Eins og ég nefndi um daginn er ég svolítið upptekin þessa dagana og þótt það sem ég er að gera tengist meira og minna mat (nema hvað) er stundum ekki mikill tími til að elda oní sjálfa mig og ég man ekki einu sinni alltaf eftir því að ég þurfi jú eitthvað að borða. Ég dröslaði sautján kílóum af matvælum heim í strætó og upp stigana áðan (í alvöru, ég þarf að fara að gera eitthvað í því að finna mér kall, þetta gengur ekki) og þegar ég var akkúrat búin að troða öllu inn í ísskápinn áttaði ég mig á að ég hafði ekki gert ráð fyrir kvöldmat.
Það var eiginlega ekkert í þessum sautján kílóum sem mig langaði að elda akkúrat þá stundina (og vantaði þó ekki girnilegt hráefni þarna, neinei) en ég mundi að ég átti túnfiskdós í skápnum. Var fyrst að hugsa um að gera bara túnfisksalat en það er nú vetur og það kallar meira á eitthvað annað. Og þegar ég skoðaði betur í skápinn rak ég augun í poka með slatta af penne rigate og þá vissi ég hvað ég ætlaði að gera. Einfaldan og ódýran notalegheitamat, ofnbakað túnfiskpasta.
Ég byrjaði á að hita vatn í potti, salta það og setja svona 200 g af penne rigate (það má nota ýmislegt annað pasta en þetta hentar mjög vel). Kveikti á ofninum og stillti hann á 200°C.
Svo bræddi ég 2 msk af smjöri. Saxaði 1 lauk og 1 hvítlauksgeira og lét krauma við meðalhita í nokkrar mínútur.
Þegar laukurinn var mjúkur og aðeins farinn að taka lit (en ekki brenna) stráði ég 1 1/2 msk af hveiti yfir, hrærði vel og hellti svo 350 ml af mjólk smátt og smátt út í og bakaði upp jafning.
Ég lét þetta malla í svona 5 mínútur og kryddaði með salti, pipar og 1/2 tsk af þurrkuðu timjani. Ef sósan verður of þykk má bæta við skvettu af annaðhvort mjólk eða pastasoði.
Þegar pastað var soðið hellti ég því í sigti og lét renna af því og hellti því svo saman við sósuna og blandaði. Ég var búin að smyrja lítið, eldfast mót og var rétt að byrja að hella pastanu í mótið til að stinga því svo í ofninn og hugsaði ,,hva, þetta er bara tilbúið“ – en þá mundi ég eitt.
Þetta átti víst að’ vera túnfiskpasta.
Svo að ég steinhætti við að hella pastanu í mótið. Opnaði túnfiskdós, lét olíuna (eða vatnið) renna af fiskinum og setti hann út í. Og svo mundi ég að ég átti basilíku og ákvað sð saxa svolítið af henni og blanda saman við. En það má sleppa henni, því að ef hún er notuð er þetta jú ekki lengur eins ódýr réttur …
Ég hrærði túnfiskinum og basilíkunni saman við pasta og sósuna. Passaði samt að hræra ekki of mikið því ég vildi ekki að túnfiskurinn færi alveg í mauk, heldur losnaði bara sundur í flögur.
Og þá var að því komið að hella öllu saman í formið og jafna. – Ég átti dálítið kryddað rasp með parmesan síðan ég eldaði rauðsprettuna fyrr í vikunni og stráði nokkrum matskeiðum af því yfir. En það’ má líka nota bara venjulegt rasp (gjarna blandað rifnum parmesanosti). Eða bara parmesanost. Eða þá einhvern annan rifinn ost.
Ég bakaði þetta svo neðarlega í ofni í 20 mínútur.
Þetta var nú barasta alveg ágætur matur. – Í staðinn fyrir túnfisk mætti líka nota t.d. skinku, steikt beikon, kjúklingaafganga og ýmislegt annað.
Bakað túnfiskpasta
200 g penne rigate eða annað pasta
salt
2 msk smjör
1 laukur
1 hvítlauksgeiri
1 1/2 msk hveiti
350 ml mjólk
1/2 tsk þurrkað timjan
pipar
1 dós túnfiskur
nokkur basilíkublöð (má sleppa)
nokkrar matskeiðar af raspi, gjarna blönduðu parmesanosti (eða rifinn ostur)
haha ég bauð einu sinni fólki heim í eggaldinlasagna, kunni uppskriftina utan að og horfði ekki á hana – og svo steingleymdi ég lasagnaplötunum 😀