Af hverju eru allir farnir að kalla krækling bláskel allt í einu? Eins og kræklingur er nú miklu flottara nafn (ég var líka Sauðkræklingur hér áður fyrr en ekki Sauðkrækingur, það finnst mér ekki fallegt).
Allavega, ég var í Kolaportinu i dag og þar sá ég fötu með kræklingi (það stóð bæði bláskel og kræklingur á henni) og stóðst hana ekki. Ég elda ekki oft krækling en nú er orðið mun auðveldara að fá hann en áður var, það er að segja í búðum – ég er bíllaus og kemst ekki að tína hann og áratugum saman hef ég verið að nefna það við fólk sem ég veit að á til að tína krækling að ég hefði nú ekkert á móti að fljóta einhverntíma með í kræklingatínslu en það hefur lítið komið út úr því. Og nú er ég orðin of gömul til að nenna svoleiðis og kaupi mér bara krækling. Miklu þægilegra.
Þetta var semsagt eins líters fata af kræklingi en ég var ein i mat og þótt ég sé átvagl sá ég ekki alveg fyrir mér að borða það allt saman í einu lagi. Svo ég ákvað að elda mér tvo kræklingarétti og sjá svo til. En ég sauð samt kræklinginn í þá báða í einu. Byrjaði náttúrlega á að þvo skelfiskinn og bursta og henti þremur litlum sem voru opnir.
Ég byrjaði á að setja 3 msk af þurru sérríi (má líka vera hvítvín eða bara vatn og ögn af sítrónusafa) í pott, skar niður fjórðung úr lauk og setti út í ásamt stönglunum af nokkrum steinseljugreinum. Hitaði þetta að suðu.
Svo dembdi ég kræklingnum út í, setti lok á pottinn og lét sjóða rösklega í 3-4 mínútur; þá höfðu allar skeljarnar opnast.
Ég hellti svo kræklingnum í sigti sem ég hafði yfir skál og lét renna af honum. Svo skipti eg honum í tvennt.
Ég tók helminginn úr annarri skelinni og setti í skál. Hristi saman 2 msk af ólífuolíu, safa ur 1/2 sítrónu, pipar og salt og hellti yfir. Lét þetta standa í hálftíma og bjó á meðan til súpu úr hinum helmingnum.
Ég mældi soðið af kræklingnum, bætti við vatni svo það varð 400 ml, setti það í pottinn ásamt 1 söxuðum hvítlauksgeira, 2-3 söxuðum vorlaukum, nokkrum steinseljugreinum og dálítilli basiliku (þetta voru þær kryddjurtir sem ég átti, það má nota einhverjar þeirra eða allar eða kannski aðrar i staðinn) og lét sjóða í örfáar mínútur.
Ég bætti svo 250 ml af rjóma út í, bragðbætti með pipar og salti og lét þetta malla í 2-3 mínútur. Þá setti ég seinni helminginn af skelfiskinum út í og rétt hitaði í gegn.
Ég hellti svo súpunni í skál.
Ansi hreint góð með góðu brauði.
Og svo var kominn tími fyrir salatið.
Ég reif niður salatblöð og setti í skál ásamt nokkrum basilíkublöðum, sundurskornum kirsiberjatómötum og einni teskeið af kapers sem ég hafði skolaði úr köldu vatni.
Stakk svo skeljunum ofan í salatið og hellti maríneringunni yfir.
Þetta var nú bara ansi gott salat.
Kræklingasalat, ekki bláskeljasalat.
Og það eru afgangar bæði af salati og súpu svo líklega elda ég þriðja réttinn á morgun.
Nammi namm , ekki í fyrsta skiptið sem maður verður svangur eftir að lesa og skoða matinn þinn, og svo ertu svo dásamlega ráðagóð, takk Nanna 🙂
Rosalega er þetta fallegur kræklingur! Ég mun kíkja eftir þessu næst þegar ég á leið um Kolaportið!