Stöppur, mýs og fleira

Í gær var það sumarleg kaka en nú er sannarlega ekki tíðarfar sem kallar á neitt slíkt, heldur þveröfugt:mér fannst veður fyrir eitthvað notalegt og heimilislegt. Kannski pottrétt eða matarmikla súpu – en samt ekki því slíkt elda ég sjaldnast í skammti sem dugir í eina máltíð fyrir mig, annaðhvort þarf að vera gestur eða ég nota afganginn í einhvern annan rétt daginn eftir – og það var ekki málið núna, ég ætla að elda annað á morgun.

Ég sá einhvernveginn ekkert sem freistaði mín sérstaklega  í kjötborðinu í Nóatúni – það er að segja, ekkert sem kveikti einhverja brilljant ,,eldaðu mig“ hugmynd um leið og ég sá það – en endaði á að kaupa tvær tvöfaldar kótelettur. Reyndar mun þynnri en ég hefði viljað hafa þær og ekki stórar, þær voru tæp 250 grömm samanlagt. En passlegar í eina kvöldmáltíð handa mér.

Nú eru kótelettur enginn sérstakur vetrarkuldamatur í sjálfu sér, jafnvel frekar sumarlegar (grillið og allt það) en það finnst mér kartöflustappa aftur á móti vera, ég tala nú ekki um þegar rófum er blandað saman  við, og ég átti einmitt bökunarkartöflur og rófur heima.

– Fyrst ég nefni kartöflustöppu: Ég er stöppumanneskja. Orðið kartöflumús heyrði ég ekki fyrr en hjá frænda mínum að sunnan, minnir mig; okkur þótti það óttalega asnalegt eins og fleira sunnlenskt og ég hef eiginlega aldrei getað tekið mér það í munn. Enda stappa ég kartöflur en músa þær ekki. Ég veit ekki hve gamalt það er í málinu að tala um kartöflumús, en kartöflustappa er fyrst nefnd á prenti 1824. Elsta dæmið um kartöflumús í Ritmálssafni Orðabókarinnar er , merkilegt nokk, úr Það rís úr djúpinu eftir Guðberg Bergsson en svo eru dæmi um það á timarit.is frá 1935.

Annars má geta þess að kartöflumús er af allt öðrum rótum runnin en súkkulaðimús. Kartöflumúsin er komin úr dönsku, kart0ffelmos; mos er komið úr miðaldaþýsku, táknaði þar grænmeti o.fl. og er af sömu rót og matur. Súkkulaðimúsin (nei, ég nota það heiti ekki heldur) er aftur á móti komið (í gegnum dönsku) frá franska orðinu mousse, sem aftur er komið úr latínu, mulsa (hunang eða sætmeti). Svo að mýsnar eru óskyldar. Eða allavega ekki náskyldar.

En ég byrjaði á maríneringu fyrir kóteletturnar.

IMG_1736

 

1 1/2 msk ólífuolía, 1 msk balsamedik, 2 tsk nýkreistur sítrónusafi, saxaðar nálar af 1 rósmaríngrein, 1 saxaður hvítlauksgeiri, 1/4 tsk þurrkað timjan,  pipar, salt. – Þetta var nú svolítið eins og abstraktmálverk áður en ég hrærði það saman.

IMG_1739

 

Svo setti ég kóteletturnar út í. Lét þær liggja í svona hálftíma og sneri þeim nokkrum sinnum.

IMG_1744

 

Á meðan tók ég eina litla gulrófu og eina bökunarkartöflu, sem var álíka stór og rófan. Flysjaði þær með flysjunarjárni og skar þær í ekki mjög stóra bita.

IMG_1747

 

Setti svo bitana í pott ásamt svo miklu vatni að rétt flaut yfir, dálitlu salti og 1 lárviðarlaufi (má alveg sleppa) og sauð þetta þar til það var meyrt, í svona 12 mínútur.

IMG_1749

 

 

Á meðan hitaði ég pönnu vel, tók kóteletturnar úr maríneringunni, steikti þær á pönnunni (engin viðbótarfita, ég steikti þær bara úr maríneringunni) við meðalhita í svona 3 mínútur á hvorri hlið; tók þær svo af pönnunni og lét þær bíða svona 2-3 mínútur. Maríneringarleginum hellti ég aftur á móti í lítinn pott ásamt 125 ml af vatni, bætti við svona fjórðungi úr teskeið af kjötkrafti og lét þetta sjóða rösklega niður.

IMG_1750

 

Þegar kartöflurnar og rófurnar voru meyrar hellti ég vatninu af þeim og lét þær svo standa í nokkrar mínútur í pottinum og lét gufuna rjúka mjög vel af þeim; í svona stöppu er yfirleitt best að kartöflurnar séu sem þurrastar.

IMG_1754

 

Svo stappaði ég kartöflurnar og rófurnar vel og hrærði svo 50 g af linu smjöri og smáskvettu af mjólk saman við, ásamt 1/4 tsk af engifer (dufti), 1/4 tsk af kummini, pipar og salti. Setti stöppuna í skál og skar svo niður grænu blöðin af 1 vorlauk og stráði yfir.

IMG_1765

 

Svo bar ég kóteletturnar fram á stöppunni (og meiri stöppu með, enda ákvað ég í stíl við vetrarþemað að sleppa salati og öðru grænmeti) . Hellti sósunni í litla könnu og dreypti henni yfir og í kringum kóteletturnar.

Þetta var alveg ágætt. Og nógu vetrarlegt fyrir mig.

 

Kótelettur í balsamkryddlegi

2 tvöfaldar kótelettur

1 1/2 msk ólífuolía

1 msk balsamedik

2 tsk nýkreistur sítrónusafi

1 rósmaríngrein

1 hvítlauksgeiri

1/4 tsk timjan, þurrkað

pipar

salt

 

Rófu- og kartöflustappa

1 gulrófa, lítil

1 bökunarkartafla

50 g smjör

1/4 tsk engifer (duft)

1/4 tsk kummin

pipar

salt

grænu blöðin af 1 vorlauk

 

Sósa

kryddlögurinn

125 ml vatn

1/4 tsk lamba- eða kjúklingakraftur

3 comments

  1. Mjög girnilegt. Og skemmtilegt þetta með músina, hef alltaf átt dálítið erfitt með að nota þetta músarheiti á kartöflustöppur og súkkulaðieftirrétti án þess að vita almennilega af hverju. En þó ávallt fylgt fjöldanum. Stappa er málið.. og frauð eða búðingur ef til vill fyrir sætmetið?..

    • Ég held kannski að ,,kartöflumús“ hafi ekki orðið verulega algengt fyrr en á sjöunda áratugnum, þegar kartöflustöppuduft í pökkum fór að verða algengt, þá blasir náttúrlega við ,,Kartoffelmos“ á pökkunum – þótt orðið hafi verið þekkt áður.

      Alþýðublaðið, mars 1963: ,,HAFIÐ þið reynt kartöflumúsina í pökkunum, sem fæst víða í verzlunum í Reykjavík. Þetta mjöl er hrært út í vatni og hitað upp og þar höfum við dýrindis kartöflumús með pylsum, bollum eða einhverju því öðru, sem á að snæða í ferðalaginu. þetta er nefnilega upplagt til að hafa mé sér í ferðalag – t.d. um páskana, – en heima getum við haldið áfram að pressa kartöflurnar á venjulegan hátt.“

  2. Fróðlegt! Mousse þýðir mosi og froða á frönsku. Mér finnst það ágætis útskýring á heitinu Mousse au chocolat enda er áferðin svipuð froðu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s