Baunir og broddur

Eins og ég held ég sé nú búin að sýna sjálfri mér og öðrum fram á, þá þarf einangrun án aðfanga ekkert endilega að þýða að maður lifi bara á dósabaunum og pasta og túnfiski. Ekki þar fyrir, ég á nóg af þessu öllu saman. Sérstaklega baunum (það er annað lag af dósum þarna undir)._MG_5170

Ég hef ekkert notað svo mikið af baunum upp á síðkastið og fannst alveg kominn tími til að koma einhverju af þessu í lóg. Þar sem ég átti sérstaklega mikið af smjörbaunum ákvað ég að elda mér smjörbaunasúpu. Þykka, maukaða smjörbaunasúpu með slatta af kryddjurtum og kryddi, og þar sem ég var að gera tilraunir með eftirrétt (meira um það á eftir) ákvað ég að láta hana bara duga. Fyrir utan desertinn semsagt.

Þessi súpuskammtur dugir fyrir allavega tvo, kannski frysti ég afganginn (það er allavega rýmra í frystinum en oft áður).

Grænmetið er verulega farið að minnka eins og komið hefur fram – ég átti hálfan hvítan lauk og eina gulrót, að vísu stóra – og nokkra sellerístöngla, þeir hafa nú aldeilis geymst vel. Þannig að ég skar niður helminginn af gulrótinni, laukinn og tvo sellerístöngla, og saxaði líka einn hvítlauksgeira.

_MG_5303

Svo hitaði ég 1 msk af ólífuolíu í potti og lét laukinn krauma í nokkrar mínútur án þess að brúnast. Setti svo gulrót, sellerí og hvítlauk í pottinn, ásamt 1-2 timjangreinum, rósmaríngrein og tveimur lárviðarlaufum og steikti í nokkar mínútur í viðbót. Þá stráði ég 1 tsk af kummini, 1 tsk af nýmöluðu kóríanderfræi og 1/2 tsk af karrídufti yfir, hrærði vel og steikti í 1 mínútu.

Ég opnaði svo 2 dósir af smjörbaunum, hellti úr þeim í sigti og hvolfdi þeim svo á pönnuna. Kryddaði með pipar og salti, bætti við 1 tsk af grænmetiskrafti og hellti svo 400 ml af sjóðandi vatni yfir. Lét þetta svo malla í svona 10 mínútur, eða þar til gulræturnar voru meyrar.

Þá veiddi ég kryddjurtirnar upp úr og hellti súpunni svo í matvinnsluvél og maukaði hana þar til hún var alveg slétt. Smakkaði hana og bragðbætti eftir þörfum.

_MG_5321

Ég var búin að skera bita af heimabökuðu brauði í teninga, velta þeim upp úr ólífuolíu og rista þá undir grillinu þar til þeir voru gullinbrúnir, og bar þá fram með.

Já, svo var það eftirréturinn. Ég átti nefnilega broddmjólk í frysti og datt í hug að nota eitthvað af henni núna. Lét broddinn þiðna, hristi flöskuna vel (broddurinn var blandaður fyrir frystingu sem var eins gott því ég á enga mjólk til að blanda vel) og hellti úr henni í þrjú lítil eldföst form sem ég setti í ofnskúffu. Bragðbætti broddinn í einu forminu með vanilluessens og í öðru með Calvados (nema hvað). Breiddi bökunarpappír yfir formin, hellti sjóðandi vatni í ofnskúffuna og bakaði ábrystirnar í vatnsbaði í svona 35 mínútur.

_MG_5333

Ofan á vanillubragðbættu ábrystirnar setti ég svo (sykurlausa) jarðarberjasultu þykkta með matarlími, bláberjasultu á Calvadosið, en þriðja skálin var bara hefðbundin með kanelsykri.

*

Smjörbaunasúpa með kryddjurtum og brauðteningum

1/2 laukur

1/2 stór gulrót (eða 1 minni)

2 sellerístönglar

1 hvítlauksgeiri

rósmarín, timjan og lárviðarlauf (eða aðrar kryddjurtir, ferskar eða þurrkaðar)

1 tsk kummin

1 tsk kóríanderfræ

1/2 tsk karríduft

2 dósir smjörbaunir (eða aðrar hvítar baunir)

pipar og salt

1 tsk grænmetiskraftur

400 ml vatn

ristaðir brauðteningar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s