Konu langar í köku

Mig langaði í köku. Þetta var einhvernveginn þannig dagur að mér fannst að kaka mundi bæta hann verulega. Sumir dagar eru bara svoleiðis og þá þýðir eiginlega ekki annað en að feisa það bara og baka köku.

Og það var nokkuð ljóst hvernig kaka það yrði. Ég kíkti nefnilega í nýju Víðisbúðina í gær – veit svosem ekkert hvort ég á eftir að verða tíður viðskiptavinur þar – en allavega féll ég fyrir stóru boxi með jarðarberjahlunkum. Og þar sem ég gerði ekkert við þá í gærkvöldi – ætlaði að gera það en svo fór ég að horfa á Kastljós og þá ruku allar kökuhugsanir út í veður og vind satt að segja – varð ég eiginlega að gera það núna.

Mig langaði samt ekkert voðalega að búa til deig og smyrja form og svoleiðis. En ég mundi að ég átti smjördeigspakka í frysti. Og svo hélt ég að ég ætti mascarpone-ost (sem reyndist rangt en ég átti svolítið af rjómaosti) og ég átti hvítt súkkulaði og rjóma og þetta er nú allt efniviður í ágætis köku.

Reyndar hefði þessi kaka kannski átt betur við í gær, hún er eitthvað svo vorleg og það var vor í gær. Í dag var aðeins minna vor (og þó, vorrigning og svona) og súkkulaðikaka eða gráfíkjukaka eða eitthvað slíkt hefði kannski átt betur við. En ég átti nú þessi jarðarber. Og ég var einmitt að heyra í kvöldfréttunum að ber væru svo rosalega lágkolvetnavæn og holl. Afgangurinn af kökunni er það náttúrlega alls ekki en so what.

IMG_1690

Ég semsagt byrjaði á að ná í smjördeigspakkann í frysti, það voru fimm plötur í honum og ég dreifði þeim á vinnuborðið og lét þiðna rétt á meðan ég hitaði ofninn í 200°C. Svo stráði ég ögn af hveiti á borðið, raðaði plötunum saman, lét þær skarast ögn og þrýsti brúnunum saman með fingurgómunum.

IMG_1692

Svo flatti ég þetta dálítið út með kökukefli, skar af einhver horn og setti í kverkarnar á milli platanna og klessti saman til að fá þetta aðeins kringlóttara en var ekkert að vanda mig. Ef þetta hefði átt að vera pen og fín kaka hefði ég flatt hana betur út og skorið út voða fínan hring. En þetta átti að vera svona rústik kaka, skiljiði. Óvönduð kaka, hefðu gömlu matreiðslubókahöfundarnir sagt. Þeir gefa stundum tvær útgáfur af uppskriftum, fína og óvandaða.

IMG_1694

Svo tók ég djúpt bökuform, svona sem víkkar aðeins út, og lagði deigið yfir það. En það má líka nota venjulegt bökuform eða þess vegna springform. Penslaði deigið með slegnu eggi.

IMG_1698

Ég bakaði svo botninn á næstneðstu rim í 18 mínútur eða svo. Tók hann svo út og lét bökuskelina kólna í forminu (veit reyndar ekki hvernig hefði tekist að losa hana úr). Sem tekur töluverðan tíma því formið er þykkt og heldur hitanum lengi í sér.

IMG_1702

Á meðan gerði ég fyllinguna. Byrjaði á að bræða 150 g af hvítu súkkulaði í vatnsbaði; hrærði þegar það byrjaði að bráðna og tók pottinn af hitanum áður en súkkulaðið var alveg fullbráðið. Hvítt súkkulaði er frekar viðkvæmt og borgar sig ekki að láta það hitna meira en þarf.

IMG_1705

Ég hellti því svo í skál, setti rjómaostinn (þetta voru sirka 100 grömm) út í í nokkrum klípum og hrærði þar til blandan var slétt. Rjómaosturinn mýkist fljótt í heitu súkkulaðinu.

IMG_1708

Svo tók ég 250 ml af rjóma og stífþeytti í annarri skál. Hrærði 2-3 msk af sykri og 1 tsk af vanilluessens saman við og blandaði svo súkkulaðiblöndunni gætilega saman við með sleikju. Og þegar bökuskelin var orðin köld hrúgaði ég fyllingunni í hana.

IMG_1711

Svo skar ég þessi hlussustóru jarðarber í tvennt og raðaði ofan á; hafði þau allrastærstu yst. Tók svo 1-2 msk af pistasíuhnetum, grófsaxaði og dreifði yfir.

IMG_1717

Og svo endaði ég á að sigta svolítinn flórsykur yfir kantana.

Og einmitt þegar þessi vorlega kaka (eða er hún kannski frekar jólaleg?) var tilbúin og ég ætlaði að fara að gæða mér á henni rann upp fyrir mér að fyllingin þarf að stífna. Sem tekur ábyggilega 2-3 klukkutíma í kæli.

IMG_1733

En það var nú allt í lagi því það gengu nokkur jarðarber af. Og þau komu eiginlega bara alveg í staðinn fyrir köku.

Og það þýðir að ég mæti með kökuna ósnerta í vinnuna á morgun, nema náttúrlega ef ég gleymi henni í ísskápnum, sem alltaf getur gerst.

Jarðarberjabaka með hvítu súkkulaðikremi

1 pakki (5 plötur) smjördeig

1 egg til penslunar

150 g hvítt súkkulaði

100 g rjómaostur

250 ml rjómi

2-3  msk sykur

1 tsk vanilluessens

400 g jarðarber (sirka)

1-2 msk pistasíuhnetur

svolítill flórsykur

4 comments

    • Ég hef síðustu 15 árin alltaf birgt mig upp af Nielsen-Massey-vanillu þegar ég fer til útlanda en nú fæst hún í stöku búð hér, sá þetta allavega í Vínberinu á Laugavegi á dögunum. Kostar hvítuna úr augunum náttúrlega …

      En fyrir bakstur og allt nema það allrafínasta (þar sem er hvort eð er langbest að nota góðar vanillustangir) er núna hægt að fá alveg þokkalega vanillu á mjög hóflegu verði í Kosti (Kirkland Pure Vanilla) – fæst reyndar bara í 473 ml flöskum sem kosta þó ekki nema 1600-1700 krónur, ef ég man rétt.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s