Eggjalausar maíbrúnkur

Ég fór í Grænu gönguna en ekki neitt 1.-maí-kaffi á eftir. Þess vegna langaði mig í köku þegar ég kom heim. Ekki þó Framsóknarmaddömuköku eins og ég var búin að grínast með að ég ætlaði að baka, það er alveg nógu mikið um Framsókn þessa dagana þótt ég geri það ekki, en það rifjaðist allt í einu upp fyrir mig að fyrir löngu síðan var ég búin að lofa uppskrift að eggjalausum brúnkum og ég ákvað að gera þær – leitaði uppskriftina sem ég var með í huga uppi, sá að ég átti meirihlutann af hráefninu, breytti henni til samræmis við það sem til var og bakaði brúnkur.

Þær voru alveg hreint ágætar, kannski aðeins kökulegri en brúnkur eru vanar að vera en það var líklega af því að ég notaði olíu en ekki smjör og heldur minna af sykri en var í upphaflegu uppskriftinni. Ég hugsa að ég geri þær aftur seinna en þá möguega með smjöri og púðursykri til að fá meiri brúnkufíling í þær. Ég hefði líka mögulega notað aðeins meiri sykur ef ég hefði verið með ósætt eplamauk en það sem ég notaði var 7-8% sykur. En þær voru semsagt ansi góðar og þetta er einstaklega auðveld uppskrift, hráefninu bara blandað saman en engin hrærivél notuð eða neitt.

Ég byrjaði á að hita ofninn í 170°C og svo tók ég tvær skálar, aðra fyrir þurrefnin og hina fyrir blautefnin – alveg eins og þegar maður bakar múffur.

IMG_2393

 

Ég bræddi 200 g af suðusúkkulaði í vatnsbaði og setti svo í aðra skálina 200 ml af eplamauki (úr krukku), 4 msk af olíu (eða sama magni af bráðnu smjöri, sem er þá upplagt að bræða með súkkulaðinu) og 1 tsk af vanilluessens. Hrærði svo súkkulaðinu saman við þegar það var bráðið.

IMG_2397

 

Í hinni skálinni blandaði ég saman 175 g af hveiti, 1 1/2 tsk af lyftidufti, 1/2 tsk af matarsóda, 1/2 tsk af salti og 50 g af sykri (má vera meira, mætti alveg vera púðursykur). Hellti því svo í skálina með súkkulaðiblöndunni og blandaði saman með sleikju.

IMG_2404

 

Að lokum hrærði ég 75 g af ljósum súkkulaðidropum og 75 g af hnetum (ég notaði blöndu af pekan- og valhnetum af því að ég átti einmitt smáafganga í tveimur pokum) saman við með sleikjunni. Það má nota meira eða minna, eða sleppa annaðhvort súkkulaðinu eða hnetunum.

IMG_2409

 

Ég klæddi svo meðalstórt eldfast mót að innan með bökunarpappír, hellti deiginu í það, jafnaði yfirborðið og bakaði þetta á neðstu rim í um 25 mínútur. Gæti þurft aðeins styttri eða lengri tíma, fer eftir stærðinni á forminu og þar með þykktinni á deiginu – ég var búin að gleyma að ég notaði aðeins minna form síðast þegar ég bakaði þessar brúnkur svo að kakan varð þykkari – 22 mínútur hefðu alveg dugað núna.

IMG_2425

 

Ég lét kökuna kólna dálítið í forminu og notaði svo pappírinn til að lyfta henni upp úr svo hún yrði fljótari að kólna alveg. Eða næstum alveg; ég var svöng.

IMG_2426

 

Ég skar svo kökuna í bita …

IMG_2441

 

… og fékk mér brúnkubita með kaffinu.

IMG_2462

 

Eða tvo.

 

Eggjalausar brúnkur

200 g suðusúkkulaði

4 msk olía eða bráðið smjör

200 ml eplamauk

1 tsk vanilluessens

175 g hveiti

1 1/2 tsk lyftiduft

1/2 tsk matarsódi

1/2 tsk salt

50 g sykur eða púðursykur (eða eftir smekk)

75 g hvítir súkkulaðidropar

75 g pekan- og/eða valhnetur.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s