Einn með næstum öllu

Núna er svona tímabil þar sem ég hef allt of mikið að gera og má ekki vera að neinu. Stundum finnst mér að ég gæti alveg eins verið í framboði. Offramboði. En það er eiginlega öfugt sko, það er meiri eftirspurn eftir mér en framboð þessa dagana …

Og það er eins og allt sé að tefja fyrir mér þessa dagana. Í morgun var ég rétt komin inn í strætó og var að rétta fram kortið og bjóða bílstjóranum góðan daginn þegar annar strætó keyrði aftan á bílinn og braut afturrúðuna og ég þurfti að bíða í korter eftir næsta. Þegar ég fór heim keyrði strætó af stað rétt við nefið á mér og ég þurfti að bíða í korter eftir næsta … Á svona dögum vill maður fá eitthvað sveitt að borða.

Ég hafði komið við í búð (áður en ég missti af strætó) og þar hafði ég meðal annars sett í körfuna tvo væna portobello-sveppi og haft óljósa hugmynd um hvað ég ætlaði að gera úr þeim. En þegar ég gekk framhjá kjötkælinum og sá snoturlega útlítandi nautahakk datt mér allt í einu í hug að það væri nú orðið ansi langt síðan ég hefði steikt mér hamborgara. Svo að ég keypti hakkið og þar sem ég gleymdi að baka brauð í gær keypti ég eitthvert þokkalegt brauð líka (ég nota helst ekki hamborgarabrauð) og eitthvað fleira.

En ég gleymdi að skila portobellosveppunum og kveikti ekki á því fyrr en ég sat í korter og beið eftir strætó að eitthvað þyrfti ég nú að gera við þá líka – helst í kvöld því ég veit ekki hvað ég hef mikinn tíma til að elda kvöldmat næstu daga. Svo ég ákvað að leyfa þeim bara að vera með – þeir eru jú stundum notaðir í staðinn fyrir kjöt í hamborgara svo því þá ekki að gera tvöfalda borgara – eitthvað fyrir alla? Grænmetisætur geta svo bara sleppt hakkinu og kjötætur sveppunum …

Og hey, ég var svöng. (En ég borðaði ekki nema annan borgarann sem ég gerði – hinn er geymdur fyrir hádegið á morgun og jafnvel kvöldmat líka).

IMG_1858

 

Þetta voru 380 g af ungnautahakki (8-12% fita, má ekki minna vera) og ég setti það í skál og bætti við 1/2 litlum, söxuðum lauk, 1 smátt söxuðum hvítlauksgeira, 1/2 tsk af chilikryddi (ekki chilipipar), 1/2 tsk af óreganói, pipar og salti. Blandaði þessu saman en reyndi að hnoða og kreista sem minnst (því meira sem hakkið er hnoða, þeim mun þurrari er líklegt að borgararnir verði).

IMG_1862

Ég skipti hakkinu í tvennt og mótaði stóra, frekar þykka borgara. Svo tók ég portobello-sveppina og kryddaði þá með pipar og Maldon-salti. (Ég skar mestallan legginn af en mundi reyndar ekki eftir því fyrr en sveppirnir voru komnir á pönnuna).

IMG_1865

 

Ég hitaði dálitla olíu á pönnu, setti borgarana á hana og sveppina (með fanirnar upp) og steikti við meðalhita í 5 mínútur.

IMG_1867

 

Þá sneri ég borgurunum, setti nokkrar ostsneiðar ofan á og steikti í 5 mínútur í viðbót (já, þeir voru frekar þykkir). Ég sneri sveppunum ekki alveg strax því það kemur töluverður vökvi úr þeim og ég vildi vera búin að steikja borgarann aðeins á seinni hliðinni áður.

IMG_1870

 

Á meðan hamborgararnir og sveppirnir steiktust hitaði ég svo aðra pönnu, stökksteikti fyrst 4 beikonsneiðar (má sleppa en þetta átti nú að vera alminlegur borgari sko …) og skar svo 4 vænar brauðsneiðar og ristaði þær á pönnunni (án þess að þurrka af henni, það má alveg koma svolítill beikonkeimur af þeim) á báðum hliðum.

IMG_1884

 

Og þá var bara að setja borgarann saman: brauðsneið, tvær beikonsneiðar, borgari með bráðnum osti, portobellosveppur, spínat, tómatar (það verður nú að muna eftir hollustunni …), önnur brauðsneið. Basilíkublöð ofan á.

IMG_1893

 

Ég bjó líka til sósu með: hálf vel þroskuð lárpera, slatti af basilíkublöðum, einn lítill hvítlauksgeiri, vel kúfuð matskeið af grískri jógúrt, ögn af sítrónusafa, pipar, salt – allt maukað vel saman með töfrasprota.

IMG_1904

 

Nei, það þarf sko hreint engar franskar með þessu (ekki að ég hefði haft lyst á þeim eða pláss fyrir þær sko).

 

 

(2 hamborgarar)

350-400 g nautahakk

1/2 lítill laukur

1 hvítlauksgeiri

1/2 tsk chilikrydd (ekki chilipipar)

1/2 tsk óreganó

pipar

salt

olía til steikingar

2 portobello-sveppir

nokkrar ostsneiðar (ég notaði Tind)

4 beikonsneiðar

4 sneiðar af góðu brauði

vel þroskaðir tómatar

spínat eða salat

 

Sósan:

1/2 lárpera, vel þroskuð

15-20 basilíkublöð

1 lítill hvítlauksgeiri

1 vel kúfuð matskeið grísk jógúrt

um 1 tsk nýkreistur sítrónusafi

pipar

salt

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s