Æ, ég veit ekki með sykurskattinn. Auðvitað er fyllsta ástæða til að reyna að draga eins og hægt er úr sykurneyslu og allt það en ég held að það hefði þá verið mun meira vit og gagn í að hækka álögur á gosdrykki og sælgæti fremur en sykurinn sjálfan. Gott ef landlæknisembættið var ekki sömu skoðunar.
Ég var nú ekki að hamsta sykur, nota ekki það mikið af honum hvort eð er. Kannski baka ég eitthvað minna á næstunni en ég er hvort eð er ekki sérstaklega mikið fyrir mjög sætar kökur og ef ég er að styðjast við einhverja uppskrift minnka ég oft sykurmagnið hressilega. Ekki síst í amerískum uppskriftum.
En allavega, ég ákvað að baka eitthvað sætt svona í tilefni af sykurskattinum og þegar ég var í Bónus áðan ákvað ég að mig langaði í brúnkur (brownies). Einhverjar sætar og súkkulaðiríkar og mjúkar og pínulítið seigar. Mér datt í hug að baka þær frægu Knock you naked-brownies, sem eru upprunnar á veitingahúsinu Salt Creek Steakhouse í Colorado og ýmsir hafa tileinkað sér en ákvað svo að gera eitthvað mun einfaldari útfærslu – eiginlega eins einfalt og hægt er að hafa brúnkur, ekki einu sinni hrærivél eða þeytari eða neitt. Í Knock-you-naked-brúnkunum er líka notað kökumix úr pakka og ég er ekki mikið fyrir svoleiðis.
Semsagt, í tilefni af sykurskattsdeginum eru hér Knock-you-half-naked-brúnkur:
Ég hitaði ofninn í 180°C. Vigtaði 200 g af púðursykri og 70 g af hveiti, bætti við 1 tsk af lyftidufti og tíndi svo til 200 g súkkulaði, 200 g smjör, 3 egg, 80 g af grófmuldum valhnetukjörnum, 125 g af súkkulaðidropum og 150 g af karamellukurli.
Ég setti smjörið og súkkulaðið í pott, hafði hitann eins vægan og mögulegt er og bræddi þetta gætilega. Hrærði oft í á meðan. Það má auðvitað líka bræða þetta í örbylgjuofni en ég á ekki svoleiðis.
Ég slökkti undir pottinum áður en súkkulaðið og smjörið var fullbráðið því ég vildi alls ekki hita það of mikið og hrærði með sleikju þar til það var bráðið og blandan var alveg slétt. Lét hana svo kólna í fáeinar mínútur.
Svo braut ég eggin í skál og hrærði þeim saman við volga súkkulaðiblönduna.
Ég blandaði saman hveiti, púðursykri, lyftidufti og hnetum í skál, hellti súkkulaðiblöndunni yfir og blandaði saman með sleikju.
Svo blandaði ég súkkulaðidropunum og karamellukurlinu saman við. Ég var búin að klæða rétthyrnt form (sirka 25×40 cm, eitthvað svoleiðis) með eldhúspappír og svo hellti ég deiginu í formið og jafnaði með sleikjunni. Setti það svo í ofninn á næstneðstu rim.
Ég var ekki alveg viss með bökunartímann en stillti klukkuna á 25 mínútur og fylgdist með kökunni þegar líða tók á tímann. Eftir 22 mínútur sá ég að hún var alveg nógu bökuð og tók hana út, þannig að 20-22 mínútur ætti að vera hæfilegur bökunartími.
Ég lét kökuna hálfkólna í forminu og skar hana svo í ferninga, fremur litla. En svo gat ég ekki beðið lengur …
Þetta eru alveg hrikalega góðar brúnkur. Alveg sykurskattsins virði – ég meina, ef maður þarf að borga stórfé fyrir sykurinn er eins gott að nota hann sjaldnar og þá í eitthvað almennilegt …
Hálfnektarbrúnkur
200 g smjör
200 g súkkulaði
200 g púðursykur
3 egg
70 g hveiti
1 tsk lyftiduft
80 g grófmuldar valhnetur
125 g súkkulaðidropar
150 g karamellukurl
Yngri dóttirin bakaði þessar í kvöld mínus karamellukurl (áttum ekki). Voðalega góðar 🙂
Já, karamellukurlið er nú bara viðbótarsukk og ekkert bráðnauðsynlegt …
Verður samt örugglega bætt i næst. Notuðum reyndar pekanhnetur í stað valdittó. Ekki verra.
Var rosa ánægð þegar ég sá uppskriftina að þessum girnilegum brownies og engin egg, af því dóttir mín er með eggjaofnæmi! Byrjaði að skrifa hana niður og fór svo að skoða hvernig á að bera sig til og þá voru allt í einu egg á myndinni og skv. lýsingu -vonbrigði 😦
Það er rétt, þau hafa fallið niður í hráefnislistanum sem ég setti inn eftir á (þegar ég er búin að skrifa uppskriftina þar sem eggjanotkunin kemur rækilega fram) en Marta María hefur svo sett þann lista inn á Smartland þannig að hann verður meira áberandi en hitt. En ég skal athuga þegar ég kem suður (er stödd úti á landi) hvort ég finn ekki í fórum mínum einhverja girnilega eggjalausa brúnkupppskrift.
Takk kærlega, það væri frábært!
Gerði þessar í dag en sleppti hnetum, og í staðinn fyrir kurlið setti ég hvíta súkkulaðidropa …….
algjört sælgæti ! Takk 🙂