Skjótt skipast veður í lofti

Ég var búin að bjóða dótturfjölskyldunni í mat og þegar ég fór út í morgun var ég að hugsa um að það væri nú veður fyrir eitthvað verulega vetrarlegt og notalegt og huggulegt og heimþrifalegt – einhvern góðan pottrétt, til dæmis, sterka og saðsama súpu eða þá risotto. Allt hvítt og snjónum kyngdi niður. Jólalegt næstum því.

Ég vinn í gluggalausu horni og hreyfði mig varla úr sætinu eftir hádegi, sótti mér ekki kaffi og leit ekki út um gluggann. Þess vegna eiginlega krossbrá mér þegar ég kom út í vetrarúlpunni og það var bara sól og blíða, hvergi snjóörðu að sjá og mér datt allt í einu í hug að það væri nú bara veður til að grilla, sveimér þá. Og í búðinni rakst ég á lítið og álitlegt lambalæri, innan við tvö kíló. Svo ég sló til í þeirri von að veðrið hefði ekki gjörbreyst aftur þegar ég kæmi út úr búðinni. Sem það hafði ekki gert, til allrar hamingu. Jæja, það hefði reyndar verið í lagi, þá hefði lærið bara farið í ofninn.

Ég tók lærið úr plastumbúðunum þegar heim kom, þerraði það aðeins með eldhúspappír, stakk nokkrar raufar í það með hnífsoddi og stakk hvítlauksflísum í þær (2 hvítlaukar alls). Kryddaði það svo með pipar, Maldon-salti og slatta af þurrkuðu timjani og lét það standa á meðan ég hitaði grillið. Hafði það lokað og hitaði þar til mælirinn á lokinu sýndi rúmar 200°C.

Ég tók engar myndir af undirbúningnum, enda ætlaði ég svosem ekkert að setja þetta hér inn, var bara beðin um það. Ég mynda annars aðallega ef ég er bara elda ofan í mig eina. En ég tók einhverjar myndir af lærinu á grillinu.

IMG_2116

 

Grillið mitt er lítið Weber-grill (þó með ótrúlega stórum grillfleti miðað við stærð) og á því eru tveir brennarar, annar beinn efgtir miðju og hinn liggur í hring utan um. Sem er mjög þægilegt. Þegar grillið var orðið heitt slökkti ég á brennaranum í miðjunni, setti lærið þar á og lokaði grillinu. Það var ekki hlýrra í veðri en svo að ég hafði ytri brennarann á nærri fullum hita en að sumri til í hlýju veðri  stilli ég hann lægra. Reyni bara að passa að hitamælirinn fari ekki mikið niður fyrir 200°C. Jæja, eða ekki niður fyrir 180°C allavega. Og ekki langt upp fyrir það heldur.

Ég fór svo bara inn og hafði litlar áhyggjur af lærinu. Leit þó tvisvar á það til að tékka á að allt væri í lagi. Það er best að opna grillið sem minnst, þá rýkur hitinn burtu og grilltíminn lengist. Þessi mynd var tekin þegar lærið var búið að vera svona 15-20 mínútur á grillinu.

IMG_2119

 

Ég grillaði lærið í um klukkutíma og opðnaði það aftur þegar nokkrar mínútur voru eftir, þá til að setja kartöflur (heilar, meðalstórar rauðar íslenskar, sem ég hafði soðið þar til þær voru meyrar og velt svo upp úr olíu og kryddað með ögn af pipar og salti) í kringum lærið. Ég lét þær reyndar vera eftir á grillinu smástund eftir að ég tók lærið af.

IMG_2125

 

Ég lét lærið bíða svona 10 mínútur á meðan ég kláraði að ganga frá meðlætinu, sem var fyrir utan kartöflurnar, portobello-sveppir, skornir í þykkar sneiðar, kryddaðir með pipar og steiktir á pönnu í smjöri þar til þeir voru farnir að brúnast nokkuð vel, og svo var 250 ml af rjóma hellt yfir og látið sjóða aðeins niður, og salat með spínati, plómutómötum, papriku, lárperu, sítrónusafa, ólífuolíu, pipar og salti.

IMG_2136

 

Alveg ágætt að kveðja veturinn með þessu. En síst hefði mér dottið í hug í morgun að ég ætti eftir að standa við grillið að kvöldi.

Gleðilegt sumar annars.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s