Af mataræðum og fiskum

Ég er orðin kolrugluð í öllum þessum mataræðum sem eru í gangi, það segi ég satt. Veit ekki lengur hvað er hollt og hvað óhollt, hvað er ofurfæða og hvað bráðdrepandi eitur eða allt að því. Maður er alltaf að heyra eitthvað nýtt.

Samt held ég að ég hafi aldrei fyrr en í gær séð því haldið fram að það væri einfaldlega ekki hægt að fá næga næringu úr mat og ég er viss um að þær fréttir koma flatt upp á flesta, einhvernveginn hefur jú mannkynið lifað í öll þessi ár og oft ekkert haft annað en mat að næra sig á. Steinar B. Aðalbjörnsson vakti athygli á þessum texta sem birtist í blaði frá Fjarðarkaupum:  ,,Við í Fræinu höfum þó ævinlega þá sýn að í matnum verði að finna næga næringu í framtíðinni, en þar sem ennþá er mjög langt í land með það er frábært að geta gripið til vandaðra og virkra bætiefna sem gera okkur oftar en ekki lífsnauðsynlegt gagn.“

Ég sem er búin að lifa á eintómum mat (og kaffi) í 56 ár. Mesta furða að ég skuli vera lifandi þar sem ég hef alveg sneitt hjá bætiefnunum sem gera lífsnauðsynlegt gagn.

En allavega, þessi uppskrift fellur sennilega ekki undir neitt sérstakt mataræði. Reyndar engar kartöflur eða korn en hún er ekki lágkolvetna því það eru baunir í henni; hún er ekkert sérlega fitulítil og hún er alveg örugglega ekki grænmetis (þótt ég þekki reyndar fólk sem telur sig grænmetisætur en borðar þó fisk og jafnvel kjúkling).

En fiskur er nú ágætlega hollur, svona heilt yfir. Ég les reyndar ekki mikið af íslenskum matarbloggum en lít þó á sum þeirra af og til og mér finnst ég satt að segja ekki sjá mikið af fiski. Ég veit ekki af hverju það er, kannski er fólk mikið til hætt að borða fisk. Sjálf borða ég alltaf meiri og meiri fisk svo kannski er þetta bara aldurinn … En mig minnir að ég hafi nefnt það hér áður að ég er ekki mikið fyrir ýsu (og hvers vegna ætti maður að borða ýsu þegar svo miklu betri fiskur er fáanlegur?) og hef afar sjaldan eldað hana síðustu árin.

En það var til þorskur í Nóatúni áðan. Þorskhnakki, kallaðist það þótt mér þyki reyndar sem hnakkinn sé farinn að ná ansi langt aftur eftir hryggnum á fiskinum. 250 gramma biti, dugir mér í matinn og það er eitthvað eftir í nestið á morgun.

IMG_1983

 

Allt annað en fiskinn átti ég til heima – tvo vel þroskaða plómutómata, ólífuolíu, hvítlauksgeira, pipar, salt, herbes de provence (má nota aðrar kryddjurtir eftir smekk), sítrónu (notaði bara börk af hálfri sítrónu reyndar), dós af kjúklingabaunum, slatta af basilíku sem var reyndar aðeins farin að slappast en ekki skemmast.

IMG_1985

 

Ég byrjaði á að hita ofninn í 210°C. Svo skar ég tómatana í geira, hellti 1 msk af ólífuolíu í lítið, eldfast fat, velti tómötunum upp úr henni, kryddaði þá með dálitlu af pipar, salti og herbes de provence og saxaði hálfan hvítlauksgeira smátt og dreifði yfir. Setti þetta svo í ofninn í 8 mínútur.

IMG_1987

Á meðan tók ég fiskinn, kryddaði hann með pipar og salti á báðum hliðum og reif svo börk af hálfri sítrónu fínt og dreifði yfir.

IMG_1990

 

Ég tók fatið úr ofninum eftir 8 mínútur, ýtti tómötunum til hliðanna og lagði flakið í miðjuna. Setti fatið svo aftur í ofninn og bakaði fiskinn í – ja, 6-7 mínútur líklega. Eða þangað til fiskurinn var rétt eldaður í gegn.

IMG_1991

 

Á meðan bjó ég til baunastöppuna: setti kjúklingabaunirnar í pott ásamt hluta af leginum úr dósinni, saxaðri basilíku, hvítlaukshelmingnum sem eftir var (fínsöxuðum), pipar, salti og herbes de provence. Hitaði að suðu og lét malla í 2-3 mínútur.

IMG_1994

 

Svo hellti ég öllu í litlu matvinnsluvélina, bætti við 2 msk af ólífuolíu og maukaði baunirnar. Frekar gróft en samt nokkru meira en á myndinni. Smakkaði stöppuna og kryddaði með meiri pipar og salti – hún má alveg vera nokkuð vel pipruð.

IMG_2008

 

Ég tók svo fiskinn út – hann var alveg mátulega eldaður – og bar hann fram í fatinu með tómötunum. Soðið úr fatinu kemur alveg í stað sósu.

IMG_2025

 

Sko, þetta er mitt mataræði.

 

Bakaður þorskur með tómötum og stöppuðum kjúklingabaunum

250 g þorskur

2 vel þroskaðir tómatar

3 msk ólífuolía

1 hvítlauksgeiri

börkur af 1/2 sítrónu

3/4 sk herbes de provence

pipar

salt

1 dós kjúklingabaunir

lófafylli af basilíku

 

One comment

  1. Mikið finnst mér þetta girnilegt! Matur að mínu skapi.
    Ég hef líka tekið eftir því á þessum tísku matarbloggum hvað er sjaldan fiskur, oft kjúklingur, beikon og mikill rjómi. Á mínu heimili er verið að reyna að elda hollan og fjölbreyttan mat sem hentar m.a. hjartasjúklingi, svo þá er reynt að skera niður í harðri fitu. En alveg sammála að maður verður alveg ruglaður í öllu þessu næringarkjaftæði.
    Kveðja, Þorbjörg.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s