Afgangar og misbökuð egg

Ég er enn ekki alveg komin í venjulegan gír eftir dálitla törn síðasta mánuðinn (já, ég var að ganga frá bók, segi meira frá því seinna) og hef satt að segja frekar lítið eldað þessa vikuna, farið út að borða eða fengið mér snarl – og svo er birgðastaðan í eldhúsinu svolítið skökk eins og hún hefur gjara orðið hjá mér þegar svona stendur á, sumt alveg búið og ég hef ekki nennt í almennilega búðaferð til að birgja mig upp af nauðsynjum – en svo er líka annað sem ég verð að fara að nota ef það á ekki að skemmast. Og það’ var eiginlega það sem ég gerði núna áðan, notaði eitt og annað sem til var í skápunum en gat ekki gert hvað sem var af því að ýmislegt annað var ekki til.

En þetta stendur nú allt til bóta. Þarf að taka rækilega til í skápunum um helgina og endurskipuleggja aðeins.

IMG_1374

Ég hef reyndar áður verið með uppskrift af þessu tagi en hún var töluvert öðruvísi. Ég keypti reyndar eitt beikonbréf á heimleiðinni (lúxusbeikon af því að ég vildi stórar sneiðar) en hitt var til; 4 egg, aldraðir sveppir (svona 200 g), svolítið af basilíku sem farin var að slappast, þrír litlir vorlaukar, smábiti af osti (ég átti enskan cheddar en má vera hvaða ostur sem er), rjómaostur (ég notaði svona 75 g), 1 hvítlauksgeira og smávegis heimagert pestó (má vera úr krukku). Já, og pipar, salt og smjörklípu.

IMG_1377

 

Ég byrjaði á að stilla ofninn á 200°C. Svo bræddi ég svona matskeið af smjöri á pönnu (hefði nú alveg komist af með minni pönnu en þessi var hendi næst) og lét sveppi og hvítlauk krauma í nokkrar mínútur, kryddaði með pipar og salti og bætti svo vorlauknum á pönnuna og steikti í 2-3 mínútur í viðbót.

IMG_1381s

Setti svo rjómaostinn í skál, hellti öllu af pönnunni yfir og bætti við saxaðri basilíku og osti skornum í bita. Hrærði vel til að blanda þessu saman; hitinn af sveppunum dugði til að mýkja rjómaostinn.

IMG_1385

 

Svo smurði ég 4 lítil form (soufflé-form, en geta auðvitað verið hvaða lítil, eldföst mót sem er) með örlitlu smjöri og lagði beikonsneið í hvert. Sneiðarnar voru fimm svo að ég skar þá sem af gekk í stykki sem ég notaði til að fylla upp í eyður í formunum fjórum. Ég skipti svo fyllingunni  jafnt á milli þeirra – þetta passaði akkúrat til að fylla formin næstum alveg upp á brúnir en þó ekki alveg (það þarf að vera pláss fyrir eggið).

IMG_1387

 

Ég setti formin á pappírsklædda bökunarplötu, gerði örlitla laut í miðjuna á hverju formi (með bakinu á teskeið), setti svona hálfa teskeið af pestói í hverja holu og braut egg þar yfir. – Ég rak svo augun í 2-3 basilíkublöð sem orðið höfðu eftir og frekar en henda þeim reif ég þau niður og setti í kringum eggjarauðurnar.

IMG_1396

 

 

Svo setti ég formin í ofninn (á næstneðstu rim) og bakaði í 10-12 mínútur. – Dálítið skrítið að eggin fjögur voru öll misbökuð þrátt fyrir að þau voru af sömu stærð og fengu auðvitað nákvæmlega sama tíma í ofninum – á einu virðist rauðan alveg hörð (það var reyndar bara yfirborðið), önnur rétt við það að verða hörð, sú þriðja greinilega lin og sú fjórða var horfin. (Reyndar geymdi ég það form og þegar þetta hafði kólnað dálítið birtist rauðan á dularfullan hátt og var lin. Merkilegt.)

IMG_1432

 

En þetta er harða rauðan …

IMG_1442

 

… sem var svo bara lin undir niðri.

IMG_1449

 

Og allt hitt var bara alveg mátuleg, osturinn rétt bráðinn og svona. Kvöldmatur handa mér með góðu brauði og salati en gæti líka verið hádegismatur, brunch eða morgunverður.

 

 

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s