Þegar ég var að fara í gegnum búrskápinn minn á dögunum að kanna hvað ég ætti nú þar sem ég hefði alveg gleymt að væri til rakst ég á nokkrar dósir af sardínum. Ég mundi alveg hvar og hvenær ég eignaðist þær, það var þegar ég var í Porto um árið. Keypti þónokkrar dósir af eðalsardínum og hélt reyndar að þær væru löngu búnar en það voru þær semsagt ekki. Sardínur geymast alveg ágætlega en til að vera viss fletti ég því upp og fann strax þetta: „Canned sardines can last as long as five years if stored properly, according to the FDA.“ Og það er ekki nema fjögur og hálft ár síðan ég var í Porto, svo að ég reiknaði út að sardínurnar væru bara í fínu lagi. Sem þær voru.
(Það stendur að vísu 100 years á dósinni en ég taldi ólíklegt að það ætti við sardínurnar sjálfar.)
En þá var spurningin hvað ætti að gera við þær – eða það er að segja, eina dósina. Og þá datt mér í hug að gera pastarétt, eitthvað mjög áþekkt pasta puttanesca en þar eru jú ansjósur, sem gefa allt annað bragð. Ég á engar ansjósur (eða ef ég á þær hef ég ekki fundið þær enn) en það má nota sardínur, það verður bara annar réttur.
Ég byrjaði á að sjóða svona 75-100 g af linguini í saltvatni. Á meðan saxaði ég tvo hvítlauksgeira smátt, hitaði 1 msk af ólífuolíu á pönnu og lét hvítlaukinn krauma í 1-2 mínútur. Ég setti líka nokkrar chiliflögur á pönnuna – hefði sett fleiri en sardínurnar sem ég hafði valið voru í chilitómatsósu svo að þess þurfti ekki.
Síðan setti ég hálfa dós af kirsiberjatómötum á pönnuna (það má líka nota saxaða tómata) og síðan allt innihaldið úr sardínudósinni, hrærði og kramdi í sundur sardínurnar og tómatana svolítið líka. Lét þetta malla í örfáar mínútur við vægan hita.
Svo skar ég svona 10 steinlausar ólífur í bita og hrærði þeim saman við, ásamt tveimru teskeiðum af kapers. Áður en ég hellti vatninu af pastanu tók ég svolítið af því – svona hálfa litla ausu af pastavatni – og hrærði saman við sósuna til að þynna hana. Lét sjóða í 2-3 mínútur í viðbót. Á meðan hellti ég pastanu í sigti, lét renna af því og blandaði því svo vel saman við pastað.
Að síðustu stráði ég svolitlu söxuðu timjani yfir til að punta upp á pastað (hefði notað steinselju ef hún hefði verið til).
Portúgölsku sardínurnar voru fínar, þótt aldraðar væru.
*
Linguini með sardínum, tómötum, ólífum og kapers
75-100 g linguini eða spaghetti
salt
2 hvítlauksgeirar
1 msk ólífuolía
smáklípa af chiliflögum
1/2 dós kirsiberjatómatar
1 dós sardínur í tómatsósu
10 svartar ólífur
2 tsk kapers
e.t.v. örlítið timjan eða steinselja
[…] ég átti þó ýmislegt annað – túnfisk (sjá hér og hér) og sardínur í dósum og svo hörpuskel og rækjur í frysti (já, hér líka). Og það er meira að segja […]
[…] þeim enn), hálfa dós af kirsiberjatómötum sem hafði verið í ísskápnum síðan ég eldaði sardínupasta á dögunum, og svo hefði ég gjarna viljað hafa grænkál eða eitthvað slíkt en það á ég […]