Tilboðsperur með karamellusósu

Ég fór í Krónuna á föstudaginn var og þar keypti ég mér meðal annars ávaxtatilboð, tíu ávexti fyrir einhverja upphæð sem ég man ekki nákvæmlega hver var. En meiriparturinn af þí sem ég keypti var perur, mér fannst þær frekar álitlegar. Svo gleymdi ég ávaxtapokanum eiginlega en mundi eftir honum í strætó á leiðinni heim áðan og allt í einu langaði mig að baka eitthvað úr þeim.

Ég var fyrst með aðra köku í huga en hún tekur mun lengri tíma svo ég ákvað að baka bara fljótlega og afar einfalda peruböku. Svo einfalda að ég notaði ekki einu sinni form. Svona bökur eru það sem kallast á útlensku ,,rustic“ sem oft er þýtt sem sveitalegar, en það eiginlega passar ekki við íslenskar sveitir, finnst mér. Sjóaralegar kannski … En útlitið skiptir nú ekki öllu.

IMG_6363

Ég byrjaði á að stilla ofninn á 200°C og náði svo í matvinnsluvélina til að gera deigið: 250 g hveiti, 125 g kalt smjör, skorið í bita, 50 g smjör og 1/2 tsk vanilludropar. Sett í vélina og hún látin ganga þar til deigið var orðið að mylsnu. Eða eiginlega dufti. Svo er ég vön að bæta ísköldu vatni út í smátt og smátt þar til deigið loðir vel saman en það standa yfir framkvæmdir í annarri íbúð í húsinu og þegar ég skrúfaði frá kalda krananum kom fyrst eitthvert kolbrúnt skólp út. Ég sá fram á að það þyrfti að láta renna lengi áður en óhætt væri að nota vatnið svo að ég sótti egg í ísskápinn, braut það í bolla og hrærði því smátt og smátt saman við. Eða meiripartunum af því, ég þurfti ekki að nota það allt.

IMG_6370

Svo hnoðaði ég deigið í kúlu og flatti hana dálítið út á milli lófanna. Eiginlega hefði ég svo átt að stinga henni í kæli í svona hálftíma en hey, mig langaði í þessa böku sem fyrst … svo að ég tók bökunarpappírsörk, setti deigið á hana og flatti það út, ekkert rosalega þunnt, í hring. Eða nokkurn veginn hring. Svo renndi ég örkinni yfir á bökunarplötu. Ef þetta er gert svona þarf ekkert að vesenast með að flytja deigið, þá brotnar það hvort eð er allt í mola.

IMG_6374

Næst tók ég perurnar – byrjaði með fjórar en áttaði mig svo á að þær voru svo litlar að meira þyrfti til svo ég bætti við tveimur – flysjaði þær og skar svo í sundur í miðju og fjarlægði stilkana.

IMG_6378

Svo stakk ég kjarnann úr perunum með kúlujárni (það má líka nota teskeið eða bara hnífsodd) og skar hvern peruhelming um sig í fjóra bita.

Svo setti ég 4 msk af púðursykri, 2 msk af ljósu sírópi og 50 g af smjöri í pott, hitað og hrærði þar til allt var bráðið og samlagað og farið að sjóða. Þá setti ég perubitana út í og lét malla við meðalhita í svona 4-5 mínútur. Eða þangað til allt ilmaði af karamellulykt.

IMG_6390

Ég setti svona 30-40 g af pekanhnetum (vigtaði þær ekki, þetta var bara það sem eftir var í pokanum út í, hrærði og slökkti undir pottinum.

IMG_6394

Ég færði svo perurnar og hneturnar yfir á deigið (miðjuna á því) með gataspaða en hellti karamellusósunni í skál.

IMG_6401

Ég skildi eftir breiða rönd út við kantinn og svo braut ég hann inn á fyllinguna. Deigið brotnar örugglega meira og minna en það er bara allt í lagi. Þetta á jú að vera rústik. Ég hefði kannski átt að pensla deigið með eggi en mundi ekki eftir því fyrr en bakan var komin í ofninn … Þar var hún í 18-20 mínútur, á næstneðstu rim.

IMG_6454

Á meðan þeytti ég rjóma og hitaði kaffi. Leyfði bökunni að kólna aðeins þegar hún var tilbúin (en bara í nokkrar mínútur, það var ansi góður ilmur af henni) og bar hana svo fram með rjóma og karamellusósu.

IMG_6445

Volg perubaka, pekanhnetur, rjómi, karamellusósa … það er nú ekki slæm samsetning.

IMG_6495

Ég fékk mér tvær sneiðar …

Perubaka með karamellusósu

Botn:

250 g hveiti

125 g smjör, kalt

50 g sykur

1/2 tsk vanilludropar

svolítið kalt vatn (eða egg)

Fylling:

4-6 perur, eftir stærð

4 msk púðursykur

2 msk ljóst síróp

50 g smjör

30-40 g pekanhnetur

One comment

  1. […] Í opinni böku er deig (oftast bökudeig eða ,,mördeig”, aðallega gert úr hveiti eða öðru mjöli og smjöri eða annarri feiti) flatt út og bökuformið klætt með því að innan. Stundum er fyllingin sett beint á óbakað deigið og bökuð með því en stundum er deigið forbakað og bökuskelin fyllt og síðan bökuð (eða ekki, stundum er notuð fylling sem ekki á að baka). Einnig má gera lokaða böku með því að fletja út meira deig, leggja yfir fyllinguna, klemma saman brúnirnar og baka og það var einmitt það sem ég gerði við rabarbarabökuna sem uppskrift er að hér á eftir. Stundum er ekki notað form, heldur er deigið bara flatt út, fyllingin sett á miðjuna og brúnirnar brotnar inn á hana, eins og ég gerði hér. […]

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s