Þótt ég hafi verið með grænmetisrétti tvo undanfarna daga er það ekki vegna þess að kjötmeti sé uppurið í mínu birgðasafni, öðru nær. Sumt af því læt ég reyndar eiga sig af því að það er í svo stórum stykkjum að það hentar ekki til matreiðslu fyrir einn – ef ég dreg til dæmis fram hálfan lambaframpart eða tveggja kílóa bita af söltuðu svínslæri eða eitthvað slíkt yrði ekkert annað í matinn næstu vikuna. Og mig langar heldur ekki í kanínu eða andabringur marga daga í röð.
En svo eru nú einhverjir bitar sem henta betur fyrir einbúa í einangrun. Til dæmis átti ég lambshaus, eldaði annan kjamman að sardinískum hætti á dögunum og nú var komið að hinum. Mig langaði að búa til súpu, hef áður eldað persneska sviðasúpu sem var ágæt en langaði að prófa eitthvað annað. Og þegar ég fór að leita rakst ég á uppskrift frá Suður-Súdan. Maður eldar nú ekki þarlendan mat á hverjum degi. Og það sem meira var, ég átti allt sem þurfti í hana, eða svona nokkur veginn.
Hjörtum mannanna svipar saman í Súdan og Grímsnesinu, orti Tómas. Ég held þó að það eigi ekkert sérstaklega við um svið. Nema kannski að einu leyti: Lambs- og kindahausauppskriftir má finna í mjög mörgum löndum en yfirleitt eru hausarnir flegnir fyrir matreiðslu svo að þetta eru strangt tekið ekki sviðaréttir. Öðru máli gegnir um þessa hér, það er tekið fram í uppskriftum að hausarnir eigi – verði eiginlega – að vera sviðnir. Svo að það passaði ágætlega og að því leyti má segja að sviðunum svipi saman. En annars alls ekki …
Ég byrjaði á að setja kjammann (sem var lítil og nettur) í pott ásamt 1 l af vatni, pipar og salt, lét suðuna koma upp og fleytti froðu ofan af. Á meðan skar ég niður grænmetið: samkvæmt uppskriftinni sem ég var með átti að vera einn stór laukur (ég átti tæplega hálfan rauðlauk) og tvær gulrætur (það var til hálf ræfilsleg gulrót, að vísu fremur stór) og tveir sellerístilkar (þeir voru til). Ég setti þetta í pottinn ásamt tveimur fjórum söxuðum hvítlauksgeirum, chilialdini og hálfri dós af söxuðum tómötum. Lét suðuna koma upp og setti svo lok á pottinn og lét þetta malla í 1 1/2 klst. (Gott að fylgjast með og bæta við vatni ef þarf.)
Þá bætti ég hnetusmjöri í pottinn. Samkvæmt uppskriftinni átti að vera ein teskeið en ég setti rúma matskeið af því að það var minna grænmeti í súpunni en átti að vera. Ég átti ekki hnetusmjör í skápnum svo að ég tók þær salthnetur sem ég átti og bjó það til. Auðvitað miklu meira en ég þurfti en maður getur nú alltaf notað hnetusmjör, það verður ekki ónýtt … Ég lét súpuna svo malla í svona 10 mínútur í viðbót. Tók þá sviðakjammann upp úr, lét hann kólna í nokkrar mínútur og hreinsaði svo allt kjöt af beinunum og skar það í bita.
Svo smakkaði ég súpuna og bragðbætti eftir þörfum. Hellti henni svo í skál (veiddi chilialdinið upp úr fyrst) og setti kjötið út í.
Það orð fylgir gjarna sviðasúpum, í þeim löndum þar sem þær þykja sælgæti, að þær séu sérlega góðar við timburmönnum. Ég skal ekki segja, var ekki með timburmenn, en hún reif í svo að ég get alveg trúað því. Og var ansi góð.
*
Suður-súdönsk sviðasúpa
1 sviðakjammi
1 l vatn, og meira eftir þörfum
pipar og salt
1/2 laukur
1 gulrót (eða 1/2 stór)
2 sellerístönglar
1/2 dós saxaðir tómatar
3-4 hvítlauksgeirar
1 msk hnetusmjör