Ókei, viðvörun strax: Þessi uppskrift er ekki fyrir hvern sem er.
Ég er að reyna að grisja aðeins í frystiskápnum en það gengur ekki nógu vel, meðal annars vegna þess að sumir afkomendur mínir eru gikkir og borða ekki hvað sem er, ekki skil ég hvernig á því stendur, og í skápnum er eitt og annað sem ekkert þýðir að bjóða þeim upp á. Og í ýmsum tilvikum er það ekki endilega eitthvað sem maður býður fólki upp á í matarboði. En ég borða nú eiginlega allt (þótt ég sækist mismikið eftir því) svo að ég verð þá bara að hakka þetta í mig sjálf. Sem er reyndar ágætt því það gefur mér kost á ýmiss konar tilraunastarfsemi.
Til dæmis stóð ég hér áðan með tvo frosna sviðakjamma í höndunum. Nú þykja mér svið ágæt en langaði ekkert í venjuleg soðin svið. Ég ofnsteiki oft svið eða baka þau í leirpotti (og hef líka grillað þau á útigrilli) en núna langaði mig mest í súpu. Og þá mundi ég eftir kale pache, persneskri sviðasúpu sem ég hafði lengi ætlað mér að prófa. Reyndar þurfti ég að gera allnokkrar breytingar, til dæmis vegna þess að ég átti engar sviðalappir, sem eiga að vera í réttinum samkvæmt hefð (mig minnir að nafnið þýði ,,haus og lappir“) og ýmsu fleira breytti ég, reyndar eftir að hafa skoðað uppskriftir frá ýmsum löndum, því þessi réttur í ótal myndum er þekktur á öllu svæðinu frá Miðjarðarhafsbotni austur til Afganistan og frá Persaflóa norður til Kákasus- og Mið-Asíulanda. Til dæmis kryddaði ég súpuna vel, sem yfirleitt er ekki gert í Íran en hins vegar í mörgum grannlandanna. Svo eiginlega er ekki rétt að kalla þetta persneska súpu …
Í Íran og reynar víðast hvar er þetta morgunverðarsúpa og í Teheran eru held ég sérstök veitingahús sem einungis bjóða upp á svona súpu og eru opin frá því um miðja nótt og fram í dögun en ekki á öðrum tímum. Í Georgíu og Azerbaijan er súpan líka borin fram á morgnana sem timburmannahressing og ég held að hún sé vinsæl þar í veislum sem standa dögum saman, brúðkaupsveislum og þess háttar.
En ég hafði hana nú bara í kvöldmatinn, var ekkert timbruð og svo er ég kvenmaður (það eru yfirleitt karlar sem matreiða súpuna). Og hún var góð. Fannst mér.
Ég tók semsagt tvo frosna sviðakjamma og setti í pott ásamt svo miklu vatni að rétt flaut yfir (svona 3 lítrar líklega), 1 lauk skornum í bita, 2 gulrótum í sneiðum, 1 nípu (af því að ég átti hana og húnv ar farin að láta á sjá) í sneiðum, 1 sellerístöngli, söxuðum, 2 lárviðarlaufum, kanelstöng, 1/2 tsk af allrahandaberjum (það mætti líka nota t.d. 2-3 negulnagla og engiferbita), 2 hvítlauksgeira, saxaða smátt, 1/4 tsk chiliflögur, pipar og salt.
Lét þetta malla í svona 1 1/2 klst. Þá tók ég kjammana upp úr og lét þá kólna ögn, bara svo hægt væri að losa kjötið af beinunum. Síaði soðið í skál, skolaði pottinn, hellti soðinu aftur í hann (þetta var svona 1 1/4 lítri) og hitaði aftur að suðu. Ég ákvað að nota gulræturnar svo að ég tíndi þær úr grænmetinu í sigtinu og setti þær aftur í pottinn.
Ég losaði svo sviðin af beinunum og skar þau í bita. (Já, augun eru þarna líka.) Setti þau svo aftur út í súpuna.
Svo hellti ég svona 250 ml af tómat-passata út í. Það mætti líka nota maukaða, niðursoðna tómata eða bara tómatsafa.
Ég átti dálítinn spínatafgang í poka og grófsaxaði hann og setti út í. Smakkaði súpuna, bætti við svolitlu salti og þá var hún tilbúin.
Ég hellti súpunni í tarínu og stráði ögn af þurrkaðri grófmuldri basilíku yfir en það var nú bara af því að ég var með hana í höndunum …
Svolitill sítrónusafi kreistur yfir og brauð með. Þetta var alveg hreint afbragðssúpa.
Krydduð persnesk sviðasúpa
2 sviðakjammar
3 l vatn
1 laukur
2 gulrætur
1 nípa (eða annað grænmeti eftir smekk)
1 sellerístöngull
2 lárviðarlauf
kanelstöng
1/2 tsk allrahandaber (eða t.d. negulnaglar, engifer, kardimommur eða annað krydd)
2 hvítlauksgeirar
1/4 tsk chili-flögur
pipar
salt
250 ml tómat-passata
1 lófi spínat
sítrónubátar
Og hvað myndi hún duga fyrir marga í mat? Ímynda mér að hún hafi dugað fyrir fleiri en einn … lítur mun betur út og hljómar meira spennandi en í upphafi þegar þú varst bara með tvo sviðakjamma í höndunum …
Hún ætti alveg að duga fyrir fjóra til sex. Mér fannst hún allavega býsna góð, ég kryddaði hana vel svo að hún reif í.
[…] hætti á dögunum og nú var komið að hinum. Mig langaði að búa til súpu, hef áður eldað persneska sviðasúpu sem var ágæt en langaði að prófa eitthvað annað. Og þegar ég fór að leita rakst ég á […]