Kryddaðir bitar

Ég eldaði tikka masala-kjúkling áðan handa okkur einkasyninum, sem er grasekkill sem oftar – tengdadóttirin, sem reyndar á afmæli í dag, er að sveifla sverði úti í Tyrklandi og hefur verið áminnt rækilega um að kaupa nú enga steina. Ekki þar fyrir, það er sennilega óþarfa áminning þar sem faðir hennar vinnur á Þjóðminjasafninu og hún er örugglega vel uppfrædd um meðhöndlun fornminja.

En tikka masala á ekkert skylt við fornminjar, þetta er ekki ævaforn indverskur réttur, heldur á hann líklega uppruna sinn í Skotlandi fyrir um 50 árum þótt fleiri tilgátur hafi komið fram og ýmsar sögur um upphafið. Ein er þannig að svangur (og sennilega ekki alveg edrú) Skoti hafi komið inn á indverskan veitingastað rétt fyrir lokun og heimtað að fá að borða. Það var eiginlega allt búið en smáleifar voru þó til – krydduð sósa (karrísósa) í potti, tómatsósa í öðrum, smávegis af grilluðum kjúklingi,eitthvað af jógúrt, og þessu var öllu skellt saman og borið fyrir gestinn, sem hámaði það í sig, lýsti mikilli ánægju og spurði um nafn á réttinum – og þjóninum datt ekkert annað í hug en tikka masala, kryddaðir bitar.

Sagan er skemmtileg en örugglega lygisaga. Ekki verri fyrir það. Og núna er tikka masala líklega algengasti takeaway-réttur í Bretlandi og hefur verið kallaður þjóðarréttur þar.

Hver sem uppruninn er, þá er engin ein og sönn uppskrift til að tikka masala og reyndar voru einhverjir sem báru saman 48 tikka masala-uppskriftir og komust að raun um að eina hráefnið sem var sameiginlegt þeim öllum var kjúklingur. (Og nú orðið eru til tikka masala-réttir með öðrum aðalhráefnum, kjöti eða grænmeti …). En yfirleitt er þetta nú kjúklingur maríneraður í kryddaðri jógúrt og bakaður við háan hita í tandooriofni og svo settur út í kryddaða sósu, yfirleitt tómatsósu sem er svo bætt með rjóma eða kókosmjólk.

IMG_7114

Líklega er algengast, þegar tikka masala-kjúklingur er eldaður í heimahúsum, að nota bringur. Það er svosem þægilegast en læri eru bara svo miklu betri, bæði bragðmeiri og safaríkari og lítil hætta á að þau verði þurr eins og bringurnar vilja oft verða. Ég var með 8 læri (án leggs) sem ég hamfletti (það er bara eitt handbragð að rykkja hamnum af) og skar svo tvær djúpar rákir í hvert læri, alveg inn að beini; þetta er til að maríneringin eigi greiðari aðgang inn í kjötið.

IMG_7118

 

Svo saxaði ég 5 hvítlauksgeira og 3-4 cm bita af engifer og setti í mortél (eða matvinnsluvél) ásamt 1 msk af paprikudufti (ég notaði reykta papriku, má vera venjuleg), 1 msk af kummini, 2 tsk af kóríanderfræi, 1 tsk af túrmeriki, 1/4 tsk af cayenne-pipar (eða eftir smekk) og svona 1 1/2 tsk af grófu salti. Steytti þetta allt saman í mauk en hafði það nokkuð gróft.

IMG_7121

 

Ég skipti kryddblöndunni í tvennt og geymdi annan helminginn. Svo hærði ég 1 dós af hreinni jógúrt og svona 1 msk af sítrónusafa saman við hitt.

IMG_7125

 

Ég setti kjúklingalærin í eldfast mót, makaði maríneringunni á allar hliðar, breiddi plast yfir og lét standa … ja, hefði átt að vera í allavega 3-4 klst en ég hafði ekki tíma svo klukkutími varð að duga, það var reyndar allt í lagi.

IMG_7128

 

Ég bræddi 60 g af smjöri í potti. Saxaði niður tvo lauka, lét þá krauma aðeins í smjörinu og hrærði svo afganginum af kryddblöndunni saman við.

IMG_7142

 

Lét laukinn og kryddið krauma við tæplega meðalhita í svona 15 mínútur. Laukurinn má alveg dökkna aðeins en ekki brenna neitt að ráði.

IMG_7154

 

Ég saxaði 5-6 mjög vel þroskaða tómata og setti út í ásamt lófafylli af söxuðu kóríanderlaufi og 250 ml af vatni. – Það má líka nota saxaða tómata í dós og ef ekki eru til vel þroskaðir tómatar er mun betra að nota dósatómata (þá þarf minna eða jafnvel ekkert vatn). Ég lét þetta svo malla í svona 10 mínútur.

IMG_7171

 

Ég maukaði svo sósuna með töfrasprota (má líka setja hana í matvinnsluvél) og hrærði um 150 ml af rjóma saman við.

Á meðan sósan hafði mallað var ég svo að elda kjúklinginn.

IMG_7161

 

Ég á ekki tandoori-ofn (jújú, það er til ýmislegt sem ég á ekki). Næstbesti kosturinn er útigrill en það er gaslaust og alveg óvíst að ég hefði nennt að kveikja á því samt. Grillið í ofninum er í einhverju óstuði svo að ég dró fram grillpönnuna mína – eða þetta er reyndar grillplata, tvöföld á stærð við venjulega grillpönnu – hitaði hana vel og setti bitana á hana og grillaði við háan hita á báðum hliðum – og maríneringin má gjarna brenna dálítið, það gefur betra bragð í sósuna.

Og hér kemur það óvenjulega: Yfirleitt er kjúklingurinn grillaður þar til hann er eldaður í gegn og svo skorinn í bita og settur út í heita sósuna og borinn fram. En ég fulleldaði bitana ekki. Grillaði/steikti þá í svona 8-10 mínútur samanlagt, sem þýddi að þeir voru vel steiktir að utan en ekki í gegn, ekki beinlínis hráir að innan en samt dálítið bleikir enn. Þá tók ég þá af pönnunni því ég vildi klára að elda kjúklinginn í sósunni, þannig verður hann safaríkari og mýkri en ella.

IMG_7174

 

Ég skar svo kjúklingalærin í bita – eins og sjá má eru þau ekki steikt í gegn – setti bitana út í sósuna og lét malla í 5-6 mínútur.

IMG_7233

 

Svo smakkaði ég, bætti við örlitlum cayenne-pipar og bar þetta fram með soðnum hrísgrjónum, kóríander og límónubátum.

IMG_7304

 

Sonurinn var bara alveg ágætlega sáttur, tók vel til matar síns og fékk afganginn með sér heim.

 

Tikka masala-kjúklingur

8 kjúklingalæri (það má auðvitað nota bringur en lærin eru bara betri)

5 hvítlauksgeirar

3-4 cm biti af engifer

1 msk paprikuduft (gjarna reykt)

1 msk kummin

2 tsk kóríanderfræ

1 tsk túrmerik

1/4 tsk cayenne-pipar, eða eftir smekk

1 1/2 tsk gróft salt

1 dós (180 g) hrein jógúrt

1 msk sítrónusafi

60 g smjör

2 laukar

5-6 tómatar

lófafylli af kóríanderlaufi

250 ml vatn

150 ml rjómi

 

4 comments

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s