Skírdagsönd

Ég eldaði mér andarlæri í sunnudagsmatinn og af því að maður getur bara keypt tvö saman (stundum þrjú) þurfti ég að þiða bæði, ekki möguleiki að ná þeim frosnum í sundur. Þannig að það var ljóst að hitt lærið yrði í matinn núna í vikunni og upplagt að hafa það sem skírdagsmat. Ég veit ekki til að skírdegi fylgi neinar sérstakar matarvenjur nú orðið, nema þá í einstökum fjölskyldum, en á átjándu og nítjándu öld tíðkaðist a.m.k. sumstaðar að elda skírdagsgraut, hnausþykkan rauðseyddan grjónagraut. (Og svo var drukkið brennivín, að minnsta kosti í verstöðvum á Suðurnesjum, en það er önnur saga.)

En ég eldaði engan grjónagraut, enda öll mjólk löngu búin hér á heimilinu þótt nóg sé til af grjónum. En það var semsagt til andarlæri. Mér þykja hefðbundin ofnsteikt læri, svipuð því sem ég eldaði um daginn, ósköp góð en vildi nú samt gera eitthvað allt annað með það seinna fyrst svona stutt er á milli. Og þá datt mér í hug að gera tætt læri í pönnuköku – ekki alveg svona crispy aromatic önd, en svolítið í þá áttina. En ég á eiginlega ekkert grænmeti lengur, allavega ekki vorlauk og gúrku og svoleiðis, þannig að ég lét mér detta eitthvað annað í hug.

_MG_5087

Ég byrjaði í morgun á að krydda lærið, því að það þarf að liggja í kryddinu daglangt eða yfir nótt. Stakk fyrst mjóum, beittum hnifsoddi í það á þónokkrum stöðum (má líka nota prjón eða gaffal). Svo blandaði ég saman 1 tsk af kínverskri fimm krydda blöndu, 1/2 tsk af sichuanpipar og 1/2 tsk af salti og neri kryddinu vel inn í öndina. Setti hana svo í kæli og lét hana standa þar uns tími var kominn til að matreiða hana.

_MG_5095

Þá hitaði ég ofninn í 160°C. Hitaði svo litla pönnu, setti 1 tsk af olíu á hana og brúnaði lærið við nokkuð góðan hita í svona 4 mínútur á hvorri hlið. Ef pannan má ekki fara í ofninn er lærið svo sett í eldfast mót (gott að hita það í ofninum) annars er best að nota bara pönnuna. Svo hellti ég 250 ml af sjóðandi vatni, blönduðu 1 tsk af kjúklingakrafti, á pönnuna eða í formið og setti þetta í ofninn í 1 klst og 20 mínútur. Gott er að líta á það þegar líður á tímann og bæta við dálitlu vatni ef þarf.

_MG_5097

Þegar öndin var farin í ofninn gerði ég deigið í pönnukökurnar því að það þarf að bíða í a.m.k. hálftíma: Hrærði saman 150 g af hveiti, 100 ml af sjóðandi vatni, 1 msk af sesamolíu og svolítið salt og hnoðaði mjög vel (ég notaði hrærivél með hnoðkrók). Það má bæta við örlitlu heitu vatni ef deigið er of þétt, það á að vera slétt og mjúkt án þess að klessast. Lét það svo bíða í skálinni, en rétt áður en öndin var tilbúin skipti ég því í fimm hluta (eða fleiri en þá verða pönnukökurnar minni) og flatti það út á létt-hveítstráðu borði, eins þunnt og ég mögulega gat. Næstum eins og laufabrauð.

_MG_5103

Ég setti andarlærið á disk og lét rjúka úr því í nokkrar mínútur, áður en ég tók kjötið af beinunum og tætti það sundur með tveimur göfflum. Á meðan það beið setti ég pönnuna á eldavélarhellu, hrærði hálfri dós af borlotti-baunum (eða einhverjum öðrum baunum) og tveimur matskeiðum af hoisin-sósu saman við og lét malla aðeins.

_MG_5109

Ég var búin að hita þykkbotna pönnu og steikti nú pönnukökurnar á henni (án feiti) í eina mínútu á hvorri hlið og staflaði þeim upp jafnóðum.

_MG_5112

Að lokum blandaði ég andatætingnum saman við sósuna og baunirnar, hrærði vel og bar svo fram á pönnunni.

_MG_5117

Og þá var bara eftir að fá sér pönnuköku og setja andakássuna á hana og vefja hana upp.

*

Tætt andarlæri með baunum og pönnukökum

1 andarlæri

1 tsk kínversk fimm krydda blanda

1/2 tsk sichuanpipar

1/2 tsk salt

1 tsk olía

250 ml sjóðandi vatn

1 tsk kjúklingakraftur

*

Kínverskar pönnukökur

150 g hveiti

100 ml sjóðandi vatn, og meira ef þarf

1 msk sesamolía

svolítið salt

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s