Það rann upp fyrir mér í dag að það er alveg óskaplega langt síðan ég hef eldað saumsprettu. Eða ég meina sko auðvitað rauðsprettu en hún er gjarna kölluð saumspretta á mínu heimili; það má rekja til þess þegar vinkona litlu systur minnar tilkynnti, einhverntíma fyrir óralöngu: ,,það er saumspretta í matinn hjá mér“.
Ég held að ég hafi samt aldrei lagt í að reyna að dulbúa hana sem ýsu á þeim árum sem sonur minn, þá barn og unglingur, var alveg harður á því að hann borðaði sko engan fisk nema litla ýsu. Árum saman voru flestir fiskar lítil ýsa og runnu ágætlega niður. En einhverju sinni spurði hann – þá orðinn hálffullorðinn – yfir kvöldverðinum af hverju ýsan væri ekki sérlega góð og þá gat ég ekki stillt mig lengur og sagði: ,,Af því að þetta er ýsa.“ – Nei, ég er ekkert sérlega hrifin af ýsu. Tek allavega aðra fiska fram yfir hana ef þeir eru í boði.
Rauðspretta – eða skarkoli – er annars afbragðsmatur. Nema auðvitað hún sé ofelduð; fiskur þolir almennt ofeldun illa en rauðspretta finnst mér fara sérlega illa út úr slíkri meðferð. Hún er svo mjúk og mild og ,,lin“. Ég keypti eitt flak – hvítu hliðina – og velti því fyrir mér á heimleiðinni hvernig ég ætti að elda hana. Mundi að ég átti bæði vínber og rjóma og datt snöggvast í hug að vera nú klassísk og elda sole veronique – en ég á ekkert vermút svo það gengur ekki … Þannig að ég ákvað að baka hana í ofni.
Hér er rauðsprettuflakið, 350-375 g eða svo, sem ég er búin að skera í tvennt. Tvær brauðsneiðar (samlokubrauð úr búð í þetta skipti, ég þurfti að búa til rasp í skyndi í gær og átti ekkert bakað brauð – það var til núna en ég ákvað að nýta samlokubrauðið aftur í rasp fyrst það var til), 40 g smjör, biti af parmesanosti, 2-3 timjangreinar (má sleppa eða nota þurrkað timjan), hálf sítróna, pipar og salt.
Ég kveikti á ofninum og stillti hann á 200°C. Svo bræddi ég smjörið í kastarholu og klæddi bökunarplötu með álpappír. Penslaði hana með dálitlu smjöri, lagði rauðsprettuna á hana með roðið niður, penslaði með aðeins meira smjöri og kryddaði með pipar og salti.
Ég reif brauðið í bita og setti í matvinnsluvélina.Skar parmesanostinn í litla bita, reif börkinn af sítrónunni og plokkaði laufin af timjaninu og setti þetta allt í vélina og lét hana ganga þar til komið var fíngert rasp en þó með dálitlum parmesanmolum (þess vegna skar ég ostinn niður en reif hann ekki, ég vildi hafa molana). Ég stráði góðu lagi af raspi yfir rauðsprettuna en þó var helmingurinn eftir – ég bjó viljandi til meira en ég þurfti því það getur verið gott að eiga rasp. Rasp úr þurru brauði geymist mjög vel í lokuðu íláti en ég geymi þetta í kæli og ekki mjög lengi út af ostinum.
Svo dreypti ég afganginum af smjörinu yfir fiskinn og reyndi að hafa það frekar jafnt. Setti þetta í ofninn á næstefstu rim (þarf að vera ofarlega, efstu eða næstefstu) og bakaði í sléttar 7 mínútur. 8 ef flökin eru þykk (af rauðsprettu að vera) en þessi voru það nú ekki.
Ég færði svo rauðsprettuna yfir á fat (best að nota langan og breiðan spaða en pönnukökuspaði gæti dugað) og bar fram með soðnum kartöflum, Little Gem-salati og sítrónubátum. Dálítið af bráðnu smjöri varð eftir á plötunni og ég hellti því yfir kartöflurnar.
Raspið var stökkt og bragðmikið en þó ekki yfirþyrmandi og safarík og mild rauðsprettan fékk alveg að njóta sín. Ansi gott bara.
[…] í formið og jafna. – Ég átti dálítið kryddað rasp með parmesan síðan ég eldaði rauðsprettuna fyrr í vikunni og stráði nokkrum matskeiðum af því yfir. En það’ má líka nota bara […]