Apríl er grimmur en grís góður

Þetta er búinn að vera frekar kaldur aprílmánuður og ekkert útlit fyrir að maí byrji betur – það er svoesem vel viðeigandi að syngja núna ,,en í kvöld lýkur vetri sérhvers vinnandi manns og á morgun skín maísól“ en það verður ekkert hlýrra fyrir það, held ég. Á þessum síðustu og verstu tímum veitir manni ekkert af vetrarlegum gammeldags notalegheitamat sem hlýjar bæði líkama og sál. Ég rak augun í bita af svínasíðu í búðinni og allt í einu langaði mig svo í pörusteik.

Ég hef reyndar haft hér uppskrift að svínasíðu með stökkri pöru áður og þessi er svosem ekki svo mikið öðruvísi. En góð vísa er aldrei of oft kveðin. Og ég er fyrir löngu búin að uppgötva að ég er hrifnari af HF-þættinum í LCHF-mataræði heldur en LC. Svínasíða með pöru smellpassar þar inn.

Svínasíðan er annars út af fyrir sig alveg ljómandi gott kjöt og verður það svosem  hvort sem paran er stökk eða ekki. En það er fitulagið undir pörunni sem gerir kjötið bragðgott og safaríkt þegar hún bráðnar og lekur niður í kjötið í steikingunni. Og það er þurr, stökk og brakandi paran sem setur punktinn yfir i-ið. Eða eiginlega frekar kommuna yfir í-ið, hún er svo mikilvæg. Fátt er meira svekkjandi en para sem ekki poppast og er lin og seig. Það eru til alls konar ráð til að fá pöruna almennilega stökka en mér hefur alltaf þótt rétt að gera sem minnst og láta hana bara sjá um þetta sjálfa … Það þarf bara réttan undirbúning.

(Eða sko, þetta svínvirkar alltaf hjá mér. Hvort það gerir það hjá öðrum veit ég ekki.)

IMG_2210

Það sem ég var með var: Svínasíða, svona 800 g (beinlaus), rósmaríngrein eða tvær, tveir hvítlauksgeirar, ólífuolía, pipar og vænn skammtur af Maldon-salti.

Ég stillti ofninn á 240°C. Það er mikilvægt að hann hafi náð því hitastigi þegar kjötið er sett inn (jæja, eða 230°C allavega).

IMG_2208

Það er tvennt sem skiptir máli með pöruna: a) að hún sé þurr – ég tók síðuna úr umbúðum um leið og ég kom heim til að láta loftið leika um hana og þerraði pöruna vel með eldhúspappír. Það er hægt að þurrka hana betur með því að nota hárblásara en minn er ónýtur svo ég sleppti því. Ef ég hefði keypt hana í gær hefði ég tekið plastið af pörunni og látið hana vera þannig í ísskápnum.

Og b) skurðirnir í pöruna eiga að vera nógu djúpir. Það var búið að skera í þessa en skurðirnir voru grunnir og náðu bara rétt í gegnnum pöruna sjálfa en lítið og stundum ekkert ofan í fitulagið. Þeir eiga að ná niður að kjötinu (en ekki ofan í það). Ég fer alltaf aftur ofan í skurðina með beittum hníf ef ég kaupi kjöt með pöru sem búið er að skera í.

IMG_2214

Ég saxaði rósmarínnálarnar og hvítlauksgeirana, setti í mortél ásamt pipar, hluta af saltinu og svona 2 msk af ólífuolíu og steytti þetta í mauk, sem þarf ekki að vera neitt rosalega fínt.

IMG_2218

 

Svo setti ég svínasíðuna í eldfast mót með pöruna niður, smurði rósmarínmaukinu á hana og sneri henni svo. Þerraði pöruna aftur með eldhúspappír.

IMG_2222

 

Svo stráði ég Maldon-salti yfir og neri því aðeins inn í pöruna og ofan í rifurnar. Einhverntíma sá ég í matreiðslubók að maður ætti að nudda því inn eins og maður væri að núa salti í andlitið á versta óvini sínum. En ég á enga sérlega vonda óvini, held ég.

Svo setti ég steikina í ofninn og steikti í hálftíma við 240°C. Á meðan tók ég tvær vænar bökunarkartöflur, flysjaði þær og skar í bita, ekki mjög stóra.

IMG_2230

 

Svo tók ég steikina út – jú, paran var nú bara alveg ágætlega poppuð – lækkaði hitann í 160°C, setti kartöflurnar í fatið í kringum steikina og velti þeim upp úr feitinni sem bráðnað hafði af svíninu. Setti þetta svo aftur í ofninn í svona 45 mínútur. Hrærði einu sinni eða tvisvar í kartöflunum.

IMG_2242

 

Ég lét steikina bíða í nokkrar mínútur en setti hana svo á fat og kartöflurnar í kring.

IMG_2284

 

Ég lét kartöflurnar og grænt salat duga sem meðlæti, langaði ekki í neina sósu því kjötið er svo safaríkt. En auðvitað má búa til brúna sósu eða einhverja aðra sósu með.

Þetta tók alveg úr mér vetrarhrollinn. Og paran var góð.

2 comments

  1. Gaman að sjá þessa aðferð hérna hjá þér. Ég hef alltaf fylgt aðferðinni þinni í pörusteikargerð, las leiðbeiningar frá þér að mig minnir í einhverju gömlu Gestgjafablaði sem ég hef haldið mig við síðan. Einhverntímann í millitíðinni tókst svo einhverjum að pranga inn á mig aðferð þar sem paran er soðin í vatni fyrst og svo bökuð, þetta átti að vera þvílíka málið. Skemmst frá því að segja að það tókst svo sannarlega ekki! Svo einfalda gamla góða leiðin er alveg málið og held ég mig við hana hér eftir.

  2. Aðferðin með að sjóða pöruna virkar áreiðanlega vel fyrir suma en ég hef aldrei séð ástæðu til að prófa hana af því að það hefur aldrei verið neitt vandamál hjá mér að fá stökka pöru – einhverntíma grínaðist ég með að þegar ég eldaði fyrst pörusteik hefði ég ekki vitað að paran ,,ætti“ að vera vandamál og þess vegna hefði hún ekki orðið það – og ég fór eftir uppskrift í enskri matreiðslubók og mér hefur sýnst að þetta sé yfirleitt ekki talið vandamál í enskum matreiðslubókum. Kannski vegna þess að þar eru menn ekki eins ragir við að stilla ofninn á háan hita og mér finnst Íslendingar og Skandinavar oft vera …

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s