða eitthvað slíkt en það á ég ekki til, hvorki ferskt né frosið, og afskaplega fátt eftir í grænmetisskúffunni í ísskápnum. Þar var nú samt til hnúðkál og mér fannst að það gæti verið ágætis mótvægi gegn baununum og tómötunum.

_MG_5348

Ég byrjaði á að blanda saman í eldföstu móti 2 msk af ólífuolíu, 2 msk af balsamediki, 1 tsk af þurrkuðu óreganói (úr hlíðum sjálfs Ólympusfjalls en það er nú ekki skilyrði), pipar og salti. Svo tók ég hálfa hnúðkálshnyðju, flysjaði og skar í litla bita, ekki mikið stærri en kjúklingabaunir, og blandaði saman við ásamt einni dós af kjúklingabaunum og hálfri af kirsiberjatómötum (notaði ekki tómatlöginn af þeim og ekki baunasoðið heldur). Blandaði vel og bakaði í 220°C heitum ofni í um 20 mínútur.

_MG_5350

Þá tók ég mótið út og kveikti á grillinu í ofninum. Skar hálfan halloumiost í bita og dreifði þeim yfir og setti fatið svo undir grillið í svona 5 mínútur, eða þar til osturinn var að byrja að bráðna og farinn að brúnast á jöðrunum.

_MG_5353

Svo saxaði ég dálitla timjankippu, svona 2-3 matskeiðar allavega, og stráði yfir. – Ég hef oft notað timjan að undanförnu sem skreytingu eða til að fá eitthvað örlítið grænt í réttina en þarna skiptir timjanið máli (þótt það megi svosem sleppa því). En það þarf að vera íslenskt timjan í potti, ekki gróft með svera stöngla.

_MG_5382

Með þessu hafði ég heimabakað heilhveitibrauð, steikt í svolítilli ólífuolíu.

*

Balsam-kjúklingabaunir með halloumi

2 msk ólífuolía

2 msk balsamedik

1 tsk óreganó, þurrkað

pipar og salt

1 dós kjúklingabaunir

1/2 dós kirsiberjatómatar

1/2 hnúðkálshnyðja

125 g halloumi-ostur

2-3 msk timjan, saxað

2 comments

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s