Ég er dálítið upptekin þessa dagana og það getur verið að bloggpóstarnir verði eitthvað færri á meðan, sé til með það. En ég þurfti að erindast eftir vinnu í dag, kom seint heim, skjálfandi úr kulda og sársvöng, og átti fljótt erindi út aftur svo að ég þurfti að gera eitthvað fljótlegt og yljandi og nærandi.
Það var til afgangur af hrísgrjónum frá því í gær. Og þegar maður á dagsgömul hrísgrjón sem eru aðeins farin að þorna, þá liggur eiginlega alveg lóðbeint við að gera úr þeim steikt hrísgrjón því steikt hrísgrjón eiga ekki að vera nýsoðin, þau eiga einmitt að vera köld og farin að þorna aðeins því annars verða þau ekki góð. Og svo höfðu steikt hrísgrjón borist í tal í vinnunni í hádeginu og ég átti smávegis kjúkling sem ég þurfti að koma í lóg. Svo þetta var borðliggjandi og um leið og ég kom inn úr dyrunum náði ég í wokpönnuna og fór að skera niður engifer og hvítlauk og vorlauk og kjúkling.
Í sjálfu sér er hægt að nota nánast hvað sem er í steikt hrísgrjón, það eina sem er nauðsynlegt er dagsgömul hrísgrjón (ef maður þarf að nota nýsoðin er um að gera að dreifa vel úr þeim á bökunarplötu eða bakka og láta rjúka vel úr þeim og helst að láta þau kólna alveg), egg og – ja, þá er það eiginlega upptalið, allt annað er smekksatriði. Eða skápsatriði, þ.e. fer eftir hvað maður á í skápunum.
Ég átti semsagt soðin hrísgrjón og kjúkling.Og egg og vorlauk og smávegis spínat og nokkra tómatbáta og kóríanderlauf. Hitt var nú bara það sem maður á hvort eð er, allavega ef maður eldar einhverntíma eitthvað austurlenskt.
Þið afsakið hvað myndirnar eru lélegar, dagsbirtan var eiginlega alveg búin.
En ég byrjaði á að saxa bita (2-3 cm) af engifer og tvo hvítlauksgeira smátt og skar svo hvíta og ljósgræna hlutann af tveimur vorlaukum niður. Hitaði svo wokpönnuna vel og hellti 1 msk af olíu í hana, hún á að vera (næstum) rjúkandi heit. – Ekki gera þetta í öfugri röð, þ.e. byrja á að kveikja undir wokpönnunni og ætla að skera hráefnið niður á meðan hún hitnar. Það fer illa, ég tala af gamalli reynslu.
Ég setti svo engifer, hvítlauk og vorlauk á pönnuna og veltisteikti þetta við háan hita í svona eina mínútu.
Ég átti nokkrar kjúklingalundir – svona 200 g – sem ég var búin að skera niður í þunnar ræmur. Setti hluta af þeim á pönnuna og steikti við háan hita og hrærði stöðugt – bætti svo við öðrum skammti og hélt áfram þar til allt var k0mið á pönnuna. Ekki setja allt á pönnuna í einu, þá dettur hitinn niður og kjúklingurinn soðnar í stað þess að steikjast.
Ég kryddaði með pipar og salti, veltisteikti kjúklinginn í svona 3 mínútur, þar til hann hafði allur tekið lit, og hellti svo öllu af pönnunni í skál og þerraði hana með eldhúspappír.
Ég setti 2 msk af olíu í pönnuna og hitaði hana vel, það á næstum að koma reykur – en ekki alveg. Ég var búin að hræra saman 2 egg, 1 tsk af sesamolíu (má sleppa ef hún er ekki til) og 1 tsk af sojasósu og nú hellti ég blöndunni á pönnuna og lækkaði hitann niður í meðalhita.
Svo steikti ég eggin í svona 2 mínútur og hrærði á meðan.
Svo setti ég hrísgrjónin út í og steikti þau við meðalhita í svona 3 mínútur og hrærði oft á meðan.
Svo setti ég kjúklinginn út í, bætti við skvettu af austurlenskri chilisósu, svona matskeið af sojasósu og örlitlu vatni og lét sjóða í fáeinar mínútur og hrærði oft. Bætti að lokum lófafylli af niðurskornu spínati, grænu blöðunum af vorlauknum og fáeinum tómatbátum sem ég átti til út í – en það er í sjálfu sér hægt að setja alls konar grænmeti.
Smávegis kóríander skaðar ekki.
Þetta tók allt svona 15 mínútur, mér hlýnaði verulega og varð södd og tilbúin að takast á við kuldabola aftur. En fór í kreppuminkapelsinn minn í þetta skipti.
Uppfært: setti inn aðeins betri myndir.