Rjómaterta og falafel

Ég var í 97 ára afmælisveislu áðan. Það var reyndar ekki einstaklingur sem hafði náð þessum aldri, heldur Alþýðusamband Íslands – og veislan var jafnframt útgáfuhátíð vegna Sögu ASÍ, stórvirkis í tveimur bindum sem kom út í dag. Ég hafði þetta verk á minni könnu inni á Forlaginu og töluvert  mikið af vinnu minni síðasta árið hefur farið í bækurnar svo að mér þykir vænt um að geta sagt að ég er bæði ánægð og stolt með hvernig tóks til.

Í útgáfuboðum er gjarna boðið upp á léttvín og eitthvert nart, smárétti eða konfekt. En þetta var virðuleg 97 ára afmælisveisla og við fengum kaffi og rjómatertu eins og vera ber. Sem var ágætt en þegar ég kom heim langaði mig sannarlega í eitthvað allt annað en meiri köku (og á þó til afgang af þessari ljómandi góðu peruböku sem ég gerði í gær), enda var ég búin að ákveða á heimleiðinni að útbúa mér falafel.

Nú hefði ég getað gert alvöru ekta falafel en það kallar á undirbúning – til dæmis hefði ég þurft að leggja kjúklingabaunir í bleyti í gær og svona – og svo fyrirhyggjusöm er ég bara ekki, ég undirbý ekki falafel í gær sem mér dettur í hug að útbúa í dag – svo að ég stytti mér leið. Eða líklega nokkrar leiðir …

IMG_6796

Svo að ég notaði niðursoðnar baunir, eina dós. Og brauðrasp úr svona fjórum brauðsneiðum (um 400 ml af raspi líklega), einn lauk, tvo hvítlauksgeira, vorlauk af því að ég átti hann til, hálfa sítrónu, eitt egg, eina teskeið af lyftidufti – já, og kryddið: ein teskeið paprikuduft, smávegis cayennepipar, ein teskeið kummin, hálf teskeið steytt kóríanderfræ, pipar og salt.

IMG_6810

Ég setti lauk, vorlauk, hvítlauk, egg og krydd í matvinnsluvélina, reif börkinn af sítrónunni yfir og kreisti svona eina teskeið af sítrónusafa út í. Svo lét ég vélina ganga þar til allt var orðið að mauki.

IMG_6811

Svo setti ég rúmlega helminginn af brauðmylsnunni í skálina ásamt lyftiduftinu. Hellti svo leginum af kjúklingabaununum og setti þær út í. Svo þeytti ég þessu saman við en notaði púlshnappinn á vélinni því ég vildi ekki fínmala baunirnar – þetta er jú ekki hummus …

IMG_6820

Svona var þetta, grófgert mauk, ekki með heilum baunum (nema kannski einni og einni) en greinilegum bauna,,bitum“. Ég setti afganginn af brauðmylsnunni á disk og svo mótaði ég kringlóttar bollur úr maukinu og velti þeim upp úr brauðmylsnunni. Maukið var frekar blautt og það flaug að mér að blanda meiri brauðmylsnu saman við til að fá það þéttara, ég var svolítið smeyk um að bollurnar dyttu í sundur við steikinguna, en það gerðist ekki og þær voru alveg passlegar. Þetta urðu 15-16 bollur.

IMG_6821

Ég hitaði svo olíu í potti þar til hún var 180°C heit og setti þá bollurnar út í og steikti þær í 3-4 mínútur; sneri þeim einu sinni. Steikti þær í tveimur skömmtum, það borgar sig ekki að setja of mikið í pottinn í einu.

IMG_6831

Svo tók ég þær upp með gataspaða og lét aðeins renna af þeim á eldhúspappír.

IMG_6862

Það þarf ekkert mikið með svona bollum – ég átti ekki pítubrauð sem er jú gjarna með falafel og lét salat og sítrónubáta nægja. Og létta sósu úr grískri jógúrt sem ég hrærði með svolitlu köldu vatni, pipar og salti.

IMG_6877

Þetta var bara ljómandi góður kvöldmatur svona í kjölfarið á rjómatertunni.

Skyndi-falafel

1 dós kjúklingabaunir

4 brauðsneiðar

1 laukur

2 hvítlauksgeirar

1 vorlaukur (má sleppa)

1/2 sítróna

1 egg

1 tsk lyftiduft

1 tsk kummin

1 tsk paprikuduft

1/2 tsk steytt kóríanderfræ

cayennepipar á hnífsoddi (eða eftir smekk)

pipar

salt

olía til steikingar

One comment

  1. Innilega til hamingju með bókarútgáfuna.

    Bloggið þitt er ávallt skemmtileg lesning og uppskriftirnar yndislegar og gaman að elda þær

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s