Tabaka Toskana

Ég sagði það á dögunum að það yrðu eitthvað færri blogg hjá mér á næstunni en verið hafði en hléið átti þó ekki að vera svona langt … Ég hef bara verið afskaplega önnum kafin, reyndar við eldamennsku meðal annars, og bloggið hefur setið á hakanum. En nú eru verkefnin sem ég hef verið í frá að mestu (önnur að vísu yfirvofandi). Og það eru páskar.

Ég tók grillið í notkun núna um páskana eftir vetrarhvíld, er ekki mikið fyrir að grilla á veturna, og komst reyndar að því að það hafði farið mun verr í óveðrinu í haust en ég hélt – yfirbreiðslan fauk af, lokið fauk upp, og í þeim átökum hafði belgurinn á grillinu rifnað. Ég hélt reyndar að hann hefði bara rifnað við aðrar hjarirnar en sé núna að hann hefur rifnað báðum megin og líklega hefur litlu mátt muna að lokið rifnaði alveg af í hviðunni. Við þetta víkkaði grillið og núna er með naumindum að grillgrindin haldist á sínum stað (og svo er auðvitað alltaf hætta á að belgurinn rifni meira og lokið fari alveg af. Kannski er hægt að spengja þetta einhvernveginn. Ég hef allavega ekki efni á nýjum Weber (og vil ekki sjá önnur grill).

En allavega: Ég ákvað að grilla kjúkling, heilan. Datt í hug kjúklingaréttur sem ég fékk á veitingahúsi í St. Pétursborg fyrir allnokkrum árum, ættaður frá Georgíu og heitir tabaka – þar er kjúklingurinn flattur út og grillaður undir fargi. Verður kannski ekki alveg eins og bíll sem valtari hefur keyrt yfir, en töluvert þynnri og flatari en venjulegur heilgrillaður kjúklingur. Og tekur mun styttri tíma og verður þar af leiðandi safaríkari og betri.

Ég fletti upp uppskriftum á netinu og komst að því – eða það rifjaðist upp, því einhverntíma hafði ég nú vitað það – að þetta er gert víðar, til dæmis í Toskana á Ítalíu. Svo ég blandaði saman nokkrum uppskriftum, þetta varð svona tabaka-toskana, og bætti svo við elementi úr allt annarri átt því ég ákvað að leggja kjúklinginn líka í léttan saltpækil smástund til að fá hann enn safaríkari. Mér finnst gott að gera það við kjúkling, þó einkum og sér í lagi grillaðan.

Ég byrjaði á að taka kjúklinginn, leggja hann á bretti með bringuna niður og svo tók ég saxið mitt  (það er líklega þægilegast að nota fuglaskæri en ég finn ekki mín) og hjó úr honum hrygglengjuna. Lagði hana til hliðar, gott að nota hana í soð. Svo setti ég 2 lítra af köldu vatni í skál, hrærði 6 msk af salti og 3 msk af sykri saman við og setti svo kjúklinginn út í með bringuna niður.

IMG_0022

 

Ég reyndar steingleymdi að taka myndir af þessu og mundi ekki eftir myndavélinni fyrr en kjúklingurinn var kominn á grillið en hér eru bringur í saltpækli. Þær þurfa bara að vera í 20-30 mínútur. En ég lét kjúklinginn vera í klukkutíma. – Þar sem vatnið var ískalt í upphafi var ég ekkert að láta þetta standa í kæli, vil hvort eð er ekki hafa kjúklinginn ískaldan þegar hann fer á grillið, en ef tíminn hefði verið lengri hefði ég að sjálfsögðu sett skálina í ísskápinn.

Ég bjó svo til kryddmauk til að smyrja á kjúklinginn, sem var eiginlega sambland af georgísku og toskönsku uppskriftunum sem ég hafði skoðað: 5-6 hvítlauksgeirar, blöð af 2-3 rósmaríngreinum, safi úr 1/2 sítrónu, 1/4 tsk chili-flögur, pipar, salt og 6 msk af ólífuolíu. Saxaði hvítlaukinn og rósmarínið og þeytti svo allt saman í litlum blandara.

Svo tók ég kjúklinginn úr pæklinum, þerraði hann vel með eldhúspappír (eða hreinu viskastykki) og smurði meirihlutanum af maukinni á hann, utan og innan. Lét liggja á meðan ég hitaði grillið vel.

IMG_0897

 

Svo setti ég kjúklinginn á vel olíuborið grillið með bringuna niður og lærin eins og hann væri skelfilega innskeifur og tók svo þunga steypujárnspönnu, setti ofan á og flatti út (hefði þrýst henni enn fastar niður ef grillið væri ekki laskað). Yfirleitt eru notaðir múrsteinar (sem má þá vefja í álpappír) til að fergja kjúklinginn en það má nota hvað sem er, bara ef það er þungt og sæmilega slétt og þolir að fara á grillið. – Já, og ég var búin að hita pönnuna á lokuðu grillinu smástund áður en ég setti kjúklinginn á það.

IMG_0903

Ég grillaði kjúklinginn undir farginu við góðan hita (hefði líklega mátt vera aðeins minni)  í svona 10 mínútur en tók þá pönnuna af. Oft er fargið haft lengur og jafnvel allan tímann en ég sá ekki þörf á því, fannst kjúklingurinn ágætlega flattur, og svo vildi ég ekki leggja meira á vesalings laskaða grillið mitt  – þarna má sjá að önnur grindin er farin að síga.

IMG_0905

Svo sneri ég kjúklingnum, setti hann á mitt grillið, smurði afganginum af kryddmaukinu á bringuna, slökkti á brennaranum undir honum (á venjulegu tveggja brennara grilli má bara hafa hann öðrum megin og slökkt undir þar) og lokaði svo grillinu og lét það nokkurn veginn óhreyft næstu 25 mínúturnar. Stillti hitann þannig að hann væri sem næst 200°C.

IMG_0917

 

Ég setti hann á bretti, breiddi álpappír lauslega yfir og lét hann bíða í svona 6-10 mínútur.

IMG_1058

 

Aðeins of dökkur á bringunni kannski … En safaríkur og góður. Og grillaður í gegn.

 

Kjúklingur undir fargi

1 kjúklingur, 1,3-1,6 kg

2 l kalt vatn

6 msk salt

3 msk sykur

blöð af 2-3 rósmaríngreinum

5-6 hvítlauksgeirar, saxaðir

safi úr ½ sítrónu

¼ tsk chili-flögur

½ tsk nýmalaður pipar

salt

6 msk ólífuolía

2 comments

  1. Mikið er ég ánægð að það sé komið ný uppskrift frá þér – þessi verður prófuð í vikunni fyrst að grill tímabilið er að byrja.

  2. Ég grilla heilan kjúkling alltaf svona en nota reyndar ekki farg, sé ekki á myndunum að það geri neinn mun en kannski í raun.
    Prufa þetta kannski með haustinu þegar jökullinn er farinn hér á Dalvík.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s